Menningar- og sögutengd ferð um Hópshverfi við Grindavík
- sögusvið landnáms, torfbæja, hafnargerðar og sjávarútvegs í Grindavík.
Menningar- og sögutengd ferð í boði Grindavíkurbæjar og Saltfiskssetursins verður laugardaginn 11. október kl. 11:00.
Ferðin hefst við Saltfisksetrið, Hafnargötu 12a. Gengið verður að tóftum gamla Hópsbæjar og Neðri-sundvörðu. Þar verður vígt fimmta söguskiltið sem sett er upp í Grindavík og nú í Hópshverfi. Þar má má sjá ýmsar minjar, s.s. tóftir gamla torfbæjarins á Hópi og jafnvel minjar um landnámsskála Molda-Gnúps, landnámsmanns Grindavíkur.
Gengið verður með strandlengjunni að Eyjagarði, hafnarbakkanum sem reistur var í Vestmannaeyjagosinu, og að minjum á Hópsnesi. Boðið verður upp á stutta siglingu til baka um Hópið með björgunarsveitabátnum, Oddi V. Gíslasyni, ef veður leyfir. Í ferðinni verður ýmislegt skoðað sem fyrir augu ber á leiðinni. Ómar Smári Ármannsson, Óskar Sævarsson og Sigrún Jónsd. Franklín sjá um fræðsluna. Áætlað er að ferðin taki um tvo tíma.
Í lok ferðar er tilvalið að koma við í Saltfisksetrinu og skoða sýningar sem þar eru og að sjálfsögðu verður heitt á könnunni.
Ferðin er liður í viðburða- og menningardagskrá Saltfisksetursins og Grindavíkurbæjar 2008.
Ath. Ferðin hefst kl. 11:00, en ekki kl. 13:00 eins og stendur í viðburða- og menningardagskrá 2008.