Með forsíðumynd á útbreiddu ljósmyndatímariti
Sandgerðingurinn Anna Ósk Erlingsdóttir, ljósmyndari, fær heldur betur góða umfjöllun í nýjasta tölublaði ljósmyndatímaritsins Better Digital. Ljósmynd eftir Önnu skreytir forsíðu blaðsins og á innsíðum þess er fjögurra síðna viðtal og umfjöllun um hana.
Anna Ósk flutti til Ástralíu 35 ára gömul til að láta gamlan draum rætast um að læra ljósmyndun. Hún útskrifaðist fyrir tveimur árum og starfaði um tíma fyrir þarlenda hönnuði uns hún sneri á heimaslóðirnar fyrir ári síðan
Áherslur Önnu er í listrænni tísku- og portrett ljósmyndun en hún hefur skapað sér sérstakan stíl og hafa myndir hennar vakið athygli víða. Áður en hún lauk námi var ein af myndum hennar valin á sýningu í hinu virta ljósmyndasafni National Portrait Gallery í Canberra.
Að sögn Önnu stefnir hún á að starfa við fagið erlendis. Hún sé að velta fyrir sér næstu skrefum og vinni að ljósmyndaverkefnum hér heima á meðan.
Hægt er að skoða verk Önnu á heimasíðu hennar, www.annaosk.com.
----
Hér að neðan má sjá forsíðuna og umfjöllunina inn í blaðinu.