Me me me
- Lokaorð Ingu Birnu Ragnarsdóttur
Það styttist í sauðburð hjá bændum landsins, alltaf spennandi tími fyrir þá sem koma að því og ákveðinn vorboði fyrir okkur hin. Í fyrirsögn þessarar greinar er ég hins vegar ekki að vísa í sauðburðinn eða sauðkindina sem slíka heldur í enska útgáfu þessara orða sem Björgólfur Jóhannsson forstjóri Icelandair Group lét falla á uppgjörsfundi fyrirtækisins fyrir um mánuði síðan. Með þessum orðum var hann að lýsa kynslóðinni sem nefnd hefur verið “millennials” eða aldamótakynslóðin, kynslóðin sem kom í heiminn á árunum 1980-1995. Þessi kynslóð hefur einnig verið nefnd Y kynslóðin, en við henni tekur svo Z kynslóðin.
Frá því í apríl 2016 hafa hlutabréf Icelandair lækkað um 60% og stór hluti lækkunarinnar kom í kjölfar þess að tilkynnt var um svarta afkomuspá fyrirtækisins. Á þessum uppgjörsfundi talaði forstjórinn um að fyrirtækið þyrfti að laga sig að breyttu neyslumynstri hverju sinni. Staðan eins og hún sé í dag sé aldrei fasti inn í framtíðina. Þetta er að sjálfsögðu hárrétt hjá forstjóranum, það er ekkert fasti í fyrirtækjarekstri. Það sem hitti mig hins vegar illa var að forstjórinn talar hér um heila kynslóð sem „sjálfhverfu kynslóðina”. Lærdómur nr. 1 – ekkert er fasti. Lærdómur nr. 2 – lærðu að þekkja viðskiptavini þína.
Mörg fyrirtæki hafa „lent” í því sama og Icelandair. Þau sofna á verðinum og festast í eigin kerfum og ferlum sem gefa ekki tækifæri til sveigjanleikans sem þarf til þess að ná til nýrra kynslóða eins og þessarar sem er einstaklega vel upplýst og ber enga eða litla hollustu (e. loyalty) til fyrirtækja. Sömuleiðis hafa of mörg fyrirtæki fengið byr undir báða vængi vegna fákeppni í lengri tíma og reksturinn farið í hálfgerða sjálfsstýringu í eina átt meðan viðskiptavinir þess færast í aðra.
Með þessum orðum er ég einfaldlega að leggja áherslu á mikilvægi þess að fyrirtæki séu vakandi yfir því að mæta kröfum viðskiptavina sinna, af öllum kynslóðum. Við eigum að gera þá kröfu sem þegnar þessa þjóðfélags að stjórnendur stærstu fyrirtækja landsins sem eru að stórum hluta í eigu lífeyrissjóða landsins (lesist „okkar eigu") séu stanslaust að vinna í því að bæta reksturinn en sofni ekki á verðinum, vakni svo upp við vondan draum við breytt neyslumynstur nýrra kynslóða.