Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

  • Meiri söknuður eftir heimavistina
  • Meiri söknuður eftir heimavistina
Laugardagur 11. júlí 2015 kl. 09:00

Meiri söknuður eftir heimavistina

Fékk hæstu einkunn í ML og stefnir í tölvunarfræði, sönglist og leiklist.

Keflvíkingurinn Andrea Lind Hannah hlaut hæstu einkunn á stúdentsprófi frá Menntaskólanum að Laugarvatni við hátíðarlega athöfn útskriftarnema fyrr í sumar. Hún útskrifaðist af félagsfræðabraut með einkunnina 8,36. Hún vildi prófa ML m.a. heimavistarlífsins og þannig hafi hún kynnst fólkinu nánar en ella. Stefnan er tekin á tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík haustið 2016 en í sumar starfar hún í verslun afa síns, Georgs V. Hannah. 

„Ég vildi prófa eitthvað nýtt og þ.á.m. heimavistarlíf og Menntaskólinn að Laugarvatni bauð upp á það. Á sama tíma þekkti ég örfáa í skólanum og þau hvöttu mig einnig til þess að koma,“ segir Andrea Lind Hannah, en hún hlaut hæstu einkunn á stúdentsprófi frá ML fyrr í sumar. Hún bætir við að heimavistarlífið hafi verið gott á marga vegu en það hafi einnig stundum getað reynst erfitt. „Maður hafði ekki alltaf öll þægindin sem maður nýtur heima hjá sér og oft vantaði eitthvað. En að hafa vini sína alltaf nálægt bætti það ágætlega upp. Það er æðislegt að eiga heima með vinum sínum og geta alltaf séð þá en það gerir það enn erfiðara þegar maður þarf síðan að fara frá þeim. Maður verður svo náinn fólkinu og vanur að sjá það hvenær sem er. Söknuðurinn verður því mun meiri.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Listir og tölvunarfræði

Andrea Lind hefur mikinn áhuga á leiklist, söng og list almennt í flestum ef ekki öllum myndum. „Ég hef einnig gaman af því að ferðast og bera saman menningar og kynnast þeim. Án þess að fara of djúpt í það þá hef ég gaman af sköpun, hvort sem hún kemur frá mér eða öðrum; og hugsun - að hafa gaman af lífinu, kynnast fólki og rækta sambönd. Þetta tengist náminu á einhvern veg. Ég lauk námi á félagsfræðibraut en ég var á málabraut og listnámsbraut áður þannig að þetta tengist allt á ákveðinn hátt.“

Það sem tekur við í haust haust hjá Andreu Lind er vinnan í verslun afa hennar, Georgs V. Hannah, en frekara nám er áætlað í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík haustið 2016. Þegar lengra er litið inn í framtíðina gæti Andrea Lind hugsað sér að verða söngkona, leikkona og tölvunarfræðingur. Hún telur mikilvægustu lífsviðhorfin vera að bera virðingu fyrir hlutum og fólki. „Einnig að hafa opinn huga, vera víðsýn og reyna að sjá hlutina frá öðrum sjónarhornum en manns eigin.“ Spurð um hvaða eiginleikar hennar nýtast henni best í lífi og starfi segist hún ekki alveg vera viss um hverju hún á að svara. „En ég ágæt í að vingast við fólk og bæta vinnuanda þegar fólk tekur við mér.“