Matarmenn deila ævintýrum úr eldhúsinu
-Anton og Bjarki Þór skemmta sér og öðrum í eldamennsku og bera virðingu fyrir öllu hráefni
Matarmenn eru tveir ungir menn sem hafa mikla ástríðu fyrir mat. Þeir deila ævintýrum sínum úr eldhúsinu með þeim sem áhuga hafa á Instagram og hafa vægast sagt gaman að því. Þeir Anton Levchenko og Bjarki Þór Valdimarsson eru miklir matarmenn, flugþjónar, nágrannar en umfram allt góðir vinir.
„Við kynntumst í tveggja nátta stoppi í Montreal og Anton var bara alveg ágætur. Við tengdumst svo vel í þessu stoppi að við ákváðum að hittast á kaffihúsi stuttu eftir heimkomuna,“ segir Bjarki en í dag eru þeir búsettir í Innri Njarðvík, í íbúðum hlið við hlið ásamt fjölskyldum sínum og elda reglulega saman.
„Það var oft sem Bjarki hringdi í mig og spurði hvort ég vildi ekki kíkja yfir í mat þar sem það væri nú tilboð á silungi í Nettó,“ segir Anton og þeir félagar skella upp úr en það er einmitt hann sem einkennir Matarmenn, hláturinn sem er aldrei langt undan.
„Matur hafði í raun alltaf sameinað okkur á einhvern hátt,“ segir Bjarki en í einu matarboðinu hafi hugmyndin að Matarmönnum einmitt kviknað. „Við höfum báðir mjög gaman af því að elda, við höfum gaman af samverunni og ákváðum bara að leyfa fólki að fylgjast með ruglinu í okkur,“ bætir Anton við.
Deyja úr hlátri í eldhúsinu
Tæplega tvö þúsund manns fylgjast með Matarmönnum elda á Instagram í dag og er það opið öllum þeim sem áhuga hafa. Þar elda þeir félagar máltíðir frá grunni, hvort sem það er tikka masala, sushi, lambalæri eða ravioli. Þá eru þeir einnig duglegir við að baka og leyfa áhorfendum á sama tíma að fylgjast með öllu því sem miður fer, enda snúist þetta ekki um það að vera fullkominn í eldhúsinu. Viðtökurnar, á þeim örfáu mánuðum sem Matarmenn hafa verið í gangi, hafa verið ótrúlega góðar og farið fram úr þeirra björtustu vonum.
„Margt á Instagram er oft svo fullkomið en við viljum sýna fólki öll mistökin og allt sem klikkar. Ég held að fólk hafi líka bara gaman af því,“ segir Anton en nýir fylgjendur bætast við hópinn daglega. „Við vildum reyna að byggja smá grunn. Í dag getur fólk séð marga þætti á síðunni hjá okkur. Fólk getur horft á þá eftir á sem er það góða við Instagram,“ segir Bjarki og Anton bætir því við að það séu þeir félagar einmitt duglegir að gera. „Við getum alveg horft á okkur sjálfa og dáið úr hlátri. Við höfum svo gaman af því að rifja upp kvöldstundina.“
Graflax og Gordon Ramsey
„Það skemmtilegasta sem ég gerði þegar ég var lítill polli var að fara með mömmu út í búð. Ég hef verið mikið fyrir sælkeramat frá því ég man eftir mér,“ segir Bjarki og rifjar það upp að hafa til að mynda verið mikið fyrir osta og graflax sem barn og þar af leiðandi ekki beint ódýr í rekstri. „Frænkur mínar elskuðu að passa mig því þær gátu bara dælt í mig mat. Ég borðaði allt og þeim leið bara eins og stjörnukokkum þegar þær fengu mig í pössun, enda var ég líka í hlutföllum miðað við það,“ segir Bjarki kíminn.
Anton hefur líka alltaf verið mikið fyrir mat, þótt rosa gott að borða og yfir höfuð pælt mikið í eldamennsku. Þá lítur hann einnig mikið upp til meistarakokksins og sjónvarpsstjörnunnar Gordon Ramsey, það mikið að hann hefur horft á allar átján seríurnar af Hell’s Kitchen tvisvar sinnum. „Þetta var svona mitt Friends. Ég hafði ótrúlega gaman af þessu og fór að prófa ýmislegt sem Gordon ráðlagði. Ég væri virkilega til í að fá að hitta hann og ræða aðeins við hann. Það er í rauninni hann, samhliða því að mér finnist gott að borða, sem hefur kveikt á áhuga mínum á eldamennsku.“
Góðir vinir verslunarstjóra
Þeir félagar verja miklum tíma saman við gerð þáttanna sem og utan þeirra. Þeir pæla mikið og plana hvern þátt fyrir sig, fara saman í búðarferð til að kaupa hráefnið og hefur það aldrei gengið hnökralaust fyrir sig, þar sem þeir hafa í hvert einasta skipti neyðst til að ræða við verslunarstjóra.
„Búðarferðin er alltaf ótrúlega skemmtileg. Það er eiginlega orðið að mottóinu okkar að tala við verslunarstjórann,“ segir Bjarki en það er þá oftast í leit að sjaldgæfu hráefni, sem sumir hverjir myndu hreinlega sleppa að nota þegar miðað er við framandi uppskriftir. „Fyrirgefðu, áttu nokkuð vanillustangir? Svo mætir hann með kanilstangir,“ segir Anton og þeir skella upp úr.
Ef þeir félagar finna ekki einhver tiltekin hráefni eru þeir duglegir við að finna önnur svipuð til að nota þá í staðinn. Þá leggja þeir einnig mikið upp með því að útbúa rétti alveg frá grunni. „Það er til dæmis oft mikið af viðbættum sykri í krukkumat. En ef rétturinn er eldaður frá grunni stjórnar maður því algjörlega sjálfur. Það er nefnilega ekkert alltaf mikil fyrirhöfn. Maður heldur það oft á tíðum og miklar þetta fyrir sér en sú er ekki raunin,“ segir Bjarki. Í stað þess að kaupa til dæmis tilbúið pestó út í búð útbúa þeir það sjálfir. „Við höfum lært það að maður verður að bera virðingu fyrir öllu hráefni.“
Í áttina að Reykjanesbæ
Bjarki er fæddur og uppalinn í Keflavík en saga Antons er örlítið flóknari. „Ég byrja á því að fæðast í Úkraínu og flutti svo til Íslands þegar ég var tólf ára. Þá bjó ég í Vestmannaeyjum, flutti svo til Reykjavíkur, þaðan til Garðabæjar og svo kom ég hingað. Ég hef alltaf færst nær og nær Reykjanesbæ. Það er eitthvað við þennan stað. Ég elska að búa hérna,“ segir Anton.
Þó Matarmenn nái einstaklega vel saman eru þeir ólíkir að mörgu leyti. Anton er skipulagðari og fylgir uppskriftunum oftast nákvæmlega á meðan Bjarki leyfir sér meira að „dassa“. Þeir vinna þó vel saman og skipta hlutverkunum jafnt sín á milli. „Við erum svolítið ying og yang. Anton vill ekki kúfulla skeið. En maður þarf ekki að fylgja uppskriftum alveg upp á tíu. Það má alveg fara aðeins út fyrir,“ segir Bjarki. Þá bætir Anton við að það sé ótrúlegt hvað Bjarki hafi góð áhrif á sig. „Ég verð bara einhvern veginn rólegri í kringum hann. Ef ég byrja á einhverju þá er Bjarki bara byrjaður á einhverju öðru. Þetta smellur einhvern veginn allt saman hjá okkur,“ segir Anton.
Þrettán ára myndband frá Indlandi
Matarmenn notast mikið við netið til að afla sér upplýsinga um matargerð og þegar þeir tóku upp fyrsta þáttinn fyrir Instagram ákváðu þeir að gera indverskan mat. „Við vildum byrja þetta með svolítilli sprengju. Indverskur matur er eitthvað sem flestir tengja við og við ákváðum að gera tikka masala og naan-brauð en okkur vantaði uppskrift. Við fórum þá bara á YouTube og fundum eitthvað þrettán ára gamalt myndband með einhverri indverskri, gamalli konu sem var tekið upp á eldgamla myndavél. Við bara horfðum á þetta myndband, sáum þessa gömlu, indversku konu og við hugsuðum báðir: „Við treystum þessari konu. Enda voru naan-brauðin geggjuð.“
Svona hafa Matarmenn reddað sér, hvort sem það er í gegnum YouTube-myndbönd frá Indlandi eða sjónvarpsþætti Gordon Ramsey. Þeir eru hvorugir lærðir kokkar en hafa báðir mikinn áhuga á því að sækja námskeið tengd matargerð. „Við förum alltaf í mikla rannsóknarvinnu fyrir þættina okkar og svo notum við okkar „Matarmannainnsæi“, eins og ég kalla það, og gerum þetta svolítið að okkar,“ segir Anton og Bjarki bætir því við að þeir séu ekkert að finna upp hjólið þegar kemur að matargerð. „Við notumst alltaf við einhvern grunn en það er árið 2019 og það er nú þegar búið að finna flest allt upp í matargerð, þannig séð. En við reynum að gera uppskriftirnar að okkar.“
Gítar og grín í boði fyrir saumaklúbba
Matarmenn eru nú orðnir bloggarar hjá Gulur, rauður, grænn & salt (grgs.is) en að þeirra sögn er margt annað í pípunum hjá þeim félögum. „Eitthvað af því hefur ekki verið gert opinbert svo við getum ekki sagt frá því strax. En annars mun sá tími koma að við opnum heimasíðuna Matarmenn.is, það verður gert þegar tími gefst.“ Aðspurðir hvort þeir hefðu áhuga á því að gerast sjónvarpskokkar eru þeir ekki lengi að svara. „Það væri náttúrlega bara draumur.“
Í dag getur fólk haft samband við Matarmenn og bókað þá fyrir minni veislur, svo sem í saumaklúbba. „Við eldum, græjum kokteila og höfum mjög gaman að þessu. Svo er aldrei að vita nema það verði smá gítarspil líka,“ segir Bjarki hress en Anton sjái þá um að taka piparstaukinn með. „Ég get ekki beðið eftir því að henda í næsta þátt. Við erum ótrúlega ánægðir með viðtökurnar og erum eiginlega bara smá klökkir. Við gjörsamlega elskum þetta.“
Hægt er að fylgjast með Matarmönnum hér en sjónvarpsviðtal við þá má sjá hér neðar.
-Sólborg Guðbrands