Með dansinn í blóðinu -Systkin úr Reykjanesbæ sigursæl á danskeppni
Systkinin Kristófer Haukur og Aníta Lóa Hauksbörn úr Reykjanesbæ náðu svo sannarlega góðum árangri á Copenhagen Open, alþjóðlegri danskeppni í Kaupmannahöfn, fyrir skemmstu. Kristófer og dansfélagi hans, Yrsa Rós Ásgeirsdóttir frá Hafnarfirði eru bæði 10 ára gömul og höfnuðu í 4. sæti í standard-dönsum, 4. sæti í 10-dönsum og 5. sæti í latindönsum í sínum aldurshópi.
Aníta Lóa, sem er 8 ára og dansfélagi hennar, Pétur Fannar Gunnarsson úr Kópavogi, höfnuðu í 1. sæti í bæði standard- og latindönsum í flokki 9 ára og yngri, 1. sæti í 10-dönsum, 3. sæti í standard-dönsum og 2. sæti í latindönsum í sínum aldurshópi.
Krakkarnir hafa ekki langt að sækja dansáhugann og hæfileikana því foreldrar þeirra, þau Haukur Ragnarsson og Esther Inga Níelsdóttir, eru bæði menntaðir danskennarar og kepptu saman um árabil. Haukur hefur þó lagt dansskóna að mestu á hilluna en Esther er enn að kenna og saumar einnig búninga á Anítu Lóu.
Hún sagði helgina hafa verið frábæra í alla staði og börnin hafa verið landi og þjóð til mikils sóma. Ekki hafi verið laust við að viðstaddir Íslendingar hafi fengið gæsahúð af stolti þegar íslenski þjóðsöngurinn var spilaður.
Margt og mikið er á dagskrá hjá þessum afrekssystkinum og ber þá hæst danskeppni í Blackpool, sem er stærsta mót, sem haldið er fyrir þennan aldursflokk, í öllum heiminum.
Kristófer Haukur og Yrsa Rós hafa auk þess að keppa í standard- og latindönsum verið valin til að keppa fyrir Íslands hönd í landakeppni á mótinu, en það eru aðeins fjögur pör á öllu landinu sem hljóta þann heiður.
Kristófer og Aníta sögðust í samtali við Víkurfréttir hafa mikið gaman af því að æfa dans og var samba í uppáhaldi hjá þeim báðum. Það væri gaman að keppa á mótum þar sem þau hitta krakka alls staðar að úr heiminum og kynnast sumum vel. Þá koma þau líka fram á ýmsum sýningum og ef einhver hefur áhuga á að fá þau til að sýna dans við opinber tækifæri er hægt að hafa samband við Esther Ingu.
Það verður fróðlegt að sjá hvernig þessu unga hæfileikafólki reiðir af á næstunni og munu Víkufréttir segja frá gengi þeirra á mótinu þegar að því kemur.