Markaregn í miklu vatnsflóði á mölinni
Kvennaknattspyrna 2. deild: Keflavík í 1. deild eftir 10:0 sigur á ÍR
Gamla myndin og fréttin
Fimmtudagur 16. ágúst 1984
Það er óhætt að segja að stelpurnar í Keflavík hafi tekið 2. deildina með trompi nú í sumar. Það var fyrst í fyrra sem tekið var til við að æfa knattspyrnu af kappi í kvennaflokki ÍBK. Í sumar hefur svo verið æft stíft og árangurinn ekki látið á sér standa.
Stelpurnar sem flestar eru ungar að aldri, hafa ekki tapað leik í sumar og einungis einn leikur hefur endað með jafntefli. Í síðasta leik sínum, sem háður var í liðinni viku, sigruðu stelpurnar ÍR með 10 mörkum gegn engu. Leikurinn fór fram í miklu vatnsflóði, en stelpurnar létu það lítt á sig fá og léku af öryggi. Mörkin skoruðu Guðlaug Sveins 4, Anna Gunnars 2, Björg Hafsteins 2, Íris Ástþórs 1 úr víti og María Guðmunda Jónasdóttir 1.
Sem sagt markaregn í grenjandi rigningu. Stelpurnar tryggðu sér með þessum sigri þátttökurétt í 1. deild á næsta ári. Þar mun róðurinn eflaust verða erfiður, en ef áfram er haldið af sama kappi og hingað til mun árangurinn ekki láta á sér standa. Hér eru Íslandsmeistaraefni á ferðinni, svo mikið er víst. - gæi.