Margt í gangi í bleikum október
Bleik messa, rökkurganga og bleik kvöld á veitingastöðum.
Síðan árið 2000 hefur októbermánuður verið helgaður árvekni um krabbamein hér á landi. Ýmis mannvirki eru lýst í bleikum lit í byrjun október og bleik slaufa í formi barmmerkis er seld til stuðnings baráttunni gegn krabbameinum hjá konum.
Helgina 24. og 25. október hafa nokkrir veitingastaðir á Suðurnesjum tekið að sér að halda bleikt kvöld og gefa hluta af ágóða sínum til félagsins. Suðurnesjamönnum gefst því kostur á að bregða undir sig betri fætinum og fara út að borða og njóta bleika kvöldsins með fjölskyldu og vinum og leggja um leið góðu málefni lið.
Veitingastaðirnir eru Flughótel og Hótel Keflavík í Reykjanesbæ, veitingastaðurinn Tveir vitar í Garði og veitingastaðurinn Vitinn í Sandgerði.
Sunnudaginn 26. október kl 20:00 verður haldin messa í Keflavíkurkirkju sem helguð verður konum og krabbameinum. Í lok mánaðarins verður gengin bleik rökkurganga sem er viðburður fyrir alla fjölskylduna til að taka þátt, en hún verður nánar auglýst á Facebook.