Margir vilja læra íslensku
MSS, eða Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, var stofnuð 10. desember 1997.
Meginhlutverk Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum er að efla sí- og endurmenntun íbúa Suðurnesja.
Með því að auka menntun og lífsgæði íbúanna, þá er verið að að efla einstaklingana og atvinnulífið um leið.
Forstöðumaður MSS er Guðjónína Sæmundsdóttir en hjá MSS starfa um tuttugu manns, auk fjölda kennara af ýmsu þjóðerni í hlutastörfum. Starfsfólk sem leggur metnað sinn í að veita ráðgjöf og persónulega þjónustu.
Okkur lék forvitni á að vita hvernig fólki af erlendum uppruna líður hér á Íslandi og hvernig þeim gengur að læra þetta blessaða móðurmál íslensku þjóðarinnar.
Það var létt að hafa uppi á tveimur viðmælendum sem báðar eru konur, önnur er frá Litháen en hin frá Serbíu. Karlarnir voru eitthvað feimnari við að koma í viðtal við Víkurfréttir.
Eru ánægðar á Íslandi
Þær Jurgita Milleriene, frá Litháen, og Branka Petrusic, frá Serbíu, sögðu frá mörgu forvitnilegu þegar við hittumst á Miðstöð símenntunar í Reykjanesbæ.
Sveindís Valdimarsdóttir kom þessu stefnumóti í kring og sat með okkur, enda þekkir hún mjög vel til staðhátta þeirra erlendu íbúa sem búa á Suðurnesjum og hefur sjálfsagt kennt mörgum þeirra íslensku. Sveindís er einn reyndasti íslenskukennari hjá MSS en hún hefur starfað hjá stofnuninni í yfir fimmtán ár. Þar er reynslubolti á ferð hvað varðar íslenskunám fyrir útlendinga.
Þær Jurgita og Branka eru báðar ánægðar á Íslandi. Branka var að leita að friði en Jurgita fylgdi eiginmanni sínum sem fór hingað til að vinna og ætlaði bara að stoppa stutt. Jurgita hefur búið hér á landi í tuttugu ár en Branka í rúm tvö ár. Jurgita kennir íslensku en Branka er að læra íslensku.
Maðurinn minn vildi prófa að vinna hér
„Árið 2001 kom ég. Maðurinn minn vildi prófa eitthvað nýtt og fór til Íslands að vinna í fiski. Ég var að klára BA prófið mitt í litháísku tungumáli og bókmenntum heima í Litháen og hlakkaði til að byrja að kenna í heimalandi mínu. Þetta var pínu sorglegt því hann ætlaði bara að vera í sex mánuði á Íslandi en svo vildi hann vera áfram. Í dag starfar hann við ferðaþjónustuna en er atvinnulaus. Þegar ég flutti hingað, þá þurfti ég að byrja upp á nýtt. Ég vildi byrja að læra í Háskóla Íslands og kláraði BA próf í íslensku. Eftir það fór ég að læra leikskólakennarafræði og vann á leikskóla í Reykjanesbæ í níu ár. Þá langaði mig að breyta til og hafði samband við Sveindísi á MSS því mig langaði að kenna íslensku fyrir útlendinga og fór einnig að kenna í Reykjavík. Í dag er ég deildarstjóri við Háaleitisskóla á Ásbrú,“ segir Jurgita á mjög góðri íslensku.
Við vorum að leita að friði
„Ég kom til Íslands árið 2018 því hér er lífið betra en í Serbíu. Við vorum að leita að friði. Við hjónin erum bæði með vinnu, ég er hjá Algalíf sem er þörungaverksmiðja á Ásbrú og býr til fæðubótaefnið Astaxanthin. Það er mjög gott að vinna þar. Maðurinn minn er að mála hjá Magga og Daða og hann er líka mjög ánægður í vinnu. Við erum bæði að læra íslensku því við viljum búa hér í framtíðinni og þá er betra að tala málið og skilja íslensku,“ segir Branka sem er frekar feimin við að tala íslensku en lætur sig hafa það og hlær mikið að sjálfri sér. Sveindís hvetur hana til að æfa sig í þessu spjalli okkar. Branka talar um að henni finnist erfitt að tala íslensku af því henni finnst hún ekki hafa nógu góð tök á málinu. „Það kemur með æfingunni,“ segir Sveindís.
Báðar með barnafjölskyldur
Branka og Jurgita eiga báðar börn sem þær segja að séu að fóta sig vel á Íslandi. Þetta eru samt ennþá mikil viðbrigði fyrir börnin hennar Brönku því þau komu hingað nýlega.
„Börnin mín eru ellefu ára og sextán ára og þeim gengur nokkuð vel að læra íslensku. Stelpunni gengur samt aðeins betur, hún er yngri. Þau eru bæði að læra málið. Strákurinn minn er í FS og þar tala krakkarnir oft ensku við hann sem er ekki gott. Þá æfist hann ekki í íslensku. Ég er sjálf feimin við að tala íslensku en ég vil að Íslendingar tali við mig á íslensku en ég þarf að tala hægt. Ég er að æfa mig. Íslendingar eru góðir við mig og hlusta á mig tala þó ég sé stundum lengi að segja eitthvað. Mér líður vel á Íslandi, hér er gott fólk. Ég hlusta á íslenska tónlist sem mér finnst mjög skemmtileg. Það hjálpar mér að skilja meira í íslensku þegar ég hlusta á íslensk lög. Ég les dagblöðin því ég vil vita hvað er að gerast á Íslandi. Ég er líka að lesa barnabækur til að læra fleiri orð á íslensku,“ segir Branka og hlær en Sveindís bendir á að það sé einmitt sniðugt að gera þegar fólk er að læra tungumál, að lesa einfalt mál eins og er í barnabókum.
