Meira kúl að vera meyr en áður
Saknar uppáhalds persónusköpunar sinnar, Móra í Vonarstræti.
Garðbúinn Kristín Júlla Kristjánsdóttir fékk Edduverðlaun fyrir gervi í verðlaunamyndinni Vonarstræti um síðustu helgi. Hún sá einnig um gervið í Hrauninu, sem einnig fékk verðlaun sem bestu sjónvarpsþættirnir. Kristín Júlla var að þakka fyrir heillaóskir á Facebook þegar Víkurfréttir náðu tali af henni. „Það er svo magnað að búa í svona litlu bæjarfélagi. Maður fær dálítið meiri viðbrögð en þeir sem búa í stærri bæjarfélögum,“ segir hún. Spurð að því hvort hún hafi átt von á verðlaununum segist hún auðvitað hafa gert sér vonir. „Mér fannst ég eiga þetta skilið, án þess að vera með neinn hroka. Verkefnið var þannig. En mér brá samt.“
Vonarstrætisfjölskyldan
Af öllu sem Kristín Júlla hefur unnið að, þá segir hún að Vonastræti muni sitja eftir í hjarta hennar um ókomna tíð. „Við erum Vonarstrætisfjölskyldan. Það er leikstjóranum Baldvini Z. að þakka, hann gerir allt af svo mikilli ástríðu að maður getur ekki gert annað en hrifist með. Samheldnin var svo líka mikil því sagan er svo viðkvæm, erfið og gengur nærri manni. Atburðirnir eru sannsögulegir og þá verður fólk meira náið. Við ætlum að fara einhvern tímann saman hópurinn út í „kommúnuna“ sem var í lokaatriði myndarinnar á Ítalíu og búa til eitthvað skemmtilegt saman þar,“ segir Kristín og hlær.
Undirbúningur hverrar persónu langur
Kristín segir að hún og aðalleikkonan Hera Hilmarsdóttir séu orðnar mjög kærar vinkonur og einnig hafa þau Baldvin lengi verið miklir vinir. „Ég hef unnið með honum í flestu sem hann gerir. Verð m.a. með honum í næsta verkefni sem ég eiginlega pínulítið gaf honum. Það tengist Keflavík.“ Annars hafi hún alltaf nóg að gera og sé alltaf að velja og hafna. Um þessar mundir er hún að undirbúa sjónvarpsþáttaröðina Rétt 3, sem Baldvin einmitt leikstýrir. Undirbúningur fyrir svona vinnu er mjög stór því Kristín Júlla hannar í raun persónurnar. Fyrst er handritið lesið, eitt fyrir hverja persónu og sest niður með búningahönnuði, leikstjóra, framleiðanda og oft einnig leikara. Svo er persónan mótuð.
Lagði sál sína í sköpun Móra
„Eins og með Móra, sem er einstakur í íslenskri kvikmyndasögu. Hann er samvinna mín, Steina [Þorsteins Bachmann], leikstjórans og búningahönnuðarins. Við Steini urðum eitt í 40 tökudaga, fyrir utan undirbúningstíma. Vorum 2-3 tíma á hverjum degi að búa til persónuna. Hann sagði við mig: Þú lagðir sál þína í þetta. Þess vegna varð þetta listaverk.“ Kristínu þykir afar vænt um þau orð. „Ég sakna Móra og fannst hann vera raunverulegur. Að litli maðurinn geti verið svona mikil og djúp manneskja. Hann notfærði sér ekki neyð ungrar konu heldur gerði henni kleift að lifa betra lífi og lét sig svo hverfa. Ég tók Móraskeggið með heim eftir tökur til að hreinsa það og laga og það var orðið hluti af heimilislífinu. Drengirnir mínir þrír eiga því mikið í honum líka,“ segir Kristín og hlær.
Langar að læra að búa til manneskju
Það er álit margra að Edduhátíðin hafi verið mjög einlæg og margir sem gáfu mikið af sér og fleyg orð skiluðu sér til þjóðarinnar. „Mér finnst fólk orðið eitthvað meyrara og kærleiksríkara. Það er meira kúl að vera meyr en áður og sjálfsagðara að hrósa öðrum en að niðra. Í allri hörkunni sem fylgir kvikmyndabransanum þá hefur þetta mikið að segja. Þannig er Baldvin Z. og ég vil meina að hann sé að breyta kvikmyndaheiminum á Íslandi. Hann fékk 12 Eddur og enginn skilinn útundan,“ segir Kristín stolt. Spurð um framtíðarplön segir hún að hana langi til að fara erlendis til að læra að búa til manneskju frá grunni. „Það er mikil list og það eru bara tveir á Íslandi sem kunna að gera svoleiðis.“
VF/Olga Björt