„Með viljann að vopni“ yrði titillinn á ævisögunni
- Ragnhildur Guðmundsdóttir, 2. sæti á lista Dögunar
Hvers vegna ákvaðst þú að fara í framboð?
Vegna þess að ég er búin að tala svo lengi fyrir breytingum sem ég vildi sjá en gerðust ekki, svo þá er að verða sjálfur breytingin sem maður vill sjá.
Hvað vilt þú sjá gerast á Suðurnesjum á næsta kjörtímabili?
Ég vil sjá heilsugæsluna og sjúkrahúsið eflast og auka við starfsemi sína, eiga kost á heimilislækni eins og gert er ráð fyrir í lögum.
Að óhagnaðardrifin húsnæðis- og leiguréttarsamvinnufélög verði stofnuð sem bjóði fólki leiguhúsnæði á verði sem er ekki meira en um það bil einn þriðji af launum þess, þetta er langtímaleiguréttur íbúða eins og tíðkast í löndunum í kringum okkur.
Ég vil einnig að skólakerfið, félagslega kerfið og heilbrigðisþjónusta vinni meira saman og að börn og ungmenni sem þurfa sérfræðiþjónustu eins og sálfræði- og/eða geðlæknisþjónustu fái hana en séu ekki sett á margra mánaða biðlista.
Hverja telur þú möguleika þíns framboðslista í kjördæminu í kosningunum í lok mánaðarins?
Ég tel möguleika okkar framboðslista bara nokkuð góða því það býr svo skynsamt fólk í kjördæminu sem sér í gegnum endurnýtt kosningaloforð. Þeir flokkar sem hafa farið með stjórn landsins í áratugi, hafa haft áratugi til að breyta hlutunum af réttlæti en hafa ekki gert og því hafa þeir misst trúverðugleika sinn. Hvers vegna ætti þá ekki að hleypa nýju fólki að með nýjar hugmyndir og lausnir?
Hvað færð þú þér oftast í morgunmat?
Ég fæ mér oftast Cheerios eða létt ab-mjólk.
Hvar lætur þú klippa þig?
Fer yfirleitt á Hárgreiðslustofu Þórunnar, svo yndisleg kona og veit hvernig ég vil hafa hárið.
Uppáhalds útvarpsmaður?
Hlusta mjög lítið á útvarp og er ekki með neinn sérstakan útvarpsmann en Jónas Jónasson heitinn var ótrúlega flottur.
Hver væri titill ævisögu þinnar?
Með viljann að vopni.
Innanlandsflug til Keflavíkurflugvallar?
Já, að sjálfsögðu, það er þjóðhagslega hagkvæmt og við höfum ekki efni á þeim flottræfilshætti að setja upp flugvöll í um það bil 15 mínútna fjarlægð frá þeim sem fyrir er. Í nágrannalöndunum er fólk að fara í að minnsta kosti klukkutíma akstur inn í miðborgirnar.
Fallegasti staður á Suðurnesjum?
Erfitt að velja úr, svo margir ótrúlega fallegir staðir. Reykjanesskaginn eins og hann leggur sig séð frá Keili.
Hver er besta ákvörðun sem þú hefur tekið?
Að mennta mig þar sem ég átti litla möguleika á að komast aftur út á vinnumarkað eftir vinnuslys. Þann 4. maí 1981 missti ég höndina sem var svo grædd á aftur en eftir það slys varð ég öryrki. Kláraði BA í félagsfræði, kennsluréttindanám (grunn- og framhaldsskóla) og lauk svo MA í náms- og starfsráðgjöf sumarið 2015.
Hvað er það neyðarlegasta sem þú hefur lent í?
Datt fyrir utan heima hjá mér í slabbi á stéttinni og stakk bíllyklinum hálfum inn í lófa hægri handar og þurfti læknisaðstoð til að ná honum aftur úr hendinni.
Dagblað eða net á morgnana?
Dagblað.
Sameinuð sveitarfélög á Suðurnesjum eða áfram eins og nú?
Skynsamlegt að stefna að sameiningu þó síðar verði.