Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

 „Mér líkar ekki við hippa,“ segir Gúndi ljósmyndari
Sunnudagur 31. júlí 2011 kl. 11:35

„Mér líkar ekki við hippa,“ segir Gúndi ljósmyndari


Guðmundur Freyr Vigfússon, betur þekktur sem Gúndi, er ljósmyndari sem upphaflega ól
manninn í Njarðvíkum en starfar nú og býr í San Francisco í Bandaríkjunum. Þar hefur hann
komið sér vel fyrir ásamt eiginkonu sinni Namitu sem sjálf er frá úthverfi San Francisco.


„Ég er að vinna bara. Er lausamennsku ljósmyndari, í svipuðum pakka og ég var í heima, hérna
úti kallast þetta að vera editorial music ljósmyndari, svona svo ég slái um mig á útlensku,“ segir
Gúndi þegar hann er spurður um hvað hann sé að bralla í Bandaríkjunum.


„Ég gifti mig í júní í fyrra, það var rosa stuð. Við vinnum mikið saman hjónakornin, en hún er
listamaður sem fæst við ýmislegt. Síðasta stóra verkefni sem við unnum saman voru 250
handunnin verk fyrir Red Bull sem þeir gáfu samstarfsaðilum sínum sem valentínusargjöf.
Guðmundur og Namita kynntust á Ítalíu og fóru þangað á dögunum í langþráða brúðkaupsferð.
„Ég varð að bíða eftir því að fá græna kortið áður en ég gat farið úr landi. Kortið kom loks í vor,
þannig að ég er frjáls ferða minna.“ Gúndi er búinn að vera með annan fótinn í San Francisco
síðan 2007 og verið búsettur í borginni síðan 2009.


„Ég var á Ítalíu í 2 ár að læra grafíska hönnun og auglýsingagerð. Það var síðan á síðustu
önninni hjá mér sem ég kynntist Namitu. Hún kom í skólann sem skiptinemi að læra að mála
með olíu, ítalska matargerð og ítalska tungu. Við vissum af hvort öðru í gegnum sameiginlegan
vin og ákváðum að hittast og fara á stefnumót. Þetta stefnumót gekk vel svo við urðum
kærustupar. Við héldum síðan sambandi eftir að skólinn var búinn, vorum í hálfgerðri fjarbúð ef
svo má kalla, ákváðum síðan árið 2007 að láta reyna á þetta, þannig að ég flutti út og við giftum
okkur síðan í fyrra.“


Hvar lærðirðu ljósmyndun?
„Ég lærði ljósmyndun hjá Sissu og Leifi í Ljósmyndaskóla Sissu og fékk síðar vinnu hjá Dikta sem var stafræn myndvinnsluþjónusta í eigu Christopher Lund, ljósmyndara í Reykjavík. Það má segja að hjá þeim þremur (Chris, Sissu og Leifi) lærði ég tæknilegu hliðina á ljósmyndun.
Chris kenndi mér stafrænu hliðina s.s. filmuskönnun, litgreiningu og stafræna prentun. Í skólanum hjá Sissu lærði ég síðan að framkalla filmu og prenta í myrkrakompunni. Í skólann koma líka flestir af bestu ljósmyndurum Íslands og kenna, annað hvort nokkurra vikna kúrsa eða halda fyrirlestra, þannig að maður er vel undirbúinn til þess að fara út og vinna sem ljósmyndari
eftir útskrift.“


Áður en Gúndi fór út í ljósmyndun var hann að vinna sem grafískur hönnuður á Suðurnesjafréttum. Þar á undan hafði hann starfað hjá Keflavíkurverktökum sem naglahreinsari og uppáhellari.


Þótti ekkert sérstaklega gaman að vera grafískur hönnuður



„Ég hafði ekki sýnt ljósmynduninni neinn áhuga fyrr en ég fór að læra grafíska hönnun á Ítalíu. Í
skólanum þá þurftum við í grafísku deildinni að taka einn kúrs í pinhole ljósmyndun. Þetta er
ákveðin tegund ljósmyndunar þar sem maður notar ekki myndavél, heldur býr til ljóshelt box,
stingur á það lítið gat og notar síðan til að taka myndir, rosalega listrænt. Ég átti alls konar vélar,
smíðaðar úr skókössum, Pringles dósum og alls konar öðru drasli sem maður hendir yfirleitt.“
„Eftir að ég kom heim þá fattaði ég að mér þótti ekkert voða gaman að vera grafískur hönnuður
þannig að ég fór á námskeið hjá Sissu í svart-hvítri ljósmyndun. Við Sissa urðum strax miklir
vinir og hún bauð mér að koma aftur í skólann og taka þá lengra námskeiðið. Eftir það byrjaði
boltinn að rúlla og ég fór að mynda á fullu.“


Er það ekki hark að vera í þessari lausamennsku?

„Það má sjálfsagt kalla það hark að vera í lausamennsku. Málið er samt það að þegar maður er
að gera eitthvað sem maður hefur mikla ástríðu fyrir, þá frekar en að kvarta yfir því, er maður
þakklátur fyrir að fá að gera þetta allan daginn, alla daga. Einn af mínum uppáhalds
ljósmyndurum, Richard Avedon, sagði einhvern tímann: „Ef það líður dagur hjá án þess að ég
geri eitthvað sem tengist ljósmyndun, þá líður mér eins og ég hafi vanrækt hluta af sjálfum mér,
næstum eins og ég hafi ekki vaknað í morgun.“ (And if a day goes by without my doing
something related to photography, it's as though I've neglected something essential to my
existence, as though I had forgotten to wake up). Þetta á svolítið við hjá mér, ég get ekkert gert
án þess að hafa með mér myndavél, t.d. ef ég gleymi að taka með mér vélina á tónleika þá er
ég vælandi allan tímann yfir öllum tímamótamyndunum sem ég er að missa af, reyndar er það
þannig með mig að þegar ég mynda tónleika þá man ég ekkert eftir tónlistinni sem ég á að vera
að hlusta á, þannig að þetta er hálf vonlaus staða hjá mér.“


