Menningarvika í Grindavík hefst á morgun
Hvað eiga Eyþór Ingi, Matti Matt, Skálmöld, Ingó Veðurguð, Magnús Þór og Jóhann Helga, Gísli Einars, SAMSAM, Hafdís Huld, Poppkórinn Vocal Project, Gospelkór FS, hljómsveitin Lógós, Karlakór Grindavíkur, Bakkalágbandið og hljómsveitin S2000J sameiginlegt? Jú, allt þetta tónlistarfólk kemur fram í Menningarviku Grindavíkur sem verður sett í fimmta sinn á morgun.
„Menningarvikan hefur töluverða þýðingu fyrir okkur Grindvíkinga og þá helst í þá veru að hún þjappar fólki saman og blæs jákvæðni í fólk eftir myrkra vetrardaga. Samfélagið finnur að það er margt gott í gangi í Grindavík og ekki þarf að sækja alla menningarviðburði til höfuðborgarinnar,“ segir Kristinn Reimarsson, sviðsstjóri frístunda- og menningarsviðs Grindavíkurbæjar.
Menningarvika Grindavíkur er nú haldin í fimmta sinn og er dagskráin að vanda fjölbreytt og skemmtileg. Formleg setning hátíðarinnar verður í Grindavíkurkirkju laugardaginn 9. mars kl. 14:00 þar sem verða ýmis tónlistaratriði og jafnframt verða afhent menningarverðlaun 2013. Eftir setninguna tekur við hver viðburðurinn á fætur öðrum í menningarviku þar sem uppistaðan er framlag heimafólks auk þess sem fjöldi landsþekktra tónlistarmanna, listamanna og skemmtikrafta heimsækja Grindavík í menningarvikunni.
„Andrúmsloftið er gott og það eru margir sem bíða spenntir eftir þessari viku. Ég hvet fólk til að kynna sér dagskránna vel og vera virkir þátttakendur. Mjög margir nota tækifærið og bjóða ættingjum og vinum í heimsókn til Grindavíkur þessa daga. Sú nýjung er nú í boði að hægt er að nálgast fréttir og dagskrá vikunnar í snjallsíma þannig að mjög margir geta verið upplýstir um það sem er í gangi í Grindavík þessa viku. Hvet ég fólk til að skoða vel heimasíðu Grindavíkurbæjar sem mun flytja daglegar fréttir af vikunni,“ segir Kristinn.
Á hverju ári er það framlag heimamanna sem stendur upp úr en Grindvíkingar hafa á hverju ári reynt að fá til sín þekkta listamenn og í ár eru það tónleikar með Magnúsi og Jóhanni á Bryggjunni, sunnudaginn 17. mars og svo með hljómsveitinni Skálmöld í Kvikunni laugardagskvöldið 16. mars. Þetta eru viðburðir sem enginn má missa af að sögn Kristins. Annars höfðar dagskráin til allra aldurhópa og skólastofnanir bæjarins eru mjög virkir þátttakendur í vikunni. Það verða tvær myndlistasýningar með fimm grindvískum áhuga myndlistarmálurum. Nokkur fjöldi tónlistarmanna kemur fram, bæði í grindvískum atriðum eða með öðrum. Svo verður grindvískt vísna- og sagnakvöld í Kvikunni þriðjudaginn 12. mars þar sem fjöldi Grindvíkinga mun stíga á svið þannig að það eru nokkuð margir Grindvíkingar sem munu láta ljós sitt skína í menningarvikunni.