„Börnin okkar þrjú eru öll fædd á Íslandi og tala íslensku eins og innfæddir. Þú heyrir það ekki að þau eru ekki íslensk, þau hafa engan hreim þegar þau tala íslensku. Við tölum samt litháísku heima hjá okkur, fjölskyldan, til að viðhalda móðurmálinu okkar. Við skírðum þau öll lítháískum nöfnum því við viljum virða ræturnar okkar. Þau eiga íslenska vini og þeim gengur vel á Íslandi, eru dugleg að læra. Börnin okkar eru fimmtán ára, ellefu ára og tíu ára. Tvær stelpur og einn strákur,“ segir Jurgita og brosir.
Íslendingar stundum fyndnir
Það var forvitnilegt að hlusta á Jurgitu og Brönku tala um það sem þeim finnst einkennandi fyrir marga Íslendinga sem þær hafa kynnst. Venjur og siðir á Íslandi eru um margt ólíkt því sem þær eiga að venjast í heimalandi sínu.
„Það er fyndið hvað Íslendingar segja oft HA! – og gretta sig smávegis í andlitinu í leiðinni. Svo segja þeir oft Heyrðu! – eða Ég ætla að fá! Stundum virka þeir ókurteisir en eru það ekki, þetta er bara svona hér. Íslendingar eru óformlegir. Svo þegar þeir svara í síma þá segja þeir beint við mann; Hver ert þú? Íslenskt mál og málvenjur er stundum pínu ókurteisar hér, fólk talar bara beint út. Mér fannst mjög erfitt fyrst að nefna kennarana mína skírnarnafni í háskólanáminu mínu hér á landi, því í Lítháen segjum við kennari en ekki nafnið hans. Við erum mun formlegri en þið. Nú ,eftir tuttugu ár, er ég orðin vön þessum siðum Íslendinga og þegar ég kenni erlendum börnum þá þarf ég oft að segja við þau að kalla mig bara Jurgitu þegar þau kalla mig kennara. Ég útskýri jafnframt fyrir þeim að á Íslandi þarf ekki að ávarpa kennarann formlega,“ segir Jurgita.
Áhugavert finnst blaðakonu, það er kannski þess vegna sem stéttaskipting er ekki eins áberandi í tungutaki okkar, því hér á landi ávörpum við alla eins, hvort sem það er forsetinn eða aðrir.
„Mér finnst fyndið hvað Íslendingar segja oft Sko. Fyrst var ég að hugsa hvers vegna þeir væru alltaf að segja þetta litla orð en nú veit ég að þeir segja þetta bara til að leggja áherslu á orðin sín. Það er erfitt að læra íslensku en ég vil læra tungumálið því ég vil búa hér og þá veit ég að það er betra fyrir mig að tala íslensku. Ég vil skilja hvað er að gerast hér á Íslandi,“ segir Branka.
Þær vilja kynnast landi og þjóð
„Ég ólst upp í fjölskyldu í Litháen sem sótti menningarviðburði, fór á tónleika og í leikhús. Þetta vildi ég einnig gera hér á Íslandi og þess vegna var mjög áríðandi fyrir mig að læra íslenskt mál, ég vildi skilja allt. Vera eins og aðrir íbúar þessa lands. Horfa á íslenskan fréttatíma, vita hvað er að gerast og lesa íslenskar bækur. Maður verður að læra tungumálið til að geta tekið betur þátt í samfélaginu,“ segir Jurgita og Branka bætir við: „Ég segi það líka, ég vil læra íslensku því ég vil búa hér í framtíðinni og taka þátt.“
„Fyrst þegar ég kom hingað fyrir tuttugu árum þurfti ég að klára fjögur íslenskunámskeið en þá var það skylda ef maður vildi búa hér og starfa. Svo vantaði starfsfólk inn í landið og þá voru allar svona kröfur settar til hliðar og fólk þurfti ekkert sérstaklega að læra íslensku,“ segir Jurgita.
„Já, það er rétt,“ segir Sveindís og heldur áfram; „en í dag þurfa samt þjóðir utan Evrópusambandsins að læra íslensku, taka 180 klukkustunda íslenskunámskeið ef það vill starfa hér á landi. Fólk er skikkað í þetta nám og þarf að sýna pappíra upp á það. Spurning hversu mikill raunverulegur áhugi er hjá fólki sem er skyldað í íslenskunám? Annars er það svo að langflestir sem ætla og vilja búa hér til langframa vilja læra málið, því það hjálpar þeim að komast betur inn í samfélagið. Það er ákveðið öryggi að tala íslensku þegar þú býrð hér því þá veistu betur um réttindi þín og skyldur. Það er nauðsynlegt að geta bjargað sér. Þá er einnig minni hætta á að aðrir geti spilað með þig því þú veist hvernig hlutirnir ganga fyrir sig hér og skilur það sem sagt er í kringum þig.“
Með auknum fjölda íbúa á Íslandi af erlendum uppruna á undanförnum árum, þá hefur að sama skapi íslenskunámskeiðum fjölgað gífurlega.
Á námskeiðunum hjá MSS er lögð áhersla á talað mál, að skrifa íslensku í gegnum hlustun, samræður, ritun og málfræði fