Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

  • Með stærsta hjarta Grindavíkur
    Alexander Birgir Björnsson.
  • Með stærsta hjarta Grindavíkur
    Alexander kynnir á tónleikunum.
Sunnudagur 7. desember 2014 kl. 09:00

Með stærsta hjarta Grindavíkur

Þrettán ára einhverfur drengur troðfyllti Grindavíkurkirkju með styrktartónleikum.

Alexander Birgir Björnsson, þrettán ára nemandi í Grunnskóla Grindavíkur, stóð fyrir tónleikum í Grindavíkurkirkju 24. nóvember til styrktar Einhverfusamtökunum og Birtu – landssamtökum foreldra barna/ungmenna sem látist hafa fyrirvaralaust. Margir af fremstu tónlistamönnum þjóðarinnar stigu þar á stokk og var kærleikurinn ríkjandi - í anda Alexanders. Sjálfur er Alexander einhverfur og eldri bróðir hans, Kjartan Björnsson, lést er hann varð fyrir lest í Noregi árið 2010. Olga Björt hitti mæðginin Alexander og Elínu Björgu Birgisdóttur. 
 
 
„Ég og fleiri frægir“
„Alexander hafði ekkert sagt mér neitt en ég heyrði að hann væri að bjóða fullt af fólki á tónleika. Ég gekk á hann, því þetta er mjög sjálfstæður drengur sem fær margar hugmyndir, og spurði á hvaða tónleika hann væri að bjóða. Þá sagði hann: Tónleikana sem ég ætla að halda í Grindavíkurkirkju. Þá spurði ég hverjir yrðu þar og hann svaraði um hæl: Nú ég og fleiri frægir! Sem varð svo að yfirheiti tónleikanna,“ segir Elín Björg.
 
Nokkrir af tónlistarmönnunum sem fram komu. Pétur Örn er fyrir miðju með skegg.
 
Meðal listamanna sem komu fram á tónleikunum voru Pétur Örn Guðmundsson, Erna Hrönn, Jógvan Hansen, Magni, Eyþór Ingi og Matti Matt. Alexander hafði gengið með tónleikana í maganum lengi og vildi fá Pétur Örn, frænda sinn, til að hjálpa sér við það. „Ég reyndar saltaði þetta aðeins og sagði að það þyrfti kannski tvö ár í svona undirbúning og síðan hélt ég að þetta myndi fjara út. En svo byrjaði Alexander aftur í vor að minna mig á þetta. Ég gat því ekki annað en athugað málið og talaði við fyrirtæki varðandi styrki, því þó að tónlistarfólkið sé tilbúið að gefa vinnuna sína þá er alltaf einhver kostnaður. Viðbrögðin voru framar öllum vonum.“
 
 
Gefur frá sér mikla gleði
Alexander var sjálfur kynnir á tónleikunum ásamt Dadda nokkrum Willards. „Þetta var ekkert mál,“ segir Alexander, enda óhræddur við að gefa af sér og er þekktur fyrir að faðma fólk sem hann hittir. „Hann þekkir líka svo marga sem hann hefur tengst og mörgum þykir svo vænt um hann. Hann gefur frá sér svo mikla gleði og finnur þegar öðrum líður illa og vill hjálpa. Sumir tala um að hann sé með stærsta hjarta Grindavíkur,“ segir Elín Björg og horfir brosandi á strákinn sinn. Kærleikur og gleði voru einkennisorð tónleikanna og Alexander segir skipta miklu máli að þetta hafi verið kærleikstónleikar og það hafi átt að vera gaman. 
 
Alexander faðmar tónleikagesti í anddyri Grindavíkurkirkju.
 
„Það var alveg hreint magnað að vera þarna, þetta voru dásamlegir tónleikar og yndisleg stund. Ég fylltist miklu stolti yfir drengnum. Þarna var fólk úr heimabænum Grindavík auk fjölskyldu og vina Alexanders,“ segir Elín Björg. Aðspurður segist Alexander ekki geta valið besta lagið því þau hafi í raun öll verið best. „Þetta var bara stór draumur sem rættist.“ Elín Björg bætir við að miðarnir hafi selst mjög fljótt og færri komust að en vildu. „Ég bjóst við aðsókn en ekki svona rosalega mikilli. Miðarnir seldust upp á skömmum tíma. Ég upplifði svo mikinn kærleika í kirkjunni og gleði. Mér er svo minnistætt það sem ein kona sagði: Ég upplifði þessa gömlu Grindavíkurtilfinningu, gleðina, samstöðuna, samhygðina.“
 
Matti Matt, Alexander og Magni. 
 
Voru á meðal stofnfélaga Birtu
Það er ekki að ástæðulausu sem fjölskyldan valdi að styrkja Einhverfusamtökin og Birtu, landsamtök foreldra ungmenna sem látist hafa fyrirvaralaust. Alexander er einhverfur og af sex barnabörnum Elínar Bjargar og eiginmanns hennar, Björns Kjartanssonar, hafa þrjú greinst með einhverfu. „Sonur okkar, Kjartan, varð fyrir lest í Noregi fyrir fjórum árum þegar hann var 23 ára. Það var mikið áfall og við leituðum okkur hjálpar og fórum í foreldrahóp og komumst í samband við fólk sem var í sömu sporum og við. Í kjölfarið stofnuðum við samtökin Birtu ásamt fleirum. 
 
 
Byrjaði að tala fimm ára
Oft er talað um að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn. Elín Björg segir að sannarlega hafi raunin verið sú í tilfelli Alexanders. „Við aðstandendur finnum fyrir því í okkar bæjarfélagi að hér umvefja allir Alexander og hér þekkja hann allir. Hér fá styrkleikar hans notið sín. Hann byrjaði að tala fimm ára og það þurfti heilmikið til þess að hann færi að tjá sig. Þegar hann var tveggja til þriggja ára tjáði hann sig bara með öskrum. Þá sá ég ekki fyrir mér að tíu árum seinna stæði hann í þessum sporum og væri bara svona ótrúlega flottur. Það er mikil vinna sem liggur að baki, bæði okkar sem foreldra og allra sem hafa komið að honum, í leikskóla og skóla. Hún er bara að skila sér.“ 
 
Alexander æfir körfubolta með 8. flokki og er á leið í körfuboltabúðir í Bandaríkjunum á næsta ári. Hann er því sannarlega góð fyrirmynd fyrir frændsystkini sín og önnur börn með frávik. „Við erum ofsalega bjartsýn. Það er mikil vinna að ala upp barn með mikil frávik en við vitum að allt er hægt,“ segir Elín Björg og Alexander glottir við og tilkynnir, móður sinni að óvörum, að hann sé þegar búinn að ákveða næstu tónleika. „Það verða Eurovision-tónleikar!“ segir hann og hlær. 
 
VF/Olga Björt
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024