Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Metnaðarfullur formaður NFS
Jón Ragnar Magnússon formaður NFS
Föstudagur 2. nóvember 2018 kl. 06:00

Metnaðarfullur formaður NFS

Við eigum að leika okkur og læra að vinna saman á þessum árum

Jón Ragnar Magnússon ákvað að gefa fleiri nemendum skólans tækifæri til formennsku í nefndum þegar hann tók sjálfur við formennsku í Nemendafélagi Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Honum líður best þegar hann og þeir nemendur sem starfa með honum eru búin að standa að skemmtun á vegum skólans sem heppnast vel.

Tekur það á að vera formaður?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Já þetta er mjög krefjandi en samt svo skemmtilegt. Ég læri mikið af því að vera í formennsku NFS. Það byggir upp sjálfstraust og maður lærir að vinna með öðrum í hóp en við erum sex talsins í stjórn NFS og erum þar að auki í samstarfi við ótal nefndir sem starfa á vegum nemenda skólans. Við reynum alltaf að hafa eitthvað í gangi á tveggja vikna fresti og fáum lánað 88 húsið hér í bænum því hérna er ekki félagsaðstaða. Auðvitað ætti skólinn sjálfur að eiga félagsaðstöðu hérna. Þetta er alveg fáránlegt að svona stór skóli eigi ekki félagsaðstöðu fyrir nemendur sína. Við erum í mjög góðu samstarfi við stjórnendur skólans sem styðja við okkur eins og þeir geta en skólann vantar stærra húsnæði og við finnum vel fyrir því, við sem stýrum félagslífi skólans,“ segir Jón Ragnar.

Hefur góða reynslu af félagsstarfi

Formaður NFS er enginn nýgræðingur í félagsstarfi en hann hafði áður verið í ungmennaráði Reykjanesbæjar og gegndi þar formennsku í tvö ár. Jón Ragnar vann stóru upplestrarkeppnina á sínum tíma og er nýhættur í tónlistarnámi en það nám hafði hann stundað í mörg ár. Nú vendir hann kvæði sínu í kross og notar krafta sína í formennskustarfið og námið en hann útskrifast sem stúdent í vor.

„Það gaf mér mikið að starfa í ungmennaráði og að taka þátt í Ungt fólk og lýðræði á vegum UMFÍ. Þegar ég bauð mig fram til formennsku í NFS þá fannst mér ég vera tilbúinn og hafði trú á mér í starfið. Ég ætla að verða besti formaðurinn,“ segir Jón Ragnar létt og hlær en undir niðri er honum alvara því hann segist vilja sjá öflugt starf í skólanum og engan klíkuskap.

„Mér finnst gaman að sjá nemendur skemmta sér vel á þeim viðburðum sem við stöndum fyrir. Við hlustum á hugmyndir allra nemenda, hvað þeir vilja gera og þegar hlutirnir heppnast vel þá líður mér vel. Hér er mjög öflugt félagsstarf. Ég vildi taka þetta í gegn þegar ég byrjaði sem formaður og opna leiðina fyrir fleiri nemendum, ég vil að öllum líði vel í félagslífi skólans. Ég vil koma nýnemum að og þeim sem vilja starfa í félagsstarfi, ekki bara einhverjum vinum vina,“ segir hann.

Járnbekkir eru hingað og þangað um húsnæði skólans.

Kraftur í ungu fólki

Umræðan færist yfir í andlega líðan nemenda á þessum árum og Jón Ragnar segir að það geti stundum verið krefjandi að vera til í dag.
„Félagslíf og andleg líðan leiðist hönd í hönd. Okkur líður betur þegar við erum að umgangast aðra. Fyrir tuttugu árum gastu farið í rúmið og sofnað fljótlega en núna eru margir krakkar sítengdir farsímanum sínum og fá ekki þessa ró fyrir svefninn því síminn er að trufla. Þetta eykur spennu. Sumir eru einnig einangraðir félagslega. Þessi ár eiga að vera skemmtileg og jafnvel besti tími lífs þíns. Við viljum virkja nemendur og það gengur vel. Það eru ótrúlega margar nefndir starfandi í skólanum og nefni bara sem dæmi markaðsnefnd, skreytinefnd, íþróttanefnd, málfundafélagið Kormák þar sem við æfum meðal annars rökræður, ritnefnd sem sér um að gefa út Vizkustykki, skemmtinefnd, stuttmyndanefnd sem heitir Hnísan og Vox Arena leiklistarnefnd. Félagsstarfið í FS er fyrir alla nemendur og á þessum árum erum við flest hraust og skuldum yfirleitt lítið. Við eigum að leika okkur og læra að vinna saman á þessum árum. Við erum oft að eignast vini fyrir lífstíð. Það er gott að taka hugann frá bókunum öðru hvoru og hitta aðra krakka,“ segir Jón Ragnar.

Þegar talið berst að húsnæðisvanda skólans þá liggur hann ekki á skoðun sinni.

„Já við finnum líka vel fyrir þessum þrengslum í matsalnum og þegar það er allt fullt í hádegishléi þá fara margir nemendur út í bíl til þess að borða matinn sinn. Það er ekki einu sinni pláss fyrir okkur í matsalnum!“

Skólinn hefur fengið gefins nokkur sófasett svo nemendur geti sest niður.