Matur: Hefðbundinn hátíðarmatur að hætti kokksins
Eðvarð Eyberg Loftsson er reynslubolti í matreiðslufaginu. Hann hefur starfað í faginu lengi og stjórnar núna í eldhúsinu hjá því ágæta fyrirtæki Skólamat ehf.
Við fengum að líta í uppskriftasafnið hjá Edda þar sem kennir margra grasa. Markmiðið var að finna góðar uppskriftir að hátíðarmat, ekkert alltof flóknar. Fengum svo Edda til að skrifa upp leiðbeiningar um matreiðsluna. Það var auðsótt mál og hér er afraksturinn:
Pönnusteiktur „Glóðar“ humar
20 stk humar skelflettur
1 msk paprikukrydd
1 tsk hvítlaukskrydd
4 rif hvítlaukur
1 stk sítróna
Steinselja
Sjávarsalt, eftir smekk
Steinselja
2dl hvítvín
2 dl rjómi
olía
Pannan hituð, humarinn kryddaður og snöggsteiktur ásamt hvítlauknum, hvítvíninu hellt yfir og humarinn veiddur upp úr. Rjómanum hellt út á og sósan soðin niður og smökkuð til.
Humarinn settur út í 1/2 sítróna kreist yfir og stráð með steinselju.
Borið fram með ristuðu brauði og sítrónu á salatbeði.
Hamborgarhryggur
Hamborgarhryggur 1/2 úrbeinaður settur í pott og vatn látið fljóta yfir og bætt með rauðvíni eða malti. Ég læt suðuna koma upp og læt hann malla í svona 30 til 40 mínútur, tek hann upp úr og læt hann í ofnskúffu og gljáann að hluta yfir og klára hrygginn í ofninum og set restina af gljáanum yfir þegar ég tek hann út úr ofninum og raða þá ananassneiðunum
ofan á.
Gljái
1/2 dl olía
100 gr sykur
100 gr púðursykur
1 dós ananas
1 dl tómat púrra
1 dl sætt sinnep
Pannan hituð og olían og sykurinn sett á pönnuna, sykurinn brúnaður. Ananassafinn, sinnepið og tómatpúrran sett út í og gljáinn soðinn þar til hann er kekkjalaus.
Rauðvínssósa
100 gr smjör
100 gr hveiti
1 dl sætt sinnep
1 kjúklingateningur
soð úr potti
2 dl rauðvín eða malt
Smjörið sett í pott og brætt hveiti blandað saman við og búin til smjörbolla. Soðinu hellt saman við ásamt sinnepinu og rauðvíninu. Sósan bætt með soði úr ofnskúffu.
Meðlæti með hamborgarhrygg
Hvítkálssalatið
hennar ömmu Dísu
1/4 haus hvítkál
3 msk mæjónes
Lítil dós ananas
Mæjónes sett í skál og hrært. Ananasbitar settir út í ásamt smá safa. Fínt söxuðu hvítkálinu er svo blandað saman í restina
Rjómasalat
3 dl rjómi
3 stk epli
1/2 dós kokteilávextir
3 msk súkkulaðispænir
6 stk valhnetukjarna
Rjómi þeyttur, epli skræld og skorin í bita, kokteilávextir sigtaðir og öllu blandaðsaman skreytt með súkkulaðispæni og valkjörnum
Heimalagað rauðkál
100 gr sykur
Olía 2msk
1/2 haus rauðkál
Kálið skorið í ræmur, olía sett á pönnuna ásamt sykrinum, sykurinn brúnaður og kálið sett út í og brúnað.
Jólasúpan
Fyrir 4 sem aðalréttur eða 6 til 8 sem forréttur.
3 dl hvítvín Guntrum,Riesling
6 dl rjómi
6 hvítlauksrif smátt söxuð
1/2 paprika í teningum
100 gr blaðlaukur í teninga
2 tsk karrý
1/2 tsk pipar
2 til 3 grænmetisteningar
1 tsk dill
1 msk olía
120 gr hörpuskel
120 gr rækjur
120 gr lax eða annar fiskur í bitum.
2 dl þeyttur rjómi
Olía sett í pott og hvítlaukurinn rétt hitaður,ekki brúnaður. Hvítvínið út í og suðunni hleypt upp. Rjóminn og grænmetið sett út í ásamt kryddinu og látið malla. Gott er að hræra kryddinu saman við smávegis af heitu vatni til að leysa það upp, þá fer það síður í kekki. Rétt að sjóða aðeins upp á fiskinum betra í hvítvíni eða sítrónuvatni. Borið fram með þeyttum rjóma. Einnig væri hægt að setja sjávarréttina á pinna og steikja og krydda. Flott að hafa fiskispjót með.
Konfektís með kaldri jarðaberjasósu og volgri toblerone sósu
3 stk egg
3 msk sykur
2 msk púðursykur
1/2 ltr rjómi
10 stk Nóa og Síríus konfektmolar
1/2 dl madeira (má sleppa)
10 stk jarðarber
Egg og sykur eru stífþeytt saman. Rjóminn tekinn og þeyttur og blandað saman við eggin og sykurinn með sleikju. Konfektið er sett í pott ásamt rjóma og það brætt að hálfu og látið kólna. Súkkulaðinu er svo bætt út í ísblönduna ásamt jarðaberjum. Sett í form og fryst.
Volg tobleronesósa.
1 dl rjómi
100 gr Toblerone (má vera hvítt)
Brætt saman og sósan svo borin fram volg
Köld jarðarberjasósa
1 box jarðarber
3 msk sykur
Jarðarberin og sykurinn sett saman í matvinnsluvél og mixað saman.