Meira fyrir kósýheit heima
Konný Hrund Gunnarsdóttir svarar verslunarmannahelgarspurningum VF
Konný Hrund Gunnarsdóttir
Hvert á að fara um verslunarmannahelgina í ár?
Ég er ein af þeim sem fer mjög sjaldan eitthvert um þessa helgi. En ef við fjölskyldan ákveðum að fara eitthvert þá yrði það líklegast dagsferð til vina í bústað eða austur á Klaustur til Lindu systur.
Með hverjum á að fara?
Karlinum og strákunum okkar fjórum.
Lætur þú veðurspá ráða því hvert á að fara um verslunarmannahelgina?
Ef um tjaldútilegu er að ráða þá alveg hiklaust. Það að vakna í blautum svefnpoka eftir brjálaða rigningarnótt eða undir berum himni því Kári hefur ákveðið að hrista sig aðeins of mikið er ekki minn tebolli.
Hvert hefur þú farið um verslunarmannahelgi síðustu ár?
Eins og ég nefndi að ofan þá förum við sára sjaldan eitthvert þessa helgi. Við erum meira fyrir kósýheit heima fyrir en að húkka í margra kílómetra bílaröð eftir þjóðveginum.
Hvert hefur þú farið í ferðalög í sumar?
Við fórum í æðislega viku í Grímsnesið í sumarbústað sem starfsmannafélagið Þorbjörn á. Helmingurinn af fjölskyldunni kom þó heim með samtals 100 bit eftir lúsmý. Náttúran sko.
Hvernig ferðalög ertu að stunda? Ferðu í sumarbústað eða í ferðavagna?
Sumarbústaður er alltaf nr. 1 en annars eigum við stórt og flott braggatjald sem við notum í útilegur.
Hefur þú verið heppin með veður á ferðalögum þínum í sumar?
Við erum bara búin að fara þessa fyrrnefndu viku í bústað og ringdi 5 daga af 7 en fallegt var veðrið þrátt fyrir það.