Maríumessa í Keflavíkurkirkju í kvöld
-Konumessa í minningu móður Jesú-
Miðvikudagskvöld þann 12. desember klukkan 20:00 verður konumessa haldin í Keflavíkurkirkju til heiðurs Maríu Mey og er yfirskrift messunnar fyrirgefning, kærleikur og lækning. Allar konur eru hjartanlega velkomnar að sameinast í fallegri kirkjustund þetta kvöld 12.12.12 þar sem við minnumst Maríu, konunnar sem ól af sér soninn helga, Jesú Krist.
Þetta kvöld viljum við einnig heiðra minningu allra kvenna frá örófi alda. Við viljum þakka þeim fyrir allt sem þær hafa komið til leiðar fyrir kynsystur sínar og aðra íbúa jarðarinnar. Við viljum heiðra þær sem hafa þjáðst, glaðst, fætt af sér börn eða engin börn, verið til staðar fyrir aðra, tekið inn á sig fyrir aðra, verið viðkvæmar, verið sterkar, verið tryggar sama hvað, gert sitt besta til að allt fari vel, misstigið sig og gert mistök, verið niðurlægðar, upphafðar, lagðar í einelti, verið fíklar, verið heilsuhraustar, elskað, ekki getað elskað, fyrirgefið, ekki getað fyrirgefið, þráð lausn og lækningu, andans lækningu og líkamlega.
Þetta verður falleg stund í Keflavíkurkirkju á heilögum nótum þar sem Móður Jarðar er minnst ásamt Móðurinni miklu, Maríu Meyjar, með lofsöng og bæn. Fjallað verður um það sem vitað er um Maríu þegar hún var lítil, þegar hún var valin sem Móðirin mikla, þegar sonur hennar Jesús fæddist, þegar hann lifði og þegar hann dó, hvernig hún stóð til hliðar, var alltaf með en var samt í skugganum.
Það verður falleg tónlist, einsöngur og kórsöngur. Við munum biðja bænir til Maríu en það verður einnig þögul hugleiðslustund þar sem allar konur geta beðið um lausn inn í eigið líf og fyrirgefið öðrum, fortíð sinni og sjálfri sér, svo þær geti haldið áfram, verið hugrakkar, glaðar og opnað fyrir betra líf.
Komum saman kæru konur! Fyllum Keflavíkurkirkju og leyfum lifandi jóla anda að streyma inn í hjörtu okkar allra. Biðjum fyrir íbúum Jarðarinnar, fjölskyldum okkar, landi okkar og þjóð! Allar konur eru hjartanlega velkomnar í fallega kirkjustund 12.12.12 klukkan 20:00.