Menningarvikan í Grindavík - Víðir leikstýrir árshátíðarleikriti grunnskólans
Árshátíð grunnskólans í Grindavík verður með hefðbundnu sniði en leikritið sem frumsýnt verður að þessu sinni þriðjudaginn 16. mars heitir Dúkkulísa og er eftir Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur leikkonu, leikskáld og rithöfund. Sambýlismaður hennar er Grindvíkingurinn Víðir Guðmundsson leikari en hann leikstýrir verkinu og er reyndar í því hlutverki annað árið í röð. Frumsýning leikritsins er hluti af menningarviku í Grindavík.
Verkið fjallar um Lísu sem er 15 ára og nýbúin að eignast barn. Leikritið gerist á einni kvöldstund og hefst heima hjá Lísu. Sæunn vinkona hennar sem er flutt úr bænum er í heimsókn og á leiðinni á ball í skólanum. Skyndilega er bankað á gluggann og þar birtist barnsfaðir Lísu sem hefur ekki séð hann frá því hún var ófrísk. Með honum er Diddi og eru þeir á leiðinni á ballið líka og undarleg stemmning myndast við þessar aðstæður. Diddi tekur upp bjór og eitt leiðir af öðru. Áður en langt er um liðið heldur Lísa af stað á ballið með barnið með sitt með sér. Hvað gerist við þessar aðstæður er ómögulegt að segja og verður ekki upplýst hér.
Að sögn Víðis er verkið er bæði skemmtilegt, fræðandi, fyndið og átakanlegt. Það varpar fram spurningum um hvað raunveruleg ábyrgð sé og hvað felist í því að hugsa um barn og í hverju vinátta sé fólgin.
Með aðalhlutverk fara Elísabet, Axel, Guðjón, Júlía, Kjartan Orri, Hanna Dís, Hulda Sif og Daníel auk þess sem að allur leikhópurinn sér um hópatriði o.fl.
En hvernig finnst Víði að vinna með þessum krökkum?
„Það er einstaklega gefandi að sjá þegar þau brjótast út úr skelinni og þora að verða eitthvað annað en þau eru í raunveruleikanum. Þegar allt smellur saman og hópurinn vinnur sem heild þá gerist galdurinn, leikhúsgaldurinn. Þessir krakkar eru frábærir og leggja sig fram við að gera hlutina vel, þess vegna er frábært að vinna með þeim," segir Víðir.
Víðir leikstýrir annað árið í röð hjá grunnskólanum en félagi hans í GRAL, grindvíski leikarinn Bergur Ingólfsson, hefur nokkrum sinnum leikstýrt við skólann. Er erfitt fyrir þá að segja nei við gamla heimabæinn?
„Já, það mætti segja það. Heimahagarnir eiga svolítið í manni."
- Hvers konar sýningu eigum við von á?
„Kraftmikilli sýningu, með húmor og hárbeittri ádeilu."