Menningar- og listabærinn Vogar
Það hefur ekki farið hátt að í Vogum býr fjöldi listamanna af fjölbreyttu tagi. Flestir þeirra eru hógværir og líta ekki á sig sem listamenn, enda hafa fæstir þeirra listsköpun að aðalstarfi, heldur sem tómstundaiðju. Ég er, sem formaður Frístunda- og menningarnefndar, að gera lista yfir þá Vogabúa sem stunda einhvers konar myndlist, ljósmyndun, hannyrðir, tónlist, leiklist, ritlist og líka þá sem bera uppi starf frjálsra félaga hér í bæ. Einnig þá sem rannsaka, safna efni og skrá sögu heimabyggðarinnar. Þessi listi er orðinn langur og lengist þegar ég fer út á meðal fólks og er með augun og eyrun opin.
Sveitarfélagið Vogar setti sér menningar- og félagastefnu fyrir tveimur árum í þeim tilgangi að styðja og örva menningar- og félagsstarf á meðal íbúa og gera á þann hátt sveitarfélagið að betri stað til að búa á. Í framhaldi af því samdi Frístunda- og menningarnefnd reglur um veitingu menningarverðlauna.
Nú er komið að því að veita menningarverðlaun í fyrsta skipti í sögu sveitarfélagsins. Það mun gerast síðdegis á sumardaginn fyrsta, 19. apríl, í Tjarnarsal í Vogum. Fólk er hvatt til að taka með sér þangað sýnishorn af því sem það hefur verið að skapa og hengja þar upp á vegg eða sýna á borði í salnum meðan samkoman stendur.
Einnig verða skemmtiatriði á sviðinu þar sem fólk úr sveitarfélaginu á öllum aldri lætur ljós sitt skína í stuttum og fjölbreyttum atriðum. Þá verður eitthvað af þessu fólki, sem auðgað hefur mannlífið í Vogum, kallað upp á svið og afhent lítilsháttar viðurkenning fyrir sinn þýðingarmikla skerf.
Allir eru velkomnir til að fagna með okkur sumri og grósku jarðar og mannlífs í Tjarnarsal þann 19. apríl, bæði heimafók og utanbæjarfólk með taugar til Voga.
Þorvaldur Örn Árnason
formaður frístunda- og menningarnefndar sveitarfélagsins Voga
[email protected]
Menningar- og félagastefnu Voga er að finna hér.