Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Matarstaur er miðpunktur mikillar gleði á veirutímum
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 1. maí 2020 kl. 12:00

Matarstaur er miðpunktur mikillar gleði á veirutímum

Keflavíkurhjónin Þorsteinn Bjarnason og Kristjana Héðinsdóttirhafa notið matargleði með nágrönnum sínum í næsta húsi á veirutímum

Keflavíkurhjónin Þorsteinn Bjarnason og Kristjana Héðinsdóttir, sem búa í Hafnarfirði, hafa notið matargleði með nágrönnum sínum í næsta húsi á veirutímum með sérstökum hætti. Þau hafa sent hvort öðru kvöldmatinn oft í viku og það ekki á venjulegan máta því á milli húsanna er staur sem þau setja matinn á. Fyrrverandi Keflavíkurmarkvörðurinn Steini Bjarna segir að það sé mikill spenningur að vita hvað sé í matinn þegar nágrannarnir elda og öfugt. Vináttan hafi styrkst á tímum COVID-19.

– Þetta er skemmtilegt uppátæki hjá ykkur nágrönnunum á tímum COVID-19.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það er ekki hægt að segja annað. Byrjaði á léttri heimsendingu í byrjun, svona til að létta undir með grönnunum. Svo byrjuðu okkar hugvitsömu grannar að auka í matargjöfina og þá þurfti að setja pall á staurinn. Loksins urðu einhver not af þessum staur því ekki er ætlunin að setja upp vegg á milli okkar. Í þessu ástandi er flott að gera eitthvað svona og legg til að fleiri nágrannar sem hafa kost á því að gera þetta. Það verður alltaf ákveðin spenningur í kringum þetta og gleði.

– Hafið þið kannski lagst í meiri heimavinnu með matseðil.

Ekkert frekar, áður fyrr vorum við kannski að snæða saman einu sinni í mánuði og þá var stundum meira lagt í þetta aðeins að toppa sig en núna er þetta meira bara venjulegur matur með sparitilbrigðum þegar tilefni er til. Maður rúllar bara hefðbundnum uppáhaldsréttum fjölskyldunnar og vonar að það gangi í nágrannana, t.d. Lasagne, Spagetti Bolognese og svo klikkar lambið aldrei. Þetta verður meira matar(veislu)þjónusta heldur en matarboð þar sem maturinn fer út úr húsi.

– Eru einhver uppáhaldsmatur hjá ykkur, eitthvað sem ykkur hjónum finnst sérstaklega gott hjá nágrönnunum og öfugt?

Við vitum sjaldan hvað við fáum sem gerir þetta meira spennandi en við erum með það nokk á hreinu hvað okkur líkar ekki (ég er líklega vandamálið). Eftir sextán ár sem góðir grannar þá er þetta nokkuð ljóst hvernig matarsmekkurinn er en þorskhnakkarnir og grilluðu tvírifjurnar hjá nágrönnum okkar slógu í gegn. Við fengum hólið fyrir Lasagne og innbökuðu nautasteikina.  Það gæti vel verið að við reynum að þróa þetta í einhverja átt sem við vitum ekki hver verður ennþá.

– Og kokteilar líka?

Það kemur svolítið stuði í mannskapinn þegar Holy B er búin að vera á skjánum þá er upplagt að taka einn við staurinn og skoða sólroðann sem er ansi flottur hér ofan af Ásfjallinu enda gott útsýni heim í Kef. Þá kemur hver og einn með sinn drykk út á staur og við höldum öllum reglum með fjarlægðina.

Ágúst og Þorsteinn skála við matarstaurinn.

– Eruð þið búin að ræða hvað gerist í matarstauramálum eftir COVID-19?

Staurinn verður allavega ekki felldur og það verður örugglega „reunion“ hjá honum á góðum sumarkvöldum. Við höfum fengið heimsókn á staurinn frá nágrönnum okkar handan götunar og spurning hvort fleiri bætist við í góðan drykk svona við hæfi.

– Líturðu björtum augum til sumarsins?

Já, ég geri það. Við komumst í golfið eftir helgina svo er bara að ferðast um landið og styrkja ferðaiðnaðinn eins og hægt er.

– Hver eru áhugamál þín og hefur ástandið haft áhrif á þau?

Þetta hefur haft þau áhrif að íþróttir hafa legið niðri. Ég sakna þess að komast ekki á æfingar í körfu en hef tekið ágætis göngutúra með eiginkonunni. 

– Áttu þér uppáhaldsstað á Íslandi og hver er ástæðan?

Engan sérstakan en má nefna Vestfirði, bæði Aðalvík og svo Strandirnar. Frábært og undurfallegt að ganga þar um.

– Hvað stefnirðu á að gera í sumar?

Fyrst skal nefna golfið, sumarbústaður fjölskyldunnar í Þrastarskógi, vika á Akureyri og fleira.

– Hver voru plönin áður en veiran setti strik í reikninginn?

Heimsókn til Uppsala í Svíþjóð þar sem afadrengurinn hann Heimir býr, slæmt að hitta hann ekki. New York var planað og eitthvað meira. Það kemur annað ár eftir þetta til ferðalaga erlendis. Best að vera laus við vinnuferðir erlendis.   

– Hvernig hefur tilveran verið hjá þér undanfarnar vikur, hefur margt breyst?

