Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Menningarveislur í Reykjanesbæ
Þriðjudagur 10. ágúst 2010 kl. 10:19

Menningarveislur í Reykjanesbæ


Nú líður senn að hápunkti menningarmála hér í Reykjanesbæ sjálfri Ljósanótt sem haldin verður  2. - 5. september n.k.  Í mínum huga er Ljósanótt ein allsherjar hátíð fjölskyldunnar, menningarveisla af bestu gerð þar sem allir finna eitthvað við sitt hæfi á öllum aldursskeiðum.  Bærinn bregður sér í hátíðarbúning og býður bæjarbúum svo og utanaðkomandi upp á frábæra, þaulskipulagða dagskrá á hinu fjölbreytta sviði menningarmála og komast yfirleitt færri að en vilja.  Hátíðin í ár er að taka á sig lokamynd og tilhlökkunin er mikil.  Nú ættu allir að leggjast á eitt að bjóða gestum að koma og njóta með okkur, af nógu er að taka.

En þó ég hafi kallað Ljósanótt hápunktinn þá má ekki gleyma því að hér er gróskumikið og metnaðarfullt menningarstarf í fullum gangi allt árið um kring.  Af því tilefni langar mig að nefna sýninguna Efnaskipti í Listasafni Duushúsa sem staðið hefur yfir frá 16.maí og lýkur þann 15.ágúst n.k.  Sýningin er partur af Listahátíð Reykjavíkur og þykir það mikill heiður að fá að vera þátttakandi í þeirri listaflóru.  Sýningin, sem samanstendur af verkum fimm textíllistakvenna, fær fjóra og hálfa stjörnu af fimm sem ein af bestu sýningum ársins frá myndlistargagnrýnandanum Þóru Þórisdóttur sem skrifaði um sýninguna í Morgunblaðinu þann 1.ágúst s.l.

Ég hafði mjög gaman af að skoða og stúdera sýninguna í góðra vina hóp og það reyndist okkur mikill fróðleikur að lesa upplýsingarnar sem fylgdu hverju verki, þannig fengum við innsýni í hugmyndafræðina á bak við hvert verk sem mér fannst ómissandi til að njóta til fulls.

Ég hvet alla listunnendur til að koma við á Listasafninu, aðgangur er ókeypis og tímanum er vel varið við að auðga menningarvitið. 

Góð æfing fyrir Ljósanótt og svo er alltaf gaman að fá góðar fréttir ekki satt?

 
Björk Þorsteinsdóttir,
formaður Menningarráðs Reykjanesbæjar
.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024