Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Meiri sveigjanleiki og minni formfesta
Sunnudagur 3. október 2021 kl. 09:43

Meiri sveigjanleiki og minni formfesta

Keflvíkingurinn Harpa Magnúsdóttir stofnar nýstárlegt fyrirtæki. Hoobla er nýr valkostur á vinnumarkaði sem hefur breyst í heimsfaraldri

„Ég held að þetta sé fullkominn tími til að stofna klasafyrirtæki fyrir sjálfstætt starfandi sérfræðinga,“ segir Keflvíkingurinn Harpa Magnúsdóttir, stofnandi Hoobla ehf. en fyrirtækið leggur upp með að vera með gott viðskiptamódel sem laðar að sér sjálfstætt starfandi aðila sem eru einir í harkinu og vilja vinna undir eigin vörumerki.  Harpa segir að þeir aðilar sem vinna með Hoobla kjósa að eiga samfélag við aðra, vilja getað speglað sig og jafnvel átt samstarf með öðrum sem taka að sér sambærileg verkefni. Einnig sækjast þessir aðilar eftir að fá markaðslegan stuðning og hafa aukna ásýnd í krafti fjöldans.

Nýr valkostur

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hoobla ehf. hóf starfsemi sína 22. september og er nýr valkostur þegar kemur að verkefnabundnum ráðningum á Íslandi. Um er að ræða klasasamfélag þar sem sjálfstætt starfandi ráðgjafar, stjórnendur, sérfræðingar, fyrirlesarar, stjórnenda- og markþjálfar o.fl. bjóða fram þjónustu sína til fyrirtækja og stofnana.

„Þjónustan er sérsniðin að þörfum viðskiptavinarins. Til dæmis getur Hoobla sett saman teymi þar sem við á, fundið réttan úrvinnsluaðila sem býr yfir þekkingu á ákveðnum málaflokki, boðið er upp á greiningu, úrvinnslu, verkefnastjórnun, fræðslu, fyrirlestra o.fl. sem  getur bætt frammistöðu einstaklinga, teyma og skipulagsheildarinnar allrar. Það getur reynst rekstrareiningum vel að geta leitað tímabundið til reyndra stjórnenda og sérfræðinga sem geta stigið tímabundið inn í aðstæður í fyrirtækjum og stofnunum til að brúa erfið tímabil eða leysa tímabundin verkefni sem geta komið upp í rekstrinum. Það má segja að með Hoobla verði til markaðstorg þekkingar,“ útskýrir Harpa, fyrrum mannauðsstjóri hjá ORF Líftækni hf. Hún er dóttir Stellu Bjarkar Baldvinsdóttur fyrrum skóbúðareiganda í Keflavík og Magnúsar Guðmundssonar öryggismálastjóra á Keflavíkurflugvelli. Harpa brennur fyrir að gera Hoobla að sterkum bakhjarli fyrir fólk sem starfar sjálfstætt á verkefnadrifnum vinnumarkaði

Faraldurinn hefur haft áhrif á vinnumarkaðinn

„Hoobla fer af stað nú þegar heimsfaraldur hefur geisað, fólk er að skila sér aftur til vinnu eftir skert starfshlutföll eða jafnvel atvinnuleysi, en faraldurinn hefur haft margvísleg áhrif á einstaklinga, vinnustaði og atvinnumarkaðinn í heild sinni. Það má alveg segja að aðstæður á vinnumarkaði hafa verið erfiðar en fara nú sem betur fer batnandi. Það er mjög mikilvægt að huga vel að uppbyggingunni nú eftir faraldurinn, því það felast alltaf tækifæri til breytinga eftir erfitt árferði. Mögulega hefur verið þörf á að breyta einhverju í skipulagi, menningu eða stemningunni innan fyrirtækisins/stofnunarinnar og þá getur verið gott að fá utanaðkomandi aðila í að styðja við eða koma með ferskan blæ inn í aðstæðurnar. Hoobla kemur því inn á markaðinn á hárréttum tíma.“

Fjölgar sem vinna sjálfstætt

Að sögn Hörpu sýna rannsóknir að þeim einstaklingum er að fjölga sem vilja vinna sjálfstætt án þess að vera með fastráðningu í fyrirtækjum eða stofnunum. „Vinnumarkaðurinn er að breytast hratt í átt að meiri sveigjanleika og minni formfestu. Óhefðbundið ráðningaform af ýmsu tagi og verkefnabundin vinna sem oft er óstaðbundin verður sífellt algengara fyrirkomulag í atvinnusambandi og fólk er ýmist að taka að sér hliðargigg meðfram föstu starfi annarsstaðar eða er alfarið í sjálfstæðum rekstri. Hoobla vill aðstoða fyrirtæki og einstaklinga í að gera hlutina einfaldari í því sambandi. Einnig sýna rannsóknir að mörgum „Giggurum“ (sem er nafn yfir þá sem taka að sér tímabundin verkefni) reynist erfitt að hafa ekki félagslega þáttinn sem fæst með því að starfa innan stærri skipulagsheilda, þ.e. sakna félagslegrar speglunar, félagslífs og umgjarðar.

Yfirbygging Hoobla er minni en hjá hefðbundnum fyrirtækjum, þar sem allir sem starfa með Hoobla eru sjálfstæðir í sínum rekstri. Við erum ekki með húsnæði sem hýsir starfsemina, við hittumst bara reglulega á mismunandi stöðum og höldum Hooblafundi og skemmtanir þar sem hentar best hverju sinni. Hoobla stendur nefnilega fyrir gleði, hamingju, kæti og síðast en ekki síst…húrra!“

Harpa trúir því staðfastlega að Giggarar séu komnir til að vera og segir að ef hún væri stjórnandi í litlu eða meðalstóru fyrirtæki í dag myndi hún skoða það alvarlega hvort einhverjar stöður innan fyrirtækisins eða stök verkefni væri hagstæðara að leysa með því að taka inn sérfræðing tímabundið. Því þegar öllu sé á botninn hvolft þá þurfi alltaf að horfa í kostnað í rekstri og mögulega megi færa einhvern kostnað niður með því móti án þess að skerða gæði vinnunnar.