Leigubílstjóri með myndavél


„Ég hef samt ekki alltaf verið eingöngu í lausamennsku. Fyrsta vinnan mín sem ljósmyndari var
hjá Blaðinu þegar þeir byrjuðu, sem síðar var keypt af Mogganum, þá hætti ég. Ég hef líka verið
á DV, Grapevine og Birtingi sem gefur út Nýtt Líf, Séð og Heyrt, Gestgjafann og næstum öll hin
glossy blöðin á landinu. Frétta- og tímaritaljósmyndun hefur alltaf verið það sem mér þykir
gaman að gera. Það er mikil pressa og oft þarf maður að ná allt að 10 tökum yfir daginn,
tökurnar eru víðsvegar um borgina (Reykjavík í flestum tilfellum). Fyrrum kollegi minn átti það til
að kalla sig leigubílstjóra með myndavél, hann eyddi oft meiri tíma í að keyra á milli staða þar
sem hann þurfti að mynda heldur en hann eyddi í tökuna sjálfa.“


Verk eftir Gúnda liggja víða en hann hefur verið afar afkastamikill. „Það sem vakti mesta athygli voru sennilega forsíðurnar mínar fyrir Grapevine. Ég er líka búinn að taka helling af plötukoverum, m.a. fyrir Klassart, Hjálma, Baggalút, KK, Ragnheiði Gröndal, Guðmund
Pétursson og einhverja nokkra í viðbót. Ég var svo að gefa út ljósmyndabók með myndum af Hjálmum. Síðan tók ég að mér að mynda auglýsingamyndir fyrir Vinstri græna, Iceland Express,
Íslandspóst, skyr.is, Magic orkudrykk og ýmsa fleiri.“


San Francisco er ákaflega falleg borg sem hefur upp á margt að bjóða en hvað finnst Gúnda
best og verst við borgina frægu í Kaliforníu?
„Helstu kostir við að búa í San Francisco er, að mínu mati, hvað það eru sjúklega mikið af
góðum veitingahúsum hérna. Einhvern tímann heyrði ég að þú gætir farið út að borða á hverju
kvöldi í 6-7 ár án þess að fara tvisvar á sama staðinn. Almenningssamgöngur eru nokkuð fínar,
fólk kemst flest með lestinni eða strætó. Fólkið er alveg sjúklega kurteist, eiginlega of kurteist.
San Francisco er líka frekar lítil borg, bæði að flatarmáli og hvað varðar fólksfjölda. Síðan virðast
allir þekkja alla, borgin er ekki ólík Reykjavík að því leytinu til.“


„Uppáhalds hverfið mitt í borginni er sennilega Mission hverfið (mexíkóska hverfið). Þar er að
finna mikið af börum með lifandi tónlist og töluvert mikið af góðum veitingahúsum. Ég á samt fáa
uppáhalds staði, yfirleitt þá reyni ég bara að finna stað með góðum happy hour. Það er einn
japanskur staður (heitir Kansai) í Oakland sem er með happy hour rétt fyrir lokun. Við förum oft
þangað á þeim dögum sem við erum að vinna í vinnustofunni okkar í Oakland,“ en hjónin leigja
vinnurými í Oakland sem er handan flóans, farið er yfir Golden Gate brúna frægu, eða rúma 10
km utan við San Francisco.


„Síðan ef maður er í partístuði þá er mjög gaman að fara á Tiki bar og drekka stóra og litríka
kokteila. Aðal staðurinn heitir Tonga Room, það er tjörn þar inni og húshljómsveitin spilar á báti
á miðri tjörninni og á 20 mín. fresti þá rignir í tjörnina. Maturinn þeirra er skelfilegur en drykkirnir
eru stórir og andrúmsloftið er frekar spes.“


Gúnda finnst gaman að fara á grænmetismarkaðinn. „Það er markaður neðar í götunni okkar
sem er opinn á sunnudögum, við reynum alltaf að versla í matinn þar. Allt saman lífrænt, rosa
gott og mikið ódýrara en að versla í matvörubúð.“


Er tíður gestur í bóka- og myndavélaverslunum



„Það eru fáar verslanir sem ég hef gaman af því að fara í, helst eru það bóka- og
ljósmyndabúðir sem ég fer í. Uppáhalds bókabúðin mín er í Mission hverfinu, heitir Borderlands
og selur bara sci-fi bækur. Þau eiga líka hárlausan kött sem gaman er að klappa. Síðan er ég
tíður gestur hjá strákunum í Camera West, góð myndavélabúð með notað og nýtt.“




Líkar illa við hippa


Ókostir við borgina eru nokkrir. „Allar helvítis brekkurnar, getur gleymt því að ætla að hjóla um
borgina. Það er líka dýrt að búa hérna, húsaleigan er frekar há. Svo er allt of mikið af hippum
hérna, mér líkar ekki við hippa,“ segir Gúndi.


Þegar blaðamaður heyrði frá Gúnda þá var hann á leið til Indlands þar sem Namita kona hans
tekur þátt í raunveruleika sjónvarpsþætti. Þar ætlar þetta ævintýragjarna par svo að dvelja og
vinna að listsköpun sinni til loka ágústmánaðar. Það er því nóg um að vera hjá Guðmundi Frey
Vigfússyni um þessar mundir.

Myndir í einkaeign Gúnda.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024