Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Með allt á hreinu
Laugardagur 10. mars 2012 kl. 14:39

Með allt á hreinu

Sólborg Guðbrandsdóttir hefur sömuleiðis verið að syngja síðan hún var smábarn. Pabbi hennar er píanóleikari og saman hafa hún og systkini hennar verið að fást við tónlist allt frá barnsaldri. Hún er tvíburasystir en einnig á hún tvo yngri bræður sem eru líka tvíburar. „Pabbi ól okkur systkinin upp í söng og við öll fjögur erum alltaf að syngja heima fyrir, strákarnir hafa meira að segja verið að semja tónlist,“ en þeir eru 13 ára gamlir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Pabbi veitir mér mikinn innblástur og hjálpar mér mikið. Ég væri aldrei að syngja í þessum keppnum ef það væri ekki fyrir hann. Þegar ég var krakki þá var ég mjög villt í söngnum og það má segja að hann hafi still röddina mína og verið minn tónlistarkennari,“ en Sólborg segir að hún sé sífellt syngjandi, hvort sem það sé í skólanum eða heimafyrir.

Sólborg hefur ekki lært söng en hún lærði á píanó í rúm fjögur ár og tónlistarnámið segir hún vissulega hafa hjálpað henni í söngnum. „Ég ætlaði að fara í tónlistaskólann núna en þurfti að hætta við það um sinn vegna anna,“ en hún æfir ballett 5 sinnum í viku. Þessa stundina er hún svo að fara að taka þátt í uppfærslu Vox Arena og Leikfélags Keflavíkur á Stuðmannaleikritinu Með allt á hreinu, þar sem hún leikur eina af Gærunum. Hún er ritari í unglingaleikfélaginu og hefur tekið þátt í þremur uppfærslum. Hún segist hafa mikinn áhuga á leiklistinni en hún getur ekki bent á hvers vegna sá áhugi kviknaði. Kannski það sé vegna þess að Davíð eldri bróðir hennar er menntaður leikari og var virkur í Leikfélagi Keflavíkur áður en hann færði sig í Höfuðborgina og yfir í stærri hluti. Á næstunni mun hún m.a. leika aukahlutverk í kvikmynd sem byggð er á skáldsögunni Falskur fugl, eftir Mikael Torfason, en það var einmitt bróðir hennar sem benti henni á að fara í prufur fyrir myndina.

Samferða í söngnum
„Við Melkorka höfum verið í nánast sömu keppnum undanfarið og það er gaman að tvær stelpur af Suðurnesjunum hafi náð þessum árangri,“ en Sólborg hefur m.a. tekið þátt í Jólastjarnu Björgvins, Röddinni og svo Samfés undanfarin tvö ár. „Mig langar einfaldlega að koma mér á framfæri með því að taka þátt í þessum keppnum,“ en Sólborgu langar að leggja sönginn fyrir sig í framtíðinni. Lagið sem hún tók í keppninni í ár heitir Who you are með söngkonunni Jessie J.

Varstu stressuð á lokakeppninni? „Já maður er alltaf eitthvað stressaður þegar maður er að koma fram. Maður verður samt vanari með hverju skiptinu.“ Sólborg segir að það hafi hjálpað henni mikið að margir krakkar frá Fjörheimum hafi komið og stutt við bakið á henni.

Í framtíðinni sér Sólborg fyrir sér að fara jafnvel í Versló þar sem mikill metnaður er jafnan lagður í söngleiki. „Ég fór á Bugsy Malone um daginn og eftir það varð ég alveg sjúk,“ segir Sólborg en hún ætlar sér þó að læra lögfræði svo að hún hafi nú eitthvað í bakhöndinni ef frægðin skyldi nú ekki berja að dyrum.