Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Menningin blómstrar í Grindavík
Laugardagur 2. apríl 2011 kl. 10:42

Menningin blómstrar í Grindavík

- Glæsileg menningarvika fram undan


Menningarvika Grindavíkur verður haldin 2.-9. apríl nk. undir yfirskriftinni Menning er mannsins gaman. Þetta er í þriðja sinn sem menningarvikan er haldin og er dagskráin fjölbreytt og skemmtileg en fjölmörg metnaðarfull atriði eru á dagskrá. Uppistaðan í dagskránni er framlag heimafólks en margt af fremsta tónlistarfólki þjóðarinnar kemur þar einnig fram. Má þar nefna Kristján Jóhannsson tenór, Magnús Eiríksson og KK. Jafnframt koma fram rithöfundarnir Ólafur Gunnarsson og Einar Már Guðmundsson, leikkonan Brynhildur Guðjónsdóttir og ýmsir fleiri. Af listburðum heimafólks má nefna árshátíðarleikrit grunnskólans, Okkar eigin Grindavík, kirkjukór Grindavíkurkirkju, Listastofu Helgu,  hljómsveitina RIP sem heldur upp á 30 ára starfsafmæli og framlag leikskóla, tónlistarskólans og fleiri aðila.

Auk þessa má nefna Þórhall Guðmundsson mikil, pottaspjall bæjarfulltrúa, Gola kvartettinn, tónleikana Dýrin mín stór og smá, Matthías Johannessen skáld og fyrrverandi ritstjóra, landsþekkta uppistandara og ýmislegt fleira.

Tónleikar, skemmtanir, frásagnir, sýningar og uppákomur verða alla dagana á bókasafninu, Bryggjunni, Salthúsinu, Aðal-braut, Veitingastofunni Vör, Kantinum, íþróttahúsinu, Kvennó, Víðihlíð, sundlauginni, Grindavíkurkirkju, leikskólunum, grunnskólunum, listastofum, Landsbankanum, verslunarmiðstöðinni, Aþenu og handverksfélaginu Greip.

Setning menningarvikunnar verður laugardaginn 2. apríl í Grindavíkurkirkju kl. 13:00. Þar verða menningarverðlaun Grindavíkur afhent.

Dagskrá menningarvikunnar er glæsileg en hana er hægt að nálgast á heimasíðu Grindavíkurbæjar, www.grindavik.is/menningarhatid.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024