Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Með nýja bók í smíðum fyrir sólartýpur og tungltýpur
Föstudagur 16. desember 2005 kl. 15:41

Með nýja bók í smíðum fyrir sólartýpur og tungltýpur

Birgitta Jónsdóttir Klasen var áberandi í sjónvarpinu í allt sumar þar sem hún fræddi áhorfendur í sjónvarpsþættinum Ísland í bítið um nútíma þrýstimeðferð. Þarna var Birgitta að fylgja eftir bók sinni „Læknum með höndunum - Nútíma þrýstimeðferð” sem notið hefur fádæma vinsælda. Þannig var bókin hennar ein sú mest selda í sumar og í efstu sætum metsölulista bókabúðanna, hvort sem um var að ræða svokallaðan aðallista eða lista yfir hand- og fræðibækur.

Birgitta Jónsdóttir Klasen er fædd í Þýskalandi 1952 og bjó þar og starfaði þar til hún fluttist til Íslands árið 2001. Birgitta lærði sálfræði í Þýskalandi og að því loknu fór hún í náttúrulækningar og sérhæfði sig í þrýstimeðferð. Birgitta hefur notað lækningameðferðir þar sem höndum er beitt með góðum árangri. Má þar nefna sjúkraþjálfun, viðbragðsnudd, shiatsu og þrýstipunktameðferð. Hún hefur starfað við þetta árum saman og rekur eigin meðferðarstofu á Flughótelinu hér í Reykjanesbæ.

Birgitta ætlaði sér að mæta í eitt sjónvarpsviðtal í sumar og kynna bókina sína. Áhorfendur sýndu hins vegar þau góðu viðbrögð að Birgitta þurfti að mæta vikulega í sjónvarpið í samtals 16 vikur. Viðbrögðin við bókinni hafa verið framar öllum vonum segir Birgitta. Hún er enn að seljast mjög vel en fyrsta prentun var gefin út í september 2004. Nú er þriðja prentun í bókabúðum.

Hvað er þrýstipunkta-meðferð?
Þrýstipunktameðferð er viðurkennd aðferð til að lina þrautir og lækna sjúkdóma. Kínverjar bjuggu til ákveðið kerfi í kringum hana sem ýmis menningarsamfélög hafa þróað samkvæmt sínum hefðum. Á Vesturlöndum eru stundaðar ýmsar mismunandi þrýstipunktameðferðir en þær hafa allar það að markmiði að vinna gegn sjúkdómum, styrkja blóðrásina og auka vellíðan.
Birgitta hefur sérhæft sig á sviði náttúrulækninga og sálfræði. Hún hefur stundað þrýstipunktameðferð árum saman. Í samtali við Víkurfréttir segir hún að 35 ára starf liggi að baki og á þeim tíma hafi hún byggt upp gagnagrunn þekkingar sem hún síðan miðlar til fólks í bókinni. Í bókinni „Læknum með höndunum - Nútíma þrýstimeðferð” miðlar hún einstæðri reynslu sinni. Með því að fylgja leiðbeiningum hennar í skýrum texta og einföldum teikningum getum við látið okkur líða betur. Í fyrstu bókinni er tekið á 65 algengum sjúkdómum eða kvillum og sýnd ráð gegn þeim.

Nú er Birgitta að vinna að annarri bók sem væntanleg er á nýju ári, framhald fyrstu bókarinnar. Þar verður meðal annars farið náið í hugtökin „sólartýpur” og „tungltýpur” sem Birgitta ræddi mikið um í Íslandi í bítið síðasta sumar. Hún hefur meðal annars útbúið reiknilíkan um alla fæðingardaga frá árinu 1930 til 2006.

Þá eru námskeið fyrirhuguð stax í janúar á nýju ári sem tengist efni bókarinnar og farið verður í 361 þrýstipunkt.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024