Marína Ósk með nýtt lag
Söngkonan Marína Ósk frá Keflavík hefur sent frá sér nýtt lag, sem ber heitið „Meðan höndin mín í hendi þinni hvílir“. Lagið er í söngvaskáldastíl og byrjar sem hlýlegt gítarpopplag sem þróast út í kraftmikið númer með trommum og kór sem drifinn er af tærri röddu Marínu. Lagið er hið fyrsta af væntanlegri breiðskífu sem kemur út í haust.
„Ég leitast við að finna það sem veitir mér hamingju í lífinu og eitt af því sem veitir mér hamingju og kveikir í mér tónlistarlega er einfaldur tærleiki. Lagið fjallar um hversu vel mér líður þegar höndin mín fær að hvílast í hendi míns betri helmings og hvernig sú athöfn getur gert lífið einfalt - þó ekki sé nema í smástund,“ segir Marína Ósk
Næstkomandi fimmtudag, eða þann 18.júlí, mun Marína Ósk koma fram á Freyjujazzi í Listasafni Íslands kl.17:15. Á tónleikunum mun Marína flytja lög af væntanlegri plötu ásamt öðru frumsömdu efni í jözzuðum stíl. Meðleikarar verða þeir Mikael Máni Ásmundsson rafgítarleikari og Róbert Þórhallsson rafbassaleikari.
Um verkefnið:
Marína Ósk leggur nú lokahönd á sína fyrstu plötu. Marína hefur einbeitt sér að jazznámi síðustu ár og á námsárum sínum í Amsterdam hóf hún að semja sína eigin tónlist. Tónlistin flokkast þó ekki undir hatt jazztónlistar sem slík en teygir sig frekar til stíls söngvaskálda þar sem einlægir textar og grípandi laglínur fléttast saman á lifandi hátt.
Platan, sem kemur út í byrjun hausts 2019, ber heitið Athvarf og vísar til þess að tónlist hefur ávallt verið Marínu einskonar athvarf og griðarstaður þar sem hægt er að hreiðra um sig og finna ró. Í gegnum textana liggur svo silfurþráður þar sem þessari tilfinningu er lýst á ólíkan hátt, oftar en ekki tengt veðurfari eða náttúrufyrirbærum, t.d. rigningu eða stormi, nótt eða morgni.
Upptökur fóru fram í Sundlauginni í mars 2019 og voru styrktar af Hljóðritasjóði Rannís. Ásamt Marínu spila þeir Mikael Máni Ásmundsson og Ásgeir J. Ásgeirsson á rafgítar og kassagítar, Lito Mabjaia á rafbassa og Þorvaldur Halldórsson á trommur. Þær María Magnússdóttir og Rakel Pálsdóttir sungu inn raddir, ásamt Marínu sjálfri.