Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Miðvikudagur 26. janúar 2000 kl. 13:53

Markaðssetning Suðurnesja vaxandi þáttur í starfsemi MOA

Markaðs- og atvinnumálaskrifstofa Reykjanesbæjar var stofnsett árið 1995. Markmiðið var að bæta atvinnuástand á Suðurnesjum, sem var í lægð á þeim tíma. Með sérstökum samningi við Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum er MOA samræmingaraðili sveitarfélaganna í markaðs- og atvinnuþróunarmálum. Hlutverk skrifstofunnar er að skipuleggja og standa fyrir fjölbreyttum stuðningsaðgerðum í þágu atvinnulífsins og auka þar nýsköpun og arðsemi með ýmsum verkefnum og þjónustu. Auk þessa er skrifstofunni ætlað að markaðssetja Suðurnesin í heild sem vænlegan kost fyrir fjölbreytta atvinnustarfsemi og eftirsóknarverðan stað til búsetu fyrir einstaklinga og fjölskyldur. Þjónusta skrifstofunnar stendur öllum til boða, bæði heimamönnum og öðrum sem leita eftir úrlausnum í atvinnu-, rekstrar og /eða markaðsmálum og einnig þeim sem leita eftir nýjum leiðum í fjárfestingum og uppbyggingu fyrirtækja. Starfsemi MOA er í sífelldri endurskoðun og þróun en atvinnuleysi á Suðurnesjum er nú með því allra minnsta á landinu. Atvinnumiðlun Starfssvið MOA skiptist í nokkur svið sem þó tengjast öll mjög náið innbyrðis. Þar má nefna atvinnumiðlunina sem hefur aðsetur í Kjarna við Hafnargötu. Starfsfólk vinnumiðlunar fer með málefni svæðisvinnumiðlunar samkvæmt samningi sem gerður var við VInnumálastofnun. Á meðal verkefna er skráning atvinnulausra, vinnumiðlun, samningar um starfsleit, starfsráðgjöf og -þjálfun, upplýsingagjöf, námskeið og sérfræðiaðstoð. Sigríður Jóna Jóhannesdóttir, forstöðumaður vinnumiðlunar, sagði að vel gengi að útvega fólki vinnu en um þessar mundir er atvinnuleysi á svæðinu aðeins 0,8%. Störfum mun fjölga Á fyrri hluta árs 1998 gerði MOA könnun í öllum fyrirtækjum á svæðinu í samvinnu við FS. Markmiðið með könnuninni var að safna upplýsingum um menntun vinnuafls á svæðinu og hugsanlegar framtíðarhorfur á þörfum atvinnulífsins fyrir menntað vinnuafl. Niðurstaðan var sú að fyrirtæki spá talsverðum vexti í starfsmannafjölda á næstu fimm árum og verður sú aukning að langmestu leyti í aukningu menntaðs vinnuafls. Samkvæmt könnuninni mun störfum sem krefjast iðnmenntunar fjölga um 52% á næstu misserum, en störfum ófaglærðra fækka um 11%. Þess má geta að rúmlega 90% skráðra atvinnulausra hjá vinnumiðlun eru ófaglærðir. Skortur á menntuðu starfsfólki Eftirtekt vakti í niðurstöðum könnunarinnar er að 30% fyrirtækja sögðu að ekki væri nægjanlegt framboð á menntuðu vinnuafli á svæðinu. Skorturinn er mestur á iðnmenntuðu fólki, t.d. smiðum, rafvirkjum, járniðnaðarmönnum o.s.frv. Einnig kemur fram að 38% fyrirtækja í fiskvinnslu kvarta undan skorti á menntuðu vinnuafli. Þessar niðurstöður ættu að vera hvetjandi fyrir ungt fólk sem nú er í skóla og eins fyrir þá sem huga að endurmenntun. Búast má við að samfélagið eigi eftir að gera enn meiri kröfur til menntunar en nú er. Áherslan á menntun og fjarnám Ólafur Kjartansson, framkvæmdastjóri MOA, sagði að skrifstofan væri í góðu samstarfi við Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum og fleiri aðila og nú væri m.a. verið að fara af stað með fjarkennslu í hjúkrunarfræðum á Suðurnesjum í samvinnu við Háskólann á Akureyri. Frá og með haustinu 2000 geta Suðurnesjamenn einnig stundað fjarnám í íslensku hjá Háskóla Íslands. Í nánustu framtíð mun námsleiðum í fjarnámi fjölga þannig að þetta á að öllum líkindum eftir að verða eftirsóknarverður kostur. Ekki er nóg að vera með vel menntað vinnuafl ef atvinnutækifæri eru ekki til staðar. Eitt af verkefnum MOA er að laða fleiri fyrirtæki til Suðurnesja og skapa þar með fjölbreyttari atvinnutækifæri m.a. með það fyrir augum að menntaðir einstaklingar hafi möguleika á að búa á svæðinu og starfa á sínu sviði. Aukið námsframboð í framtíðinni Fjölbrautaskóli Suðurnesja hefur ekki látið sitt eftir liggja í að því að koma til móts við vinnumarkaðinn. Næsta haust