Með myndavélina á lofti um allt land
Ljósmyndarinn Ólafur Hannesson tekur mikið af götustíls myndum
Ljósmyndarinn Ólafur Hannesson flutti til Reykjanesbæjar árið 2015 en síðan þá hefur hann myndað fólk á götum bæjarins, sem og annars staðar á landinu. Ólafur var einungis fimmtán ára gamall þegar hann eignaðist sína fyrstu myndavél, sem hann fékk að gjöf frá afa sínum og ömmu, en hann segist þá hafa fundið að hann langaði til að skapa.
Ólafur tekur alls kyns myndir, en síðastliðið ár hefur hann aðallega unnið með svokallaðar „Streetstyle“-myndir eða „götustíl“ og leyfir fólki að fylgjast með útkomunni á Instagram-reikningi sínum sem ber heitið rvk_fashion. Í samtali við Víkurfréttir segist Ólafur þó taka alls konar myndir og að honum finnist gaman að prófa nýja hluti.
„Þetta hefur þróast rosalega hratt. Ég var í Ljósmyndaskólanum en kláraði það nám ekki. Það var góð reynsla, en annars hef ég eytt miklum tíma í að læra sjálfur og af ýmsum öðrum. Á RVK fashion reyni ég sýna tenginguna sem ég finn við viðfangsefnið og sýna persónulegan stíl fólks, sem er mjög mismunandi.“
Í sumar ákvað Ólafur að skella sér til New York með myndavélina. „Ég eyddi tuttugu tímum í borginni áður en ég þurfti að ná flugi til baka, svo þetta var krefjandi en ótrúlega skemmtilegt. Það var nóg myndefni í boði og ég þurfti alveg að hemja mig en þetta gekk býsna vel.“
Ólafur fær reglulega ábendingar um áhugaverða einstaklinga til að mynda, sem hann tekur fagnandi, enda snýst verkefnið hans um að fólk hafi gaman að því, fái að sjá ólíka einstaklinga og geti fundið innblástur.
Viðtal: Sólborg Guðbrands
Ólafur er ekki einungis flottur fyrir aftan myndavélina.
Myndin af Guðbjörgu Sævarsdóttur var tekin í miðbæ Keflavíkur.
Haflína og Sandra, fimmtán ára, voru myndaðar á Ásbrú.
Filip er mikill áhugamaður um tísku en hann kemur frá Póllandi. Mynd tekin á Ásbrú.
Listamaðurinn Ethorio er með áhugaverðan stíl og var eitt af viðfangsefnum Ólafs.
Tekin á gangi í Central Park, New York.
Sígópása í New York.
Diljá Heimisdóttir við Myllubakkaskóla í Keflavík.