Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Með penna að vopni í friðargæslu í Sri Lanka
Fimmtudagur 9. júní 2005 kl. 16:23

Með penna að vopni í friðargæslu í Sri Lanka

Halldóra Brjánsdóttir hefur starfað við ýmis ólík störf í gegnum árin. Hún er menntuð sem klæðskeri en hefur undanfarin ár starfað sem varðstjóri hjá tollgæslunni á Keflavíkurflugvelli. Nú hefur hún ákveðið að láta gamlan draum rætast og skellti sér því í friðargæsluna.

Ferðinni var fyrst heitið til London - Heathrow og þaðan til Colombo höfuðborgar Sri Lanka eða í allt 10 klukkutíma og 45 mínútur í flug. Það er mikið á sig lagt til að komast í vinnuna. Á Sri Lanka starfa fjórir íslenskir friðargæsluliðar í Sri Lanka Monitoring Mission, SLMM. Norðmenn leiða þetta samnorræna verkefni en hlutverk þess er að hafa eftirlit með vopnahléi stjórnarhersins og uppreisnarmanna Tamíla í norðurhluta landsins. Íslenskur fjölmiðlafulltrúi starfar í höfuðstöðvum SLMM í höfuðborginni Colombo og eftirlitsmenn starfar víðs vegar um Sri Lanka. 

Halldóra vinnur við að fylgjast með því að vopnahléi sé framfylgt. Þetta gerir hún með pennann að vopni því hennar starf krefst þess ekki að hún sé vopnuð. Starfið hennar er fjölbreytt í því getur falist skrifstofuvinna, eftirlit og rannsóknarstörf. Í hverjum mánuði er haldinn fundur með stríðandi fylkingum, í sitthvoru lagi og farið yfir stöðu mála. Halldóra dregur upp úr veskinu sínu „dog-tags“ með upplýsingum um nafn hennar, kennitölu, þjóðerni og frekari upplýsingum. Alvara málsins er augljós, hún þarf að bera skilríkin um hálsinn og hafa annað í skónum sínum. „Það hefur verið draumur minn frá því að ég man eftir mér að starfa sem friðargæsluliði. “ Halldóra lét drauminn loks rætast og hringdi hún í lok janúar í Utanríkisráðuneytið og fékk að tala við þá sem sjá um starfsmannamál íslensku friðargæslunnar. Henni voru sendar upplýsingar og umsóknareyðublað. „Mér var alveg sama hvert ég færi enda hafði ég ekkert val um það, ég verð bara send á þá staði sem talið er að ég komi að gagni á,” sagði Halldóra. „Áður en ég byrjaði á þessu öllu saman hafði ég fengið leyfi frá yfirmanni mínum, Kára Gunnlaugssyni aðaldeildarstjóri tollgæslunnar á Keflavíkurflugvelli en nauðsynlegt er að fá leyfi frá vinnu áður en byrjað er að sækja um.

Íslenskir friðargæsluliðar fá launalaust leyfi frá vinnu sinni áður en haldið er utan með möguleika á framlengingu. Gerð er sú krafa að hægt sé að halda friðargæsluliðunum áfram úti ef þörf krefur,” sagði Halldóra um ferlið í kringum umsóknina og bætti við að hún hefði einungis haft þrjár vikur til að ganga frá lausum endum hér heima áður en farið var utan. „Ég geng svo að starfi mínu vísu þegar ég hef lokið mínum störfum hjá friðargæslunni og vil ég þakka öllum samstarfsmönnum mínum sem og yfirmönnum fyrir að hafa stutt við bakið á mér og hvatt mig áfram.” „Þessi ferð varir í sex mánuði, ég má koma heim ef ég vil á þessu tímabili en dvölin úti lengist að sama skapi. Ég býst því ekki við að koma heim nema eitthvað komi upp á,” sagði Halldóra um dvöl sína úti í Sri Lanka. „Ég get svo fengið að framlengja dvölina í sex mánuði í viðbót en svo er ég send annað.” Aðspurð hvað tæki við eftir þessa ferð sagði hún: „Ég vona að ég fái að fara strax út aftur en það er ekkert öruggt hvert ég fer hverju sinni þar sem þörfin fyrir friðargæsluliða breytist dag frá degi.” „Ég er ekki enn farin að huga að því hvernig það verður að skilja ættingja og vini eftir, það kemur þegar ég er komin út. Ættingjarnir mínir styðja mig í þessu því þeir vita að þetta er búið að vera draumur minn frá því ég var krakki. Ég hvet alla sem langar til að starfa í friðargæslunni að sækja um og láta drauma sýna rætast.”

