Með tvær milljónir í vasanum á Manhattan til að láta drauma rætast
Júlíus Freyr Guðmundsson hlaut Súluna 2021, menningarverðlaun Reykjanesbæjar, fyrir framlag sitt til tónlistar og leiklistar í Reykjanesbæ. Verðlaunagripurinn er silfursúla eftir listakonuna Elísabetu Ásberg. Verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn í Duus Safnahúsum síðasta laugardag. Verðlaunin eru veitt þeim sem stutt hafa vel við menningarlíf sveitarfélagsins og var þetta í tuttugasta og fimmta sinn sem Súlan var afhent.
Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri afhenti Súluna fyrir hönd bæjarstjórnar og menningar- og atvinnuráðs. Við tilefnið sagði hann hverju bæjarfélagi mikilvægt að eiga fólk sem vinnur að uppbyggingu jákvæðra málefna í bæjarfélaginu og að bæjarstjórn Reykjanesbæjar vilji með táknrænum hætti þakka fyrir það með veitingu menningarverðlaunanna.
Júlíus Freyr er fæddur í Keflavík 22. september 1971. Hann er kvæntur Guðnýju Kristjánsdóttur og eiga þau þrjú börn og tvö barnabörnin. Þótt margir tengi Júlíus líklegast fyrst og fremst við tónlist hefur leiklistin einnig spilað stóra rullu í lífi hans.
Tónlistarferill Júlíusar er samfelldur allt frá æskuárum en hann hefur verið í nokkrum hljómsveitum í gegnum tíðina. Hann gerði m.a. garðinn frægan sem trommuleikari með hljómsveitinni Pandoru, sem gaf út tvær plötur, og Deep Jimi and the Zep Creams, sem er enn að, og hefur gefið út fjórar plötur en sú hljómsveit komst á plötusamning hjá bandaríska útgáfurisanum Warner Brothers og fóru liðsmenn sveitarinnar til Bandaríkjanna á sínum tíma og reyndu fyrir sér þar. Í viðtali við Suðurnesjamagasín segir Júlíus frá því þegar þeir félagar fóru til New York með tvær milljónir í vasanum til að láta drauma rætast á Manhattan.
Júlíus spilaði með föður sínum, Rúnari Júlíussyni, í mörg ár og er nú bassaleikari Bergrisanna. Hann hefur gefið út þrjár sólóplötur sem listamaðurinn Gálan þar sem hann semur öll lög og texta og leikur á öll hljóðfæri sjálfur. Nýverið gaf hann út efni undir listamannsnafninu Julius & Julia sem hefur hlotið þó nokkra spilun á Spotify víða um heim.
Júlíus Freyr er í ítarlegu viðtali í Suðurnesjamagasíni sem er á dagskrá Hringbrautar og vf.is á fimmtudagskvöld kl. 19:30. Í meðfylgjandi myndskeiði er sagt frá ævintýraför Deep Jimi and the Zep Creams til New York.