er t.d. verið að fara af stað með námsbraut fyrir verðandi flugfreyjur og flugþjóna. Suðurflug hefur einnig rekið flugskóla um nokkurt skeið og hefur hann notið mikilla vinsælda. Bæði Ólafur og Johan D. Jónsson, markaðs- og ferðamálaráðgjafi MOA, voru sammála um að nauðsynlegt væri að bjóða upp á námsleiðir sem tengjast fluginu á Suðurnesjum vegna nálægðar við Keflavíkurflugvöll. „Nálægðin við flugvöllinn hefur mikil áhrif á atvinnulíf hér á svæðinu og mér finnst að við ættum að sinna honum betur, framleiða sérþjálfað starfsfólk til slíkra starfa og vera best í því“, sagði Ólafur. Mörg spennandi verkefni bíða úrlausnar Hjá MOA er lögð sérstök áhersla á atvinnuþróun á svæðinu en Helga Sigrún Harðardóttir, atvinnumálaráðgjafi, hefur umsjón með þeim málaflokki sem er fylgt eftir samkvæmt samningi við Byggðastofnun. Helga Sigrún heldur utan um samstarfsverkefni af ýmsu tagi, heima og erlendis, og hefur umsjón með erlendum samskiptum á sviði atvinnumála, aðstoðar við styrk- og lánsumsóknir og sér um stefnumótun í atvinnumálum. Helga Sigrún er nýkomin til starfa hjá MOA og sagði að mörg spennandi verkefni biðu úrlausnar og stefnumótunarvinna. „Við erum að marka okkur ákveðna stefnu í markaðsetninug svæðisins og finna út hvers konar fyrirtæki við þurfum að fá á svæðið. Auk þess vinnum við með fyrirtækjum sem nú þegar hafa verið stofnuð eða tekið sér bólfestu á Suðurnesjum í því að þróa og víkka út sitt hlutverk“, sagði Helga Sigrún. Samræmd markaðssetning sveitarfélaga á Suðurnesjum Kynningar- og útgáfumál í atvinnu- og ferðaþjónustu, og auglýsingar og stefnumótun í markaðsmálum er meðal verkefna MOA. Ólafur tók þó sérstaklega fram að starfsemi MOA miðaðist ekki eingöngu að því að markaðssetja Reykjanesbæ heldur væri markaðssetning svæðisins alls gerð í góðri samvinnu við önnur sveitarfélög á Suðurnesjum. Vel heppnað samstarf Sterkir aðilar standa að baki MOA auk Reykjanesbæjar, þ.e. eins og fyrr segir Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum, Byggðastofnun, Vinnumálastofnun o.fl. Aðrir samstarfsaðilar eru fyrirtæki og stofnanir á Suðurnesjum og í því sambandi má nefna varnarliðið, ríkisstofnanir og fjármálafyrirtæki. Starfsemi MOA er til fyrirmyndar fyrir önnur sveitarfélög á Íslandi því skrifstofunni hefur tekist að samræma starfsemi á sviði atvinnu-, markaðs- og ferðamála og marka skýra stefnu á þessum sviðum. Víðtæk þjónusta Johan D. Jónsson er ferðamálafulltrúi skrifstofunnar en MOA hefur undirritað samning við Byggðastofnun og Ferðamálasamtök Suðurnesja. Johan hefur umsjón með rekstri Stekkjarkots og tjaldsvæðisins Stekks. Auk þess hefur hann umsjón með rekstri upplýsingamiðstöðvar fyrir ferðamenn, stefnumótun í ferðamálum, umsjón og yfirsýn yfir kaup- og ráðstefnur heima og erlendis, umsjón með samstarfsverkefnum í ferðaþjónustu og ráðgjöf til einstaklinga og fyrirtækja. Vinsælar hvalaskoðunarferðir Johan sagði að framtíð ferðaþjónustu á Suðurnesjum væri mjög björt en á undanförnum árum hefur framboð á gistingu og afþreyingu fyrir ferðamenn aukist gríðarlega og eftirspurnin sömuleiðis. Á síðasta ári heimsóttu t.d. 260 þúsund gestir Bláa lónið og stór hluti þeirra voru erlendir ferðamenn. Hvalaskoðunarferðir njóta sívaxandi vínsælda og á milli áranna 1998-1999 var 40% aukning ferðamanna sem fóru í slíkar ferðir. Um eitt þúsund manns heimsóttu Stekkjakot í Innri-Njarðvík, en þar getur fólk fengið fræðslu um lifnaðarhætti landsmanna fyrr á tímum. Jóhann sagði að það væru bæðí Íslendingar og útlendingar sem skoðuðu kotið. „Stöðugur vöxtur og fjölbreytni í rekstri veitingahúsa og stækkun og fjölgun gistihúsa bendir einnig til þess að ferðaþjónusta sé orðin lífvænleg og stöðug atvinnugrein á Suðurnesjum. Á árinu 1998 voru gistinætur rúmlega fjörutíuþúsund á svæðinu. Til marks um góðan rekstur og aðsókn að svæðinu má nefna að Hótel Keflavík var með bestu nýtingu á gistirými á landinu öllu í haust sem leið“, sagði Johan D. að lokum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024