Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Metum heilbrigðiskerfið sem stóð sig best af öllum í heiminum
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
sunnudaginn 26. apríl 2020 kl. 20:35

Metum heilbrigðiskerfið sem stóð sig best af öllum í heiminum

„Nú hringir enginn í síðdegis­þættina í útvarpinu frá Spáni til að tala illa um heilbrigðiskerfið á Íslandi og hvað allt sé betra í útlöndum. Það heyrist lítið frá því fólki því flest af því er komið heim í öryggið. Metum heilbrigðiskerfið sem stóð sig best af öllum í heiminum, ég fullyrði það,“ segir Ásmundur Friðriksson, alþingismaður, í Netspjalli við Víkurfréttir.

– Hvernig ertu að upplifa nýjustu tíðindi um að það muni jafnvel taka margar vikur inn í sumarið að aflétta hömlum vegna COVID-19?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Við erum vonandi búin að toppa veikindin og á næstu vikum fer álagi á heilbrigðiskerfið að minnka. Um leið og ég hlakka til sumarsins, góða veðursins og allrar gleðinnar sem sumarið býður upp á er mikilvægt að við förum varlega en ég trúi því að við komum hjólum atvinnulífsins og daglegs lífs af stað því það er líka lífsspursmál fyrir þjóðina.

– Hvaða lærdóm getum við dregið af heimsfaraldrinum?

Ég lít þá í eigin barm og segi við sjálfan mig. Ég kom sjálfum mér á óvart með rólegu lífi og hvað mér leið vel heima með Siggu í sóttkví og síðan í hálfgerðri sóttkví og sjálfskipuðu farbanni. Það hefur ekki verið svo mikill tími til að rækta hjónabandið og fjölskylduna eins og ég hef gert síðustu vikur og bætt upp fjarvistir síðustu ára. Fjölskyldan er hornsteinn lífsins.

Samfélagið ætti að meta betur hvað í raun mikið er gert fyrir okkur og við ættum að temja okkur meira þakklæti fyrir bæinn okkar og landið sem við búum í. Nú hringir enginn í síðdegisþættina í útvarpinu frá Spáni til að tala illa um heilbrigðiskerfið á Íslandi og hvað allt sé betra í útlöndum. Það heyrist lítið frá því fólki því flest af því er komið heim í öryggið. Metum heilbrigðiskerfið sem stóð sig best af öllum í heiminum, ég fullyrði það. Þökkum fyrir góða leiðsögn í gegnum hremmingarnar og ekki ástæða til annars en sú leiðsögn verði góð út úr faraldrinum til venjulegs daglegs lífs.

Vonandi auðnast okkur að skipa málum þannig að við komum sterkari og samstæðari samfélag út úr hremmingunum en við vorum áður.

– Hvernig varðir þú páskunum?

Heima með Siggu. Fórum í boð með tveimur dætrum af fimm börnum á föstudaginn langa, tengdasyni og þremur barnabörnum og fékk þann hóp í mat á páskadag. Þá vantar dóttur mína í Eyjum og hennar börn og mann, Magnús Karl var í einangrun í Barcelona og Friðrik á kolmunaveiðum við Írland alla páskana.

– Hvað var í páskamatinn?

Lambahryggur með tilheyrandi meðlæti, Kjörís og rjómi.

– Hvaða aðferðir ertu að nýta til að eiga í samskiptum við fólk?

Hef fundað mikið í nefndum þingsins og þingflokki síðustu vikur á Zoom. Við Sigga erum í sambandi við börnin okkar á hverjum degi, stundum náum við þeim öllum en alltaf mikil samskipti. Þá er ég duglegur að hringja í vini og vandamenn og þarf ekki páska í það. Heimsóknum er haldið í lágmarki eins og öðrum beinum samskiptum. Geng á hverjum degi, mismunandi langt en frá tíu til fimmtán kílómetra.

– Ef þú fengir bara að hringja eitt símtal í dag, hver fengi það símtal og hvers vegna?

Fjölskyldusímtal á Messenger þar sem við erum öll fjölskyldan í góðum gír og stutt í sprellið.

– Ertu liðtækur í eldhúsinu?

Já, ég er það þegar ég er beðinn eða tek mig til. Ég er kannski ekki frumlegasti kokkurinn eða kem öllum á óvart í matargerðinni. Ég er bara nokkuð sleipur í þessu einfalda og góða sem hefur haldið lífi í Íslendingum í aldir.

– Hvað finnst þér virkilega gott að borða?

Allur hefðbundinn, íslenskur matur, kjöt og fiskur. Svo hefur ástarsamband mitt og ísskápsins á heimilinu varað í áratugi og hann geymir allt sem biður mig að borða sig þegar ég á ekki að borða.

– Hvað finnst þér skemmtilegast að elda?

Beinlausa fugla sem ég elda á aðfangadagskvöld. Siður sem langamma mín og langafi, Elín og Friðrik á Löndum, tóku upp á sínum fyrstu jólum í búskap 1903 og hefur síðan verið óslitið á borðum einhvers úr fjölskyldunni. Hjá mér alla ævi.

– Hvað var bakað síðast á þínu heimili?

Atkinsbrauð og pizzusnúðar.

– Ef þú fengir 2000 krónur. Hvað myndir þú kaupa í matinn?

Nætursaltaða ýsu.

Hvaða spurningu hefðir þú viljað fá að svara í þessu viðtali? Hver er spurningin og svarið við henni?

– Ertu bjartsýnn á framtíð Suðurnesja?

Já, mjög. Við búum við risjótt veðurfar og risjótta afkomu atvinnulífins. Þekkjum sveiflur og dali en við rísum alltaf aftur upp og eigum að nýta á jákvæðan hátt þá grósku sem jarðvegur er fyrir hér á Suðurnesjum.