Með vinnumann og vinnukonu
Keflvíkingurinn Guðlaug Ólöf Sigfúsdóttir Laursen (Lauga) og eiginmaður hennar, Mikael Lykkegaard Laursen, búa á eyjunni Bahrain í Persaflóa ásamt börnum sínum. Í raun samanstendur eyjan af 33 litlum eyjum þar sem sú stærsta er 55 km löng og 18 km breið. Á Bahrain búa 1,3 milljónir manna, þar af 600 þúsund manns sem ekki eiga uppruna sinn þaðan. Guðlaug sagði blaðamanni Víkurfrétta frá reynslu sinni af því að búa svona fjarri Íslandi og menningunni sem oft er ansi ólík þeirri íslensku.
Hugsuðu sig ekki tvisvar um
„Maðurinn minn vann sem flugmaður hjá félaginu Astraeus, sem flaug fyrir Iceland Express, en það fóru á hausinn korteri í jól 2011. Eftir að hafa sent starfsumsóknir út um allt bauðst honum flugstjórastaða hjá DHL hér í Bahrain. Þrátt fyrir efasemdaraddir hugsuðum við okkur ekki tvisvar um og Mikael var kominn hingað þremur vikum seinna. Ég og börnin komum svo eftir að skólinn kláraðist heima vorið 2012,“ segir Lauga.
Hitinn fer upp í 55 gráður
Lauga segir yndislegt að búa á Bahrain, fólkið sé alveg dásamlegt og vilji allt fyrir þau gera og ekki skemmi hlýja og milda veðurfarið fyrir heldur. „Kannski verður aðeins of heitt hérna í júlí og ágúst, en þá er meðalhitinn um 45 gráður og fer alveg upp í 55 gráður.“ Lífernið á Bahrain er mjög ólíkt því sem gerist og gengur á Íslandi.
Frá Bahrain.
„Vildi þrífa mitt hús sjálf“
Vegna þess að Lauga og Mikael eru útlendingar þarna með ágætis innkomu er ætlast til að þau séu með þjónustustúlku og í raun eru öll húsin á svæðinu með sér vinnukonuherbergi og aðstöðu fyrir hana og jafnvel bílstjóraherbergi auk aðstöðu fyrir hann. Í slíkum húsum eru stundum þrjú eldhús. „Ég þrjóskaðist við að fá mér vinnukonu, ætlaði nú bara að þrífa mitt hús sjálf. En eftir þrjá mánuði lét ég undan og núna erum við með vinnukonu sem kemur þrisvar til fjórum sinnum í viku og þrífur allt hátt og lágt. Svo erum við með vinnumann sem þrífur bílana annan hvern dag. Það má segja að maður lifi hálfgerðu prinsessulífi hérna,“ segir Lauga og hlær.
Börnin í skóla á sunnudögum
Vikan hjá fjölskyldunni er ósköp venjuleg, nema að hjá þeim er helgin föstudagur og laugardagur. „Það tók okkur smá tíma að venjast því að senda krakkana í skólann á sunnudögum. Krakkarnir eru í skólanum frá hálf átta til tvö og á meðan þau eru í skólanum þá reyni ég að vinna. En ég var svo heppin að fá vinnu á fasteignasölu fyrir ári síðan og þar er vinnutíminn mjög sveigjanlegur. Það er í raun búin að vera frábær reynsla. Ég er búin að sjá þvílíkar villur hérna sem að maður gæti nú alveg hugsað sér að eiga svona í ellinni og kynnast skemmtilegu fólki í gegnum starfið,“ segir Lauga.
Fjölskylduvænt umhverfi
Um helgar reynir fjölskyldan að gera eitthvað skemmtilegt með krökkunum, sérstaklega þeim yngsta, Sebastian, því sú næstyngsta, Þóra Snædís, er með fulla dagskrá allar helgar með sínum vinahóp. „Það er mikið af allskyns görðum sem fyllast af fjölskyldufólki um helgar. Svo ef það er eitthvað um að vera á Formúlubrautinni þá förum við þangað,“ segir Lauga og bætir við að mikið sé lagt upp úr því að fjölskyldur geri eitthvað saman og það sé frítt í flesta þessa garða. Þá segist hún einnig vera fastagestur á „súkkinu“ sem sé útimarkaður. Þar eigi hún orðið góða vini sem að hringi í hana þegar þeir fái nýjar sendingar af vörum.
