Með leiðsögn í Listasafni Reykjanesbæjar í dag
Í dag, laugardaginn 3. maí, kl. 14.30 munu myndlistarmennirnir Karl Jóhann Jónsson og Sigríður Melrós Ólafsdóttir verða með leiðsögn fyrir almenning um sýninguna í Listasal Duushúsa. Á sýningunni mætast portrett verk þeirra beggja sem öll eru unnin út frá ljósmyndum en með afar ólíkri nálgun á viðfangsefninu.
Sigríður Melrós sýnir grafíkverk og olíumálverk af sömu manneskjunni sem er nektardansmærin Lísa auk annarra grafíkmynda. Karl Jóhann sýnir málverk af fólkinu í kringum hann sem hann setur gjarnan í ný hlutverk. Hvert verk sýnir einhvern atburð eða stemmningu sem Karl spinnur upp og sviðsetur. Sýningin hefur fengið góða dóma og fjöldi gesta lagt leið sína í Duushúsin til að njóta verkanna. Sýningarstjóri sýningarinnar er Inga Þórey Jóhannsdóttir.
Sýningarsalur Listasafns Reykjanesbæjar er í Duushúsum. Þar er opið alla daga frá kl. 11.00-17.00 og aðgangur er ókeypis. Sýningin LJÓSMYNDIN ÍMYNDIN PORTRETTIÐ? stendur til 4. maí.