Þetta er margt skrýtið. Vinnulega séð þá hefur verið unnið 50/50 heima og að heiman. Kristjana mín hefur alfarið unnið heima og erum við í sitt hvorum enda hússins við störf –  en eins og hjá öðrum þá saknar maður tímans með fjölskyldunni þar sem Bjarni og Ingibjörg okkar starfa bæði í heilbrigðisgeiranum.

– Finnst þér fólk almennt virða reglur tengdar samkomubanni?

Það sýnist mér að mestu þó einhverjar undantekningar megi finna hist og her. Þessi staur okkar er ein birtingarmyndin þar sem ég og nágrannakonan erum vinnufélagar en erum á sitt hvorri vaktinni .

– Hvaða lærdóm getum við dregið af heimsfaraldrinum?

Ég held að þetta sýni að það er ekkert sjálfsagt í tilverunni og enn á ný sést hvað við Íslendingar erum heppnir að vera staddir hérna út í miðju Atlantshafinu þegar eitthvað bjátar á í veröldinni. Svo sýnir þetta hvað það er mikilvægt að rækta nærumhverfi sitt, fjölskyldu og vini.

– Hvaða aðferðir ertu að nýta til að eiga í samskiptum við fólk?

Það er Messenger við fjölskylduna og Teams í vinnunni fyrir utan símann. Það verður fróðlegt að vita hvernig þessi tækni öll verður notuð þegar þetta ástand verður yfirstaðið. 

– Ef þú fengir bara að hringja eitt símtal í dag, hver fengi það símtal og hvers vegna?

Ætli það væri ekki í mömmu og pabba í draumalandinu en tæknin er víst ekki orðin nógu góð í það.

Nágrannarnir Ragnheiður og Ágúst á góðri stundu við staurinn. Skál!

– Ertu liðtækur í eldhúsinu?

Já, já. Ef mér er sagt til og stjórnað. Er nokkuð brattur á grillinu og Big Easy.

– Hvað finnst þér skemmtilegast að elda?

Allar gerðir af kjötmeti og ýmsu meðlæti á grillinu. Nokkuð góður með kalkúninn.

– Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Rib-Eye, Medium Rare, bökuð kartafla, grillaður, nýr aspas og Bearnaise. 

– Hvað geturðu ekki hugsað þér að borða?

Lognuð svið en það er herramannsmatur nágrannanna (húsfrúin að vestan).

– Hvað var bakað síðast á þínu heimili?

Það var líklega bananabrauð, einkar ljúffengt.

– Ef þú fengir 2000 krónur, hvað myndir þú kaupa í matinn?

Maður kaupir líklega ekki naut. Líklega plokkfisk með osti og Bearnaise.

Sagan af staurnum

Ragnheiður Björk Guðmundsdóttir og Ágúst Ágústsson eru nágrannar Þorsteins Bjarnasonar og Kristjönu Héðinsdóttur og hafa vinahjónin leyft vinum sínum á Facebook að fylgjast með fjörinu á staurnum á tímum COVID-19. Ragnheiður setti nýlega söguna á bak við matarstaurinn og hún er vægast sagt mjög skemmtileg.

Þegar við fluttum í húsið okkar höfðu önnur hjón keypt hinn helminginn. Ýmislegt var ófrágengið eins og vill gerast með nýleg hús og eitt af því var bílaplanið.

Nágrannakonan var ákveðin í því að það þyrfti að koma landamæraveggur á miðju bílaplaninu þ.e. frá húsi og u.þ.b. 1,5 metra út frá því eins og væri á öllum hinum húsunum. Þetta var samþykkt og staurinn því settur niður um leið og var hellulagt.

Svo kom haustið og veturinn og þessir nágrannar voru orðnir góðir vinir okkar. Við komumst fljótt að því að það var gott að geta labbað þurrum fótum undir þakskegginu í stað þess að fara út fyrir landamæravegg og lenda í bleytu eða snjó þannig að það var tekin ný ákvörðun um að reisa ekki umræddan vegg.

Síðan er liðinn góður áratugur og staurinn er þarna, ekki til neinnar prýði og lítils gagn..... eða þar til núna að hann öðlaðist nýtt hlutverk sem hefur vakið nokkra athygli.

Við vinirnir gerðum það af og til að borða saman en svo kom COVID-19 og þá kom upp sú staða, vinnunnar vegna, að ég og húsbóndinn á hinu heimilinu máttum ekki hittast mikið því við vorum á sitt hvorri vaktinni þar.

Einn daginn hringir nágrannakonan í mig og segist vera að elda ljúffengan lambapottrétt og hún ætli að setja hann við dyrnar og dingla bjöllunni.

Næsta dag fannst mér ég verða að launa greiðan og þá kviknaði þessi hugmynd, sem Gústi framkvæmdi snarlega að setja plötu á staurinn og réttlæta þannig tilveru hans. Þarna var kominn fínasti staður fyrir matargleðina okkar.

Eins og þið hafið séð þá hefur staurinn verið miðpunktur mikillar gleði síðustu vikur og verður áfram til 4. maí. Nokkrum sinnum í viku höfum við skipst á að setja kvöldmatinn á staurinn og upp á síðkastið meira að segja útfært kokteilboð þarna úti eftir að sólin fór að skína.

Matarafhendingarstaurinn fæst í Byko en ég er ekki viss um að þeir geti tryggt svona góða nágranna með í pakkanum. :-)

... og þá þekkið þið, sem nenntuð að lesa alla langlokuna, söguna um staurinn.

Eins og sjá má hér á myndunum hefur verið metnaður í matargerðinni.