Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Menningarveisluborð í Grindavík
Fimmtudagur 22. mars 2012 kl. 14:36

Menningarveisluborð í Grindavík


Menningarvika Grindavíkurbæjar hófst síðasta laugardag og síðan hefur hver viðburðurinn rekið annan í litaflóru menningarveislunnar. Hápunktur menningarvikunnar fram að þessu voru tónleikar Gospelkórs Fíladelfíu í fullri Grindavíkurkirkju á mánudagskvöldið sem voru frábær skemmtun.


Menningarvikan er nú haldin í fjórða sinn og hefur dagskráin aldrei verið fjölbreyttari og veglegri. Uppistaðan er framlag heimafólks þar sem tónlist, myndlist og ekki síst ljósmyndasýningar eru í öndvegi. Kristinn Reimarsson, sviðsstjóri frístunda- og menningarsviðs, hefur veg og vanda af skipulagningu menningarvikunnar.


„Þetta hefur tekist ljómandi vel en veðrið var aðeins að stríða okkur á sunnudaginn. Aðsókn hefur verið með miklum ágætum. Í kvöld, fimmtudag, er annar hápunktur en þá verður Guðbergskvöld á kaffihúsinu Bryggjunni. Aðalgestur kvöldsins verður heiðursborgari Grindavíkur, Guðbergur Bergsson. Þeir segja mér það vertarnir á Bryggjunni að ferðamenn sem koma þarna við sýni Guðbergi og hans verkum og ævistarfi mikinn áhuga. Í kvöld er einnig bæjarsýning á leikriti grunnskólans, Sagan segir, sem vakti athygli þegar það var frumsýnt á þriðjudaginn. Þá verður Gissur Sigurðsson fréttahaukur gestur í Miðstöð símenntunar í kvöld þar sem hann ræðir við gesti undir yfirskriftinni HUGSUM FYRST-SKJÓTUM SVO," segir Þorsteinn Gunnarsson, upplýsingafulltrúi Grindavíkurbæjar.


Í kvöld verður einnig ljósmyndanámskeið Oddgeirs Karlssonar og Ellerts Grétarssonar, húllumhæ í verslunarmiðstöðinni, á föstudagskvöld verður konukvöld körfuboltans með Páli Óskari og um helgina verður vegleg barnadagskrá og svo safnahelgi á Suðurnesjum sem blandast inn í menningarvikuna. Dagskrána má sjá á heimasíðu bæjarins, www.grindavik.is/menningarhatid

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024