Metnaðarfullir FS-ingar í MORFÍs
- Fjölmargar vinnustundir að baki einni ræðukeppni
MORFÍs, Mælsku- og rökræðukeppni framhaldsskóla á Íslandi, stendur nú sem hæst en framundan er viðureign Fjölbrautaskóla Suðurnesja og Menntaskólans við Sund í íþróttahúsinu við Sunnubraut þann 26. febrúar. Bjarni Halldór Janusson er liðsstjóri FS-inga í MORFÍs en hann var einnig hluti af liði skólans sem tók þátt í Gettu betur á dögunum. FS-ingar féllu þar úr keppni eftir bráðabana gegn sterku liði Borgarholtsskóla. Minnstu munaði að liðið kæmist í sjónvarpssal en það hefur aðeins gerst þrisvar áður í sögu skólans.
Bjarni sem er 18 ára hefur búið í Njarðvík síðustu sjö árin. Áður bjó Bjarni með fjölskyldu sinni í Danmörku. Þegar kom að því að velja framhaldsskóla þá varð MR fyrst fyrir valinu hjá Bjarna. Hann varð þó fljótt þreyttur á því að vakna fyrir allar aldir til þess að sækja skólann í Reykjavík og koma seint heim á kvöldin. Auk þess er námið krefjandi í MR og gafst lítill tími fyrir annað en lærdóminn. Það er augljóst að Bjarni er sterkur á fleiri sviðum en náminu enda ansi krefjandi að vera bæði í MORFÍs og Gettu betur. Fæstir vita kannski hvað það er sem felst í þeirri vinnu sem fer í það að vera með samkeppnishæft lið í þessum keppnum. Við spurðum Bjarna spjörunum úr varðandi þessar keppnir og lífið í FS.
Af hverju tekur þú þátt í MORFÍs?
„Ég prófaði að taka þátt í innanskólaræðukeppnum í gamla skólanum mínum (MR) og ákvað að fara í forprufurnar þar. Ég var settur þar í svokallað B-lið af því að ég var enn svo ungur. Þegar ég fór yfir í FS ákvað ég svo að kýla á þetta af fullum krafti.“
„Liðið er mjög gott og getur náð langt, við þurfum núna bara að skapa réttu stemninguna fyrir næstu keppni“
MORFÍs lið FS samanstendur af Bjarna sem liðsstjóra, Ólafi Ingva Hanssyni sem frummælanda, Sigurði Smára Hanssyni meðmælanda og Jóni Bjarna Ísakssyni stuðningsmanni. Bjarni segir að í raun sé ekki mikill metnaður fyrir þessum liðum hjá nemendum yfir höfuð. Þó sýni margir stuðning þegar vel gengur. „Þetta er svona svipað eins og með væntingar sem gerðar eru til félagslífsins. Fólk fer loksins að taka þátt og sýna áhuga þegar það gengur vel í einhverju,“ segir Bjarni en hann vonast til þess að með góðu gengi MORFÍs liðsins, þar sem liðið er einungis einni keppni frá undanúrslitum, og góðu gengi Gettu Betur liðsins, þar sem liðið var einungis einu stigi frá sjónvarpinu, aukist áhuginn hjá FS-ingum. Árið 2009 náðu FS-ingar alla leið í úrslit keppninnar þar sem þeir létu í minni pokann gegn Verzlunarskólanum.
Hvað þarf maður af hafa fram að færa til þess að komast í MORFÍs lið?
„Það eru ákveðnar týpur, á góðan hátt, sem komast inn í liðið. Þú þarft að hafa kjark í það að geta rökrætt og haldið ræður fyrir framan fólk, þú þarft að geta tekið pressunni. Metnaður er líka eitthvað sem þarf þar sem maður eyðir gífurlegri orku og miklum tíma í þetta. Ef þú ert ræðumaður þurfa málflutningur og tilþrif að vera í lagi,“ segir Bjarni en það er ekki laust við það að keppendur verði að vera með leikræna tilburði á hreinu. Tveir keppenda FS eru einmitt í leiklistinni.
Sem liðsstjóri sér Bjarni um að kynna sér efnið í þaula fyrir keppni, en það þarf að geta samið góð svör með skömmum fyrirvara þegar keppni fer fram. Annars hafa allir liðsmenn sitt hlutverk auk þess sem liðið hefur þjálfara sem býr yfir reynslu í keppninni.
80 tíma vinnuvika fyrir keppni
Fyrir síðustu keppni gegn FG eyddu liðsmenn um 80 klukkustundum á aðeins einni viku í undirbúningsvinnu. Viku fyrir keppni er samið við hitt liðið um umræðuefnið. Tími keppninnar er ákveðinn og undirbúningur hefst. Fyrir síðustu keppni var umræðuefni og tími ákveðið á föstudegi. Hafist var handa á laugardagsmorgni og unnið til klukkan 3:00 um nóttina. Sama var uppi á teningnum á sunnudeginum. Á virkum dögum var svo farið strax eftir skóla í 88 húsið við Hafnargötu þar sem liðið hefur aðstöðu og oftar en ekki æft fram yfir miðnætti. Um leið og ræður eru tilbúnar er nauðsynlegt að læra þær utanbókar. Auk þess þarf að finna hvaða rödd hentar, helstu áhersluatriðin í ræðunni og karakterinn fyrir ræðumanninn sjálfan. Bjarni segir að liðsmenn hafi sporðrennt ansi mörgum pizzusneiðum á æfingum sem oft standa langt fram á nótt. Góður andi er meðal liðsins og stemning á æfingum.
„Liðið er mjög gott og getur náð langt, við þurfum núna bara að skapa réttu stemninguna fyrir næstu keppni,“ segir Bjarni en það myndast oft mikil stemning á MORFÍs keppnum. Þeir sem ekki hafa sótt ræðukeppni vita líklega ekki að þar myndast mikil stemning og spila áhorfendur stórt hlutverk í uppfærslunni ef svo mætti segja. Bjarni og strákarnir í liðinu vonast til þess að sjá sem flesta FS-inga á keppninni nk. miðvikudag. „Við stefnum alla leið í úrslitin og treystum á stuðning FS-inga,“ segir liðsstjórinn að lokum.
- Besti árangur FS í Gettu betur: Komust í 8-liða úrslit 2009 gegn MH. 8-liða úrslit árið 2003 gegn MS. 8-liða úrslit gegn Verzló árið 1990. 8-liða úrslit 1986 en þau voru ekki sýnd í sjónvarpi.
- Besti árangurinn í MORFÍs var árið 2009 þegar liðið komst alla leið í úrslit gegn Verzló en liðið tapaði þeirri keppni.)
- Þjálfarar liðsins eru þau Arnar Már Eyfells, fyrrum ræðuskörungur FS-inga og fyrrum framkvæmdastjóri MORFÍs, og Salka Valsdóttir, fyrrum liðsstjóri hjá MH.