Metnaðarfull uppfærsla á Tosca
Hin heimsfræga og vinsæla ópera Tosca eftir Puccini verður sett upp í Keflavíkurkirkju nú 12. og 14. ágúst með frekar óhefðbundnum hætti. Fyrsti þáttur óperunnar fer fram í Keflavíkurkirkju og svo færist annar þáttur óperunnar út í safnaðarheimili kirkjunnar. Loks fer þriðji og síðasti þáttur óperunnar fram í garðinum milli safnaðarheimilisins og kirkjunnar.
Áhorfendur munu flytja sig milli rýma á milli þátta og taka þannig virkan þátt í sýningunni. Óperan er flutt á ítölsku með píanó, orgel, flautu og slagverks undirleik. Tónlistarstjóri er Antonia Hevesi og leikstjóri er Jóhann Smári Sævarsson sem sagði í samtali við Víkurfréttir að þetta væri sennilega í fyrsta sinn sem þetta verk er sett upp með þessum hætti.
Meðal söngvara í uppsettningunni eru Bragi Jónsson og Bylgja Dís Gunnarsdóttir. Jóhann Smári sjálfur, Bergþór Pálsson, Magnús Guðmundsson, Jóhann Friðgeir Valdimarsson og Kristján Þorgils Guðjónssson. Hægt er að nálgast miða á midi.is
Mynd: Bylgja Dís Gunnarsdóttir fer með hlutverk Toscu.