Mér finnst ég vera heppin með fólkið í kringum mig

Grindvíkingurinn Kristín Anítudóttir Mcmillan spilar fótbolta með Grindavík í Pepsi-deild kvenna og er mikil íþróttastelpa, henni finnst nálægðin við höfuðborgina kostur og í vetur býr hún á Akureyri. Við báðum Kristínu um að svara nokkrum spurningum um lífið og tilveruna.

Hvað ertu að bralla þessa dagana?
Ég stunda nám í Menntaskólanum á Akureyri og spila fótbolta.

Hvað finnst þér best við það að hafa alist upp á Suðurnesjum?
Mér finnst ég vera heppin með fólkið í kringum mig, allir eru mjög vingjarnlegir og það þekkjast flest allir. Staðsetningin er góð, það er stutt í Keflavík og Reykjavík. Það er mjög mikið af íþróttafólki á Suðurnesjum og mér finnst það líka vera góður kostur við það að hafa alist upp hér þar sem ég er mjög mikil íþróttamanneskja.

Ef þú mættir mæla með einhverju einu af svæðinu fyrir ferðamenn eða þá sem búa ekki hér, hvað væri það?
Ég mæli með að fólk skoði sig um og fari ofan í Bláa Lónið.

Hvað ætlar þú að gera í vetur?
Ég bý á heimavist á Akureyri á veturna, þannig að ég verð bara að læra í vetur og með vinum mínum.

Hvað finnst þér mega fara betur í Grindavík?
Mér finnst vanta miðbæjarkjarna í bæinn okkar og svo mættu alveg vera einhverjir skyndibitastaðir sem eru í hollari kantinum eins og Serrano eða Local.