Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Með Harley Davidson inni í stofu!
Fimmtudagur 13. mars 2003 kl. 09:34

Með Harley Davidson inni í stofu!

Jón Sigfússon er 59 ára Suðurnesjamaður búsettur í Njarðvík. Jón á Harley Davidson Sportster árgerð 1998 með 900cc vél. „Þetta er frekar lítið hjól en öflugt miðað við stærð. Þetta er eitt vinsælasta hjólið frá Harley þar sem verðið á því nýju er mjög hóflegt, í kringum eina milljón“, segir Jón í samtali við VF-bílar.
Jón segist hafa verið á mótorhjólum frá 12 ára aldri. „Ég byrjaði eins og margir aðrir að leika mér á skellinöðrum og færði mig svo yfir í stærri hjólin þegar ég náði aldri. Ég hef átt eitt og eitt hjól síðan. Ég slappaði af í þessu þegar krakkarnir voru litlir en eftir að þau uxu úr grasi og fóru að heiman tók ég þráðinn upp að nýju“. Jón segist fara eins oft og hann geti á hjólið, sérstaklega á sumrin. Hann er í bifhjólaklúbbnum Ernirnir á Suðurnesjum en í þann klúbb eru skráðir yfir 100 manns. „Maður er svo frjáls þegar maður geysist um göturnar á risamótor. Frelsið er ótrúlegt“, segir Jón.Á tímabili geymdi Jón Harley hjólið sitt inn í stofu heima hjá sér. Aðspurður hvort að ástæðan fyrir því væri sú að honum þætti svo vænt um hjólið svaraði hann því neitandi. „Ég geymdi það í stofunni vegna plássleysis. Ég var með stóran bíl í bílskúrnum og því komst það ekki fyrir þar. Ég datt óvænt á hjólið á ferð minni í Reykjavík einn daginn. Konan var ekki heima og því kom ég því fyrir í stofunni tímabundið. Það var þó í stofunni lengur en ég ætlaði mér en nú er það komið í geymslu“. Eins og áður sagði hefur Jón verið á mótorhjóli nær allt sitt líf. „Ætli maður fari ekki á þríhjól þegar maður er orðinn eldri og svo endar maður eflaust í hjólastól með mótor“, segir Jón og hlær.
En að lokum myndir þú segja að þú værir eilífðartöffari?
„Já, ég get nú ekki neitað því. Ég er alltaf til í allt“.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024