Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Menningarvikan í Grindavík - Fjölbreytt dagskrá á Bryggjunni
Föstudagur 12. mars 2010 kl. 16:37

Menningarvikan í Grindavík - Fjölbreytt dagskrá á Bryggjunni

Kaffihúsið Bryggjan tekur virkan þátt í menningarvikunni í Grindavík 13.-20. mars með ýmsum uppákomum en nokkrir af fremstu tónlistarmönnum þjóðarinnar mæta þangað. Að sögn Aðalgeirs Jóhannssonar á Bryggjunni verður fjölbreytnin í fyrirrúmi á menningarvikunni. Laugardaginn 13. mars verður sýnd myndin „Legið fyrir lúðu." Þessi mynd er tekin þann 1. september 1984.


„Þrír aldnir heiðursmenn fara á sjó frá Grindavík og ætla sér að fiska lúðu. Þeir hafa oft spjallað um það sín á milli hvernig lífið var í gamla daga. Það voru engin siglingatæki notuð þá og yfirleitt ekkert nema brjóstvitið. Samt voru þeir nokkuð vissir í sinni sök og vildu sýna unga fólkinu hvar lúðumiðin voru. Ólafur Rúnar Þorvarðarson tók þá á orðinu og hafði með sér upptökuvél. Þeir fóru vestur á Víkur á mið sem heita ,,á grösunum". Þeir renndu sínum færum sem voru af gömlu sortinni eins og notuð voru fyrir árið 1920, Sigurgeir átti þessi færi sem hann geymdi í skúrnum sínum síðan þá. Um leið og færið kom í botn beit lúðan á og þeir börðust við að koma henni um borð. Það kostaði mikið stímabrak og bresti. Þeir
fóru í land og lúðan vó hátt á annað hundrað kíló," segir Aðalgeir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Þeir sem tóku þátt í leiðangrinum voru allir komnir á efri ár. Sigurgeir Guðjónsson (Sigurgeir í Hlíð) og Jón Gíslason (Jón í Baldurshaga) voru báðir á níræðisaldri og Árni Guðmundsson (Árni í Tungu) var hátt í áttrætt. Myndin tekur klukkutíma í sýningu. Færeyskur kappróður verður sýndur á undan sem aukamynd.


Mánudaginn 15. mars verða tveir af fremstu listamönnum þjóðarinnar á Bryggjunni þegar hjónin Ellen Kristjánsdóttir og Eyþór Gunnarsson verða með tónleika.


„Eyþór á tengsl við Grindavík og vildi ólmur koma líkt og Ellen. Pétur Pétursson þulur var afi Eyþórs. Systir Péturs, Petrúnella, bjó í Grindavík en langömmubarnið hennar ber þetta nafn og býr í Grindavík í dag. Sonur Petrúnellu var Svavar Árnason, fyrsti heiðursborgari Grindavíkur, sem var organisti í Grindavíkurkirkju hálfa öldina," segir Aðalgeir.


Bryggjan býður jafnframt upp á bátasagnfræði en Grímur Karlsson sem var skipstjóri á Hamravíkinni og Bergvíkinni mætir. Grímur er ákaflega fróður um íslenska útgerðarsögu og hefur smíðað líkön af flestum fiskibátum sem sigldu undir íslenskum fána á síðustu öld. Þau eru mörg til sýnis í Byggðasafni Keflavíkur í Duushúsum. Grímur heldur fyrirlestur um bátana, útgerðarsögu, skipstjórasögu og sjómannasögu.


Söngtríóið Sárabót frá Grindavík tekur lagið. „Þar er æðstráðandi Siggi millimeter og með sér hefur hann þá Eirík Dagbjarts og Ella Magga og Ólafur Þórarinsson leikur á harmonikku," segir Aðalgeir.


Stigamenn verða með tónleika ásamt Árna Johnsen. Aðalgeir les jafnframt Grindavíkursögur.


Söngvaskáldið Gunnar Þórðarson úr Hljómum og Trúbroti verður með tveggja tíma konsert á Bryggjunni sem slær botninn í menningarvikuna þar.