Selja svínakjöt og áfengi
Lauga segir að í Bahrain sé fátt sem bannað sé að selja og í flestum verslunum sé nokkurs konar „svínakjötshorn“ þar sem hægt sé að kaupa ýmiss konar kjöt og annað. „Við höfum haldið okkur mikið við það sem að við borðum á Íslandi en erum svona aðeins að prófa nýtt. Ég kolféll til dæmis fyrir líbönskum mat. En ég hef ekki farið út í það að kaupa fisk hérna. Ég hef séð ferskan fisk í verslunum hér en líst ekkert á hann þótt hann sé líklega ekkert verri en annars staðar,“ segir Lauga. Einnig eru þarna verslanir með svínakjöt og áfengi og ekki þarf sérstakt leyfi til að versla þar. „Svo er gaman að segja frá því að það eru 19 kirkjur hérna,“ bætir hún við.
Konur mega kjósa og keyra
Ansi margt hefur komið fjölskyldunni á óvart í Bahrain. Lauga segir að hún eins, og margir aðrir, hafi verið búin að mynda sér skoðun á múslimum áður en hún flutti út og sú skoðun hafi mikið til verið mótuð út frá neikvæðum fréttaflutningi. „Vissulega er ástandið slæmt í sumum Miðausturlöndum, illa farið með konur og réttur þeirra enginn. Sú er þó ekki raunin hér. Hérna er ekki mikið um strangtrúaaða múslima heldur er allt frekar frjálslynt. Konur mega keyra og fengu kosningarétt að mig minnir árið 2004.“ Lauga telur að þau sem þekki ekki mikið til múslima séu svolítið mikið barnaleg eða meira svona fáfróð í garð þeirra. „Ég hef reynt að taka alla mína gesti í aðalmoskuna hérna þar sem að maður fær skoðunarferð. Það er alveg magnað og ótrúlega margt sem að kemur manni á óvart.“
Þarf ekki að hylja axlir og hné
Þegar fjölskyldan var nýkomin þarna út hafði Lauga verið búin að lesa sér til um hvernig konur ættu að haga sér og klæða sig, það er að hylja axlir og hné. „Við kynntumst innfæddum fljótlega eftir að við fluttum hingað og fórum að spyrja hann út í þetta allt saman. Hann hló sig máttlausan og sagði að við gætum gert allt það sama og í Evrópu. Eina væri kannski það að það yrði meira horft á okkur ef við værum í hlýrabol eða stuttu pilsi,“ segir Lauga.
Þekkti ekki eiginkonur pabba síns
Lauga segir íbúa eyjunnar yndislega, alveg ótrúlega barngóða og ljúfa. Hún telur að í raun megi segja að þar sem að Bahrain sé ekki beint þekkt sem ferðamannastaður, öfugt við Dubai til dæmis, þá hafi innfæddir haldið sínum yndisleika og að sumu leyti saklausa viðmóti.
Einu sinni varð hún algjörlega kjaftstopp þegar innfæddur vinur fjölskyldunnar var í heimsókn að tala um bróður sinn sem var að fara að gifta sig. „Ég spurði hann hvað hann ætti mörg systkini, en hann gat ekki svarað því vegna þess að pabbi hans á þrjár konur og vinur minn hafði ekki hugmynd um hverjar hinar konurnar voru eða hvar þær byggju. Þannig að það er ekki eins og við höldum heima á Íslandi að þeir Arabar, sem að eiga fleiri ein eina konu, búi allir undir sama þaki. Þeir efnameiri sem eiga fleiri en eina konu þurfa að halda fleiri heimili. Hérna í Bahrain má karlmaður eiga 4 eiginkonur,“ segir Lauga.
Yrði gott að fá harðfisk í gegnum Skype
Spurð um hvort þau sakni ekki fjölskyldu og vina frá Íslandi segir Lauga þau vera búin að vera ótrúlega heppin með að það sé búinn að vera mikill gestagangur hjá þeim. „Í raun hef ég ekki fengið tækifæri til að vera með einhverja heimþrá. En það koma tímar sem að maður saknar fjölskyldu og vina og núna mætti alveg vera snjór. Ég er samt með Skype og það er lítið mál að redda því sem ég sakna frá Íslandi. Verst að það er ekki hægt að senda harðfisk í gegnum Skype,“ segir Lauga hlæjandi. Í raun hafi hún ekki lært að meta Ísland meira úr fjarlægð. Dvölin ytra hafi frekar opnað augu hennar varðandi menninguna sem er til staðar í Bahrain.