Hvað er Friðargæslan?

Friðargæsla er samheiti yfir fjölþættar aðgerðir alþjóðastofnana til að tryggja frið á átakasvæðum. Grunnhugmynd friðargæslu er að bregðast við ófriði eða ófriðarblikum með margþættum aðgerðum, bæði áður en átök brjótast út og eftir að stillt hefur verið til friðar. Friðargæsluhugtakið tekur þannig til ýmiskonar fjölþjóðlegra aðgerða sem miða allar að því að koma í veg fyrir átök, koma á friði og skapa skilyrði til að varanlegur friður ríki. Utanríkisráðuneytið sendir um 20-30 einstaklinga á ári til friðargæslustarfa og markmiðið er að fjölga friðargæsluliðum í allt að 50 á árinu 2006. Íslenska friðargæslan heldur utan um viðbragðslista Íslensku friðargæslunnar en á honum eru um tvö hundruð sérfræðingar með víðtæka menntun og reynslu. Friðargæslan er ekki sjálfboðastarf. Íslenskir friðargæsluliðar fá greitt samkvæmt launakerfi Íslensku friðargæslunnar og gera ráðningarsamning við utanríkisráðuneytið. Þeir fá sambærileg kjör og starfstétt sín hjá ríkinu. Auk þess fá starfsmenn greidda þóknun vegna álags og fjarveru frá fjölskyldu og heimahögum.  Þeir einstaklingar sem valdir eru á viðbragðslistanum fá hins vegar ekki greitt fyrir þann tíma sem þeir eru til taks.

Skilgreina má eftirfarandi grunnflokka friðargæslu: 

1. Hefðbundin friðargæsla og hættuástandsstjórnun Aðgerðir til að halda hættuástandi í skefjum með viðveru og starfi lögreglu og herliðs. 

2. Eftirlits- og þjálfunarstörf Aðgerðir alþjóðastarfsliðs til að tryggja stöðugleika og starfa með heimamönnum á átakasvæðum í því skyni að koma í veg fyrir að átök brjótist út. 

3. Uppbyggingarstarf Verkefni borgaralegra sérfræðinga sem stuðla að uppbyggingu stjórnmála- og efnahagslífs til að koma á varanlegum friði. 

4. Mannúðar- og neyðaraðstoð Alþjóðastofnanir veita flóttafólki og fórnarlömbum átaka margvíslega mannúðar- og neyðaraðstoð.  Hæfniskröfur fyrir friðargæsluliða * Háskólapróf, aðra sérmenntun eða með öðrum hætti aflað sér sérhæfðrar þekkingar og reynslu. * Mjög góða enskukunnátta. * Hæfni í mannlegum samskiptum, sérstaklega við fólk úr ólíkum menningarheimum og með margvísleg trúarbrögð. * Þolgæði undir álagi. * Öguð og sjálfstæð vinnubrögð. * Hæfileika til aðlagast nýjum aðstæðum og frumstæðu vinnuumhverfi. * Þekking og/eða reynsla af störfum að neyðar- og mannúðarmálum er æskileg sem og kunnátta í öðrum tungumálum, svo sem Norðurlandamálum, frönsku og þýsku.  Í anda jafnréttisstefnu ríkisstjórnar Íslands eru konur sérstaklega hvattar til að gefa kost á sér.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024