Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Menningarverðlaun Grindavíkurbæjar 2011 komu í hlut Bryggjubræðra
Sunnudagur 3. apríl 2011 kl. 12:25

Menningarverðlaun Grindavíkurbæjar 2011 komu í hlut Bryggjubræðra


Menningaravika Grindavíkur var sett í Grindavíkurkirkju í gær með pompi og pragt en hún er nú haldin þriðja árið í röð. Menningarverðlaun Grindavíkurbæjar 2011 komu í hlut bræðranna Aðalgeirs og Kristins Jóhannssona, verta á kaffihúsinu Bryggjunni, sem hafa sett mikinn svip á menningarlíf bæjarins eftir að þeir opnuðu kaffihús á neðstu hæð netagerðarinnar Krosshús við höfnina sem þeir eiga jafnframt en báðir eru þeir netagerðameistarar.
 

Í umsögn um Menningarverðlaunin segir m.a.:
Auglýst var eftir tilnefningum frá bæjarbúum og bárust nokkrar tilnefningar til menningar- og bókasafnsnefndar. Eftir að hafa farið vel yfir allar tilnefningar ákvað nefndin að menningarverðlaun Grindavíkur árið 2011 myndu falla í skaut þeirra Aðalgeirs og Kristins Jóhannssona sem reka kaffihúsið Bryggjuna.
Kaffihúsið Bryggjan var opnað 21. ágúst 2009 og í fyrirsögn fréttar á heimasíðu Grindavíkurbæjar þar sem sagt er frá opnuninni segir „Kaffihús með menningu og stórt hjarta."

Ef við grípum niður í fréttina á heimasíðunni þennan dag þá segir:
„Þegar inn er komið má einnig sjá gítara og segir Aðalgeir að ætlunin sé að skapa menningu á Bryggjunni. Þegar fram líða stundir er ráðgert að píanó verði líka á staðnum og hver sem hefur áhuga á því að spila á gítar eða setjast við flygilinn sé velkomið að taka lagið."
 

Þeir bræður hafa sýnt að það er ýmislegt hægt að gera og ef við vitnum nú orð bæjarbúa sem sendi inn tilnefningu um þá bræður þá segir:
 

„þetta er alveg frábært sem þeir eru að gera; sameina þjónustu við sjávarútveg, veitingarekstur og menningarhlutverk. Í spjalli við þá kemur líka svo vel fram hversu einlægan áhuga þeir hafa á þessu og eru í þessu af mikilli hugsjón og ástríðu fyrir menningu, hvort sem það eru bókmenntir, leiklist og/eða tónlist".
 

Í annarri tilnefningu segir:
 
„Bryggjan hefur verið svo skrambi mikil lyftistöng fyrir menningarlífið í bænum. Frumkvæði þeirra bræðra að menningaruppbyggingu í bænum finnst mér bæði mikil lyftistöng fyrir bæinn og lýsa frumkvæði og eldmóð í að koma Grindavík á kortið sem menningarbæ".
Út frá þessum orðum er ljóst að þeim hefur tekist ætlunarverk sitt og náð að skapa menningu á Bryggjunni svo eftir er tekið og vel út fyrir bæjarmörkin."
 

Nafnið Bryggjan lá beint við enda liggja bátarnir við kæjann nokkrum metrum frá kaffistaðnum þar sem er margbrotið útsýni.
 

Þegar róast fór í veiðarfæragerðinni færðu þeir bræður út kvíarnar en kaffihúsið er nokkurs kona auka búgrein. Aðalgeir og Kristinn hafa staðið fyrir ýmsum uppákomum frá því kaffihúsið opnaði í ágúst 2009 en þar hafa troðið upp margt af fremsta listafólki þjóðarinnar ásamt heimamönnum.
Í Menningarviku Grindavíkurbæjar eru t.d. uppákomur hvern einasta dag á Bryggjunni en þar má nefna tónleika m.a. með Magnúsi Eiríkssyni og KK, Edit Piaff kvöld með Brynhildi Guðjónsdóttur, bókmenntakvöld með Ólafi Gunnarssyni og Einari Má Guðmundssyni og þá mætir Matthías Johannessen skáld og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins og fer yfir sögusviðið, svo eitthvað sé nefnt.
 

Dagskrá Menningarvikunnar í Grindavík er glæsileg en hana er hægt að nálgast á heimasíðu Grindavíkurbæjar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024