Með eldvarnirnar í lagi
Slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Suðurnesja voru á ferð í leikskólanum Heiðarseli í gær en ekki vegna þess að nein hætta væri á ferðum heldur stóð yfir brunavarnaræfing. Rýmingaráætlun leikskólans var æfð og farið var yfir eldvarnir enda nauðsynlegt að allir viti hvað gera skal ef eitthvað óvænt kemur upp á.
Fulltrúar BS eru á ferðinni í leikskólunum þessa dagana tengslum við eldvarnarátakið Logi og Glóð. Um er að ræða samstarfsverkefni Brunabótafélags Íslands og slökkviliða á landinu í átaki í eldvörnum og fræðslu í leikskólunum. Markmiðið er að virkja og fræða elstu börnin, sem skila áróðri til foreldra og forráðamanna og inná heimilin.
Næstu vikurnar mun Slökkvilið BS gera samning við alla leikskóla á starfsvæðinu. Við undirritun samningsins fær hver leikskólastjóri upplýsingamöppu sem inniheldur ýmis gögn um verkefnið og „eigið” eldvarnaeftirlit, meðal annars eru upplýsingar um rýmingaráætlanir á heimilum og flóttaleiðir.
Hér í ljósmyndasafninu á vf.is má sjá skemmtilega myndasyrpu Ellerts Grétarssonar frá æfingunni í Heiðarseli.
VF-mynd: elg