Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

„Mikið að gerast í íslenskri hönnun,“ segir Elínrós Líndal
Laugardagur 30. júlí 2011 kl. 12:25

„Mikið að gerast í íslenskri hönnun,“ segir Elínrós Líndal

Elínrós Líndal stofnandi framleiðslufyrirtækisins ELLA er fædd og uppalin í Keflavík til 7 ára aldurs en segist alltaf líta á sig sem Keflvíking. „Ég hef alltaf verið með annan fótinn hér, ég ólst að hluta til upp hjá ömmu minni og afa; þeim Fjólu Eiríksdóttur og Haraldi Línal á Framnesveginum og á því margar góðar minningar síðan þá. Nú eru þau bæði fallin frá en hluti af fjölskyldunni býr hér ennþá og erum við afar samrýmd sem er gott. Ég hef gríðalega sterkar taugar til Keflavíkur - hér býr yndislega hlýlegt og gott fólk og veit ég fátt skemmtilegra en að koma hér við þrátt fyrir að ég verði að viðurkenna að eftir fráfall ömmu hafa heimsóknunum fækkað töluvert.“

Elínrós flutti til Keflavíkur átján ára að aldri og vann um tíma m.a. á Flughótelinu með námi sínu í Verzlunarskóla Íslands. ,,Ég bjó hér í nokkur ár á menntaskóla aldri og vorum við nokkur sem keyrðum á degi hverjum til að sækja nám í Reykjavík. Elínrós er menntuð Sálfræðingur og blaðamaður - með MBA meistaragráðu í stjórnun.

„Ég er eigandi og listrænn stjórnandi ELLU, sem er nýtt framleiðslufyrirtæki sem sérhæfir sig í Slow Fashion. Ég hef starfað við fyrirtækið í ein tvö ár, en við opnuðum netverslunina www.ellabyel.com 8. apríl síðastliðinn. Við erum ótrúlega ánægð að vera komin inn hérna í Dutyfree Fashion, það er mikil viðurkenning fyrir nýtt fyrirtæki. Ásta Dís nýr framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar er að leiða verslun þar á mjög spennandi staði þar sem boðið er upp á íslenska hönnun sem er einmitt það sem við viljum að ferðamennirnir okkar kynnist í heimsóknum sínum hér á landi. Fyrir okkur er þetta því kjörið tækifæri í viðleitni okkar að koma ELLU áfram á erlendri grundu - að kynna vöruna fyrir ferðamönnum víðsvegar um heiminn hér," segir Elínrós.


Elínrós segir margt spennandi að gerast í íslenskri hönnun. „Margir eru að vinna skemmtilega hluti í hönnun og vinnan er vönduð hérlendis. Við erum slow-fashion fyrirtæki eins og það kallast, í því fellst meiri áhersla á gæði og góð snið. Fyrirtækið er samfélagslega ábyrgt í framleiðslu sinni. Við framleiðum í Evrópu og kynnum okkur vel aðstæður fólk sem að framleiðslunni vinnur. Við viljum ekki nýta okkur fátækt fólks og bjóðum heiðarleg laun fyrir gott handverk.“


Elínrós starfar með fagfólki á ýmsum sviðum. M.a. Katrínu Maríu Káradóttur yfirhönnuð ELLU. Hún starfar einnig sem aðjúnkt við Listaháskóla Íslands og hefur unnið fyrir merki á borð við Christian Dior og John Galliano. „Með mér er fullt af góðu og sterku fólki,“ segir Elínrós sem segist vera mikill frumkvöðull í sér.


 „Ég hef starfað sem blaðamaður á Morgunblaðinu og fannst það frábært starf. Einnig lærði ég sálfræði því mig langaði að reyna fyrir mér á þeim vettvangi en áhugi minn á tískunni varð ofar öllu öðru sem er bara gott þar sem mikil sálarfræði og textaskrif nýtast í starfinu mínu í dag.“

„Eftir að tískumerkin fóru á hlutabréfamarkað á tíunda áratug síðustu aldar fór ég að finna fyrir síaukinni kröfu á ávöxtun eiginfjárs þeirra fjárfesta sem inn á markaðinn komu sem kom fram í lakari gæðum, meiri fjöldaframleiðslu og minni klassík. Af þessum sökum fannst mér vanta fleiri fallega sniðnar flíkur, gerðar á heiðarlegan hátt með það að markmiði að þær ættu að standast tímans tönn bæði þegar kemur að útliti og endaleika.“

„Í þeim efnahagslega árfarvegi sem við upplifum í dag, þurfum við að gera meiri kröfur til þess að flíkur endist. Þú notar 20% af fataskápnum þínum 80% af tímanum. Þannig ef að þú kaupir frekar 20% af þeim flíkum sem þú gerir vanalega á ári þá ertu buddan betur sett. Einnig er ómissandi að eiga einn góðan svartan kjól sem hægt er að dressa upp og niður. Þannig að ég er sannfærð um að ELLA eigi erindi í dag.“


„Við höfum náð vel til markhóps okkar en við höfum verið að selja á netinu og erum núna komin hingað í Fríhöfnina. Verslunin Kronkron hefur einnig verið að bjóða upp á kjóla og peysur frá ELLU og svo höfum við opnað okkar eigin verslun á Ingólfsstræti 5. Við höfum einnig fengið fjölmargar fyrirspurning erlendis frá og erum komin með umboðsmenn í London og New York, þannig að það er ýmislegt á dagskránni hjá okkur á næstu vikum og mánuðum.“


 „Við viljum þó vera einbeittar í því að vaxa rétt. Við höfum fengið tilboð frá stórri verslunarkeðju sem við erum að velta fyrir okkur, en framtíðarstefnan er að opna litlar verslanir sjálfar í New York og London svo við getum stýrt upplifun viðskiptavinarins á ELLU allt frá upphafi til enda.“


 Var ekkert erfitt að komast hérna að í Fríhöfninni?

„Ætli ég hafi ekki bara verið heppin,“ segir Elínrós og heldur áfram: ,,Ég hafði samband við Ástu Dís en ég hef lengi fylgst með því sem hún er að gera, hún er kona sem ég ber virðingu fyrir sem stjórnanda og ég hef mikla trú á því sem hún er að gera. Þetta finnst mér vera hugrekki að breyta svona stefnu Dutyfree Fashion búðarinnar og bjóða uppá íslenskt. Það er orðið löngu orðið tímabært að íslensk hönnun sé aðgengileg, enda er svo margt spennandi að gerast hér á landi í þeim efnum. Við höfum löngum verið þekkt fyrir tónlistina okkar, hreina náttúru og nú er án efa kominn tími tískunnar líka. Ísland er góður staður til að byrja rekstur á, að undanskyldri veikri krónu, því þú ert í svo mikilli nálægð við viðskiptavininn og íslenskar konur, sem eru algerlega ófeimnar við að vera þær sjálfar og segja þér hvað sé gott og hvað ekki, sem ég kann vel að meta,“ sagði Elínrós að lokum.

Mynd: Elínrós fyrir miðju með samstarfskonum og módelum sem klæðast fatnaði Ellu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024