Meistarar á bókakvöldi Bryggjunnar
Það verður bókakvöld af dýrari gerðinni á kaffihúsinu Bryggjunni föstudaginn 12. desember kl. 21. Guðbergur Bergsson, Guðni Ágústsson og sýslumaðurinn Jón Eysteinsson kynna sín verk í skemmtilegu kompaníi við undirleik ljósavéla Grindavíkurflotans, sem er að safnast saman í höfninni, sumir að bíða eftir jólum. Þetta kemur fram á vefsíðu Grindavíkurbæjar.
Guðbergur Bergsson er heiðursborgari Grindavíkur, fæddur austur á Skála árið 1932. „Þrír snéru aftur" er titill á nýjustu bók Guðbergs. Hún fær feiknalega góða dóma tilnefnd til bókmenntaverðlauna. Það kæmi ekki á óvart þó eitthvað mikið ætti eftir að gerast hjá Guðbergi Bergssyni í bókmenntaheiminum á næstunni.
Guðni Ágústsson er fæddur í Flóanum árið 1949. Hann fór ungur á Þing fyrir Framsóknarflokkinn í Suðurlandskjördæmi eins og það hét í þá daga. Hann gat sér góðan orstý sem Landbúnaðarráðherra. Útgerðarmenn dauðöfunduðu bændur, þar sem þeir vildu hafa svona skeleggan mann í Sjávarútvegsráðuneytinu, sem gæti tekið upp málstað útgerðarmanna og sjómanna og varið þá með miklum myndarskap og sjálfstrausti eins og Guðni Ágústsson gerði fyrir sinn atvinnuveg, bændur og íslenskan landbúnað.
Eftir að hann hætti á hinum póletíska velli hefur hann haslað sér völl sem rithöfundur. Guðni gaf út bók í fyrra sem féll í góðan jarðveg hjá þjóðinni. Nú kemur hann út með aðra bók. Að þessu sinni skrifar hann Hallgerði Langbrók Höskudsdóttur til varnar. Guðna hefur fundist eins og mörgum að hennar orðspor í Njálu sé frekar niðurávið í hugum landsmanna. Hallgerður er ein af aðalpersónum þeirrar sögu, sem um aldamótin var kosin bók árþúsundsins. Sumir segja að Sturla Þórðarson hafi skrifað Njálssögu. Sturla skrifaði um sína samtímamenn. Margar deilur hafa skotið upp kollinum í gegnum árhundruðin um sögupersónur og söguna sjálfa.
Guðni Ágústsson hefur jafharðan risið upp á afturlappirnar og varið sína menn og sína sögu með kjafti og klóm. Það hefur jafnvel gengið svo langt að vinur hans fyrrverandi forætisráðherra Davíð Oddson hafði á orði þegar honum var öllum lokið vegna hörku Guðna í Njáludeilum að það hafi verið slæmt að geta ekki leyst þessi deilumál á meðan báðir voru á lífi, Guðni Ágústsson og Njáll á Bergþórshvoli.
Jón Eysteinsson fyrrverandi sýslumaður í Keflavík les úr bók Einars Ingimundarsonar sem líka var fyrrverandi sýslumaður í Keflavík. Bókin fjallar um sögu lögreglunnar í Keflavík og nágrannabyggða á Suðurnesjum. Jón Eysteinsson er ekki bara sýslumaður á eftirlaunum. Hann var á sínum yngri árum landsliðsmaður í körfubolta.
Ef sá sem þetta skrifar man rétt, þá var hann mjög nálægt því að taka við þjálfun Grindavíkurliðsins á upphafsárum sjöunda áratugarins, þegar Ungmennafélag Grindavíkur var stofnað.