Brenna dekk til að mótmæla
Ríkið Bahrain skiptist í þjóðarhópana sunni- og shia múslima. Konungurinn er sunni en þó eru einungis 30 prósent múslima á svæðinu það líka. Rígur hefur verið á milli þessara tveggja hópa í nokkur ár. „Til að mótmæla aðferðum konungsins fara shia múslimar út á götuhorn með gúmmídekk og brenna þau. Eitt aðalhornið þeirra er hérna rétt hjá okkur og köllum við það öskubakkahornið. Um daginn var ég akandi á leið í búð og að koma að þessu horni. Þá komu um 20 drengir hlaupandi úr öllum áttum með dekk og einn stoppar beint fyrir framan bílinn og ætlar að henda brennandi dekkinu fyrir framan bílinn. Svo lítur hann inn í bílinn og sér að ég er útlendingur og ákveður í staðinn að henda dekkinu við hliðina á bílnum,“ segir Lauga og viðurkennir að hjartað hafi slegið heldur örar en venjulega þá stundina. Shia múslimar hafa sagt að þeir vilji alls ekki beina sínum mótmælum að útlendingum.
Brjálaðir ökumenn og hafa aldrei rangt fyrir sér
Lauga segir að ef það er eitthvað sem að henni mislíki þar sem hún býr sé það umferðarmenningin. „Þeir keyra hérna eins og brjálæðingar með kannski þrjú laus börn í framsætinu og svo liggur einn krakki í glugganum aftur í. Rauð ljós eru eitthvað sem þeir virða ekki. Kannski eru þeir litblindir, ég veit ekki. Einn daginn var miðfingurinn minn ansi virkur og nýlega þakkaði ég fyrir að ég beindi honum ekki að röngum bílstjóra því að þá hefði mér verið hent úr landi. En ég er nú aðeins farin að hemja mig núna og bít bara á jaxlinn og tel upp að tíu.“
Mynd: Lauga festi bílinn í sandi.
Aftur á móti segir Lauga að fólkið í Bahrain sé afskaplega afslappað í hugsunarhætti. Fólk sem komi frá Evrópu vilji helst að hlutir séu lagaðir strax. Einnig ef eitthvað sé að eða ef gögn vanti eða svör við einhverju. „Þú getur gleymt því hérna. Það er mjög sérstakt ef maður fær til dæmis svar við tölvupósti. Eða ef þeir ætla að hringja til baka, það bara gerist ekki. Svo hafa þeir aldrei rangt fyrir sér.“
Laugulaug í garðinum
Í þessu samhengi nefnir Lauga einnig að þegar fjölskylda hennar flutti í hverfið þar sem þau búa núna báðu þau um einkasundlaug og sagt að það væri lítið mál. Gæti tekið þrjár til fjórar vikur. Þegar fjórir mánuðir voru liðnir voru þau enn með stóra holu og sandhól í garðinum eftir framkvæmdir en enga sundlaug. „Þá lét ég nú aðeins í mér heyra og sagði við eigandann að í Evrópu væru þetta svik vegna þess að við vorum búin að borga fyrir laugina síðan frá byrjun framkvæmda. Næsta sem við fréttum er að vinnuveitandi Mikaels, DHL, hefur samband við okkur og okkur tjáð að leigusali okkar hafi ekki verið sáttur við það sem ég hafði sagt og hefði rift leigusamningnum. Eftir þónokkur símtöl og pósta okkar á milli hætti hann við að rifta samningnum og sundlaugin var tilbúin tveimur mánuðum seinna. En það var alveg þess virði að bíða eftir henni í 6 mánuði. Við köllum hana Laugulaug“ segir Lauga.
Eini sonurinn og prinsinn á heimilinu, Sebastian Sigfús.
Léttbylgjan og jólakveðjur á RÚV
Nú líður að jólum og þótt þau séu ekki haldin hátíðleg að kristinna manna sið þá er þjóðhátíðardagur Bahrain 16. desember og þá er allt skreytt hátt og lágt. Lauga segir að fyrir fjölskyldu hennar séu það jólaskreytingar. „Ég er afskaplega mikið jólabarn og held í hefðir og skreyti snemma. En það er ekki auðvelt og dálítið einkennilegt að skreyta hérna og skella sér í sundlaugina sama dag í 27 gráðu hita. En það má segja að Léttbylgjan sé búin að hjálpa mér mikið með jólaskapið og til að fá almennilega jólastemningu hlusta ég á jólakveðjurnar á vefsíðu RÚV.“
Áramótin í Dubai
Jólahaldið hjá þeim verður eins og heima á Íslandi. Tvær dætur Laugu sem eru í skóla á Íslandi koma út til þeirra og þau verða með hamborgarhrygg á aðfangadag. „Við erum meira að segja komin með hangikjöt sem við ætlum að hafa á jóladag. Á milli jóla og nýárs ætlum við svo að vera með matarboð fyrir þá fáu Íslendinga sem eru hérna í Bahrain. Áramótunum ætlum við svo að verja í Dubai. Við vorum þar í fyrra og flugeldasýningin var næstum eins flott og á Íslandi á Ljósanótt,“ segir Lauga brosandi að lokum.