Með lífið í lúkunum
Ég heyrði ljúfa sögn í vikunni sem hljóðar einhvern veginn svona: „Rauðu ljósgeislarnir í sólarljósinu eru hlýjastir og brotna minnst. Svo á vinátta okkar að vera, óbrotleg, innileg og hlý.“ Varla hefur það farið framhjá nokkrum manni að undanförnu að kristalskálarnar eru að bresta. Umræðan óendanlega um fjármáladrauga og drepsóttir lífeyrissjóðanna valda mér ívið meiri ógleði en hollt getur talist. Langar helst að draga sængina upp yfir haus og vakna í birtunni.
Afleiðingarnar eru hnútur í maga og verkur í baki, sem ég taldi tilkomið algerlega að ástæðulausu. Þeir bara komu og fóru ekki. Og mér sem verður aldrei illt! Merkilegur andskoti þegar allt í einu hvolfist yfir mann einhver óára og þér finnst þú ekki hafa stjórn á hlutunum. Gerði þó eitthvað sem ég hef aldrei gert áður og fór til nuddara. Gat varla legið flatur á bekknum til að byrja með, en fann mér stöðu að lokum með stuðningskodda á tveimur stöðum. Silkimjúkar og rennisleipar lúkur maddömunnar fitluðu við óstillta strengi niður eftir mjóhryggnum, alveg þar til hún fann feilnótuna.
Hún undirbjó mig undir heljarinnar kvalir og spurði hvort ég væri reiðubúinn. Hélt það nú, hálfrænulaus! Næsta sem ég finn er að olnboginn hennar er kominn á bólakaf neðan við miðja súlu. Svitinn spratt út um ennisholurnar og sársaukinn sem fylgdi, minnti eflaust á ósamda sinfóníu. Hef ekki gólað svona síðan í gaggó. Þrýstingurinn varði í nokkrar mínútur, milli þess sem hún skipti á milli olnboga. Hálftíminn varð að heilli eilífð. Og ég gleymdi að anda djúpt á milli!
Ég mátti notast við kalda bakstra ef þetta dygði ekki daginn eftir. Hún lofaði mér nýrri dögun og kvaddi. Sól reis að morgni og í stað þess að rúlla mér út úr rúminu eins og ég hafði áður þurft, reis ég upp eins og rísandi stjarna. Ég lofaði þessa ljúfu manneskju, hendur hennar og huga, sem allt í senn höfðu kvalið og kvatt minn táradal. Hnúturinn í maganum leystist úr læðingi og hafði ég eignast nýjan vin. Vinkonu sem var innileg og hlý. Sólroðinn varði sem eftir lifði dags og ljósgeislarnir umvöfðu mig hamingjusvip á ný. Lífið tók nýja og betri stefnu. Ómarkaða.