Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Marta leggur á tind Grænlandsjökuls
Miðvikudagur 30. maí 2007 kl. 17:17

Marta leggur á tind Grænlandsjökuls

Á mánudagskvöldið kom Marta Guðmundsdóttir að ratsjárstöðinni Dye II uppi á Grænlandsjökli á göngu sinni yfir Grænlandsjökul til stuðnings Krabbameinsfélaginu.  Þar með hefur hún lokið við um þriðjung leiðarinnar. Í dag leggur hún ásamt hópnum sínum af stað sem leið liggur að toppi Grænlandsjökuls. Sjá nánar á korti hér neðar.

 

Hún skrifaði á síðu sína www.martag.blog.is í gær:

 

Halló heimur. 
Dagurinn í dag (þriðjudagur) var rólegur, búin að liggja eins og klessa inni í tjaldi og lesa, hef ekki gert handtak og látið Norðmennina um skítverkin. Við fórum reyndar að skoða DYE II og það var mjög skrýtin tilfinning að ganga um þetta ferlíki og pínu sorglegt að sjá hversu illa er farið með verðmæti sem hægt væri að nýta betur í heiminum. Í eldhúsinu fann ég íslenskt beikon og smjör. Á morgun miðvikudag er stefnan sett á hátind jökulsins, þangað eru áætlaðir þrír dagar og ég verð tilbúin í slaginn eftir góða hvíld í dag.
Bið að heilsa ykkur öllum.

Kær kveðja, Marta.

Marta, sem er úr Grindavík, greindist með brjóstakrabbamein í október 2005 en hefur lokið erfiðri meðferð. Ferð þessi er farin á vegum Krabbameinsfélags Íslands með stuðningi Deloitte og 66°N.  Markmiðið er tvíþætt, að safna fé til að berjast gegn brjóstakrabbameini og að vekja konur til umhugsunar um mikilvægi þess að fara reglulega í skoðun.

Marta er eini Íslendingurinn í sjö manna hópi sem lagði á jökulinn fyrir viku. Gert er ráð fyrir að ferðin taki um þrjár vikur. Gönguleiðin er alls um 600 kílómetrar og er farið eftir 66. breiddargráðu, þvert yfir jökulinn, frá vestri til austurs.

Meðan á göngunni stendur verða seld póstkort til styrktar Krabbameinsfélaginu, en þau mun Marta undirrita og póstleggja í Tassilaq þegar hún kemur niður af jöklinum. Hvert kort kostar 1000 krónur og renna tekjurnar óskertar til rannsókna á brjóstakrabbameini. Hægt er að smella hér til að kaupa kortin

Sjá viðtal við Mörtu í Víkurfréttum

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024