Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Masterar markaðsfræði hinum megin á hnettinum
Ellen Agata í Blue Mountains, New South Wales.
Föstudagur 7. júlí 2017 kl. 06:00

Masterar markaðsfræði hinum megin á hnettinum

-Ellen Agata Jónsdóttir nýtur lífsins í Ástralíu

„Ég held ég hafi komið fjölskyldu minni svolítið á óvart með þessari ákvörðun þar sem ég hef aldrei þolað mikinn hita né mátt sjá svo mikið sem húsflugu án þess að hlaupa í burtu öskrandi,“ segir Keflvíkingurinn Ellen Agata Jónsdóttir, en hún er búsett hinum megin á hnettinum í Brisbane í Ástralíu þar sem hún stundar mastersnám í markaðsfræði við Griffith University.


Við Óperuhúsið í Sydney.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ellen segist sátt í Ástralíu en hún flutti þangað um hásumar og segist í dag vera farin að venjast hitanum. „Fólkið hér er mjög viðkunnanlegt og skemmtilegt og maður lendir oft í samræðum við bláókunnugt fólk, hvort sem það er úti í búð eða í strætó. Hér í Brisbane er lífinu tekið nokkuð rólega. Það er stutt í strendurnar og fólk fer mikið þangað um helgar. Það er einnig mikið um matarmarkaði og þangað fer ég oft, bæði til að smakka mat frá öllum heimshornum og til að versla ferska ávexti og grænmeti. Svo elska ég að labba um borgina og finna ný kaffihús og fylgjast með mannlífinu.“


Miðborg Brisbane.

Ellen, sem er útskrifaður tómstunda- og félagsmálafræðingur frá HÍ, ætlaði upprunalega að sækja um í skóla í London, en það hafði alltaf verið hennar draumur. Hún ákvað þó á síðustu stundu að reyna að upplifa meira ævintýri og endaði í Brisbane. „Þegar ég lærði í HÍ reyndi ég að leggja sem mesta áherslu á viðburðastjórnun í námi en ég kláraði einnig diplómu í viðburðarstjórnun frá Háskólanum á Hólum. Þegar ég fór svo að huga að mastersnámi vissi ég að ég vildi auka þekkingu mína á öðru sviði og hefur mér alltaf þótt markaðsmál áhugaverð og viðburðarstjórnun og markaðsfræði passa vel saman.“


Ellen á Fiji ásamt vinum sínum.

Hingað til hefur Ellen reynt að ferðast eins mikið og hún getur. Hún hefur meðal annars ferðast um Norður Queensland til að skoða The Great Barrier Reef, siglt á milli Whitsundays eyjanna, þar sem hún synti í sjónum með banvænum marglittum, farið í roadtrip til Sydney, í tveggja vikna rútuferð um Nýja Sjáland og nýlega kom hún heim frá Fiji sem hún segir einn magnaðasta stað sem hún hefur upplifað. „Ég held ég hafi ekki farið í skó í viku. Á Fiji er æðislegt fólk og þar er enginn að stressa sig á hlutunum.“


Whitehaven ströndin í Whitsunedays eyjunum.

Það hefur komið Ellen á óvart hvað hún hefur fengið litla heimþrá, en hún flytur þó aftur heim til Íslands í ágúst að náminu loknu. „Ég er búin að upplifa svo mikið af nýjum og skemmtilegum hlutum, en það er líka svo auðvelt að vera í sambandi við fjölskyldu og vini í gegnum netið. Auðvitað koma upp tímar þar sem maður væri alveg til í að vera heima og þá finnur maður virkilega hvað þetta er langt í burtu. Þær aðstæður hafa komið upp þar sem ég gat ekki hugsað mér að vera annars staðar en á Íslandi. Ég á svo ótrúlega fjölskyldu sem flaug mér þá heim sem ég verð ævinlega þakklát fyrir. Ferðalagið tók tvo heila daga sem einkenndust af flugvallarbið og flugferðum.“ Ellen segir það ekki fyrir hvern sem er að búa svona langt í burtu en hún segist hafa kynnst fullt af fólki alls staðar frá í heiminum. „Það eru fjölmargir búnir að boða komu sína til Íslands þegar ég flyt heim. Fyrsta heimsóknin er einmitt núna í október þar sem vinkonur mínar frá Noregi, Kanada og London ætla að koma í heimsókn.“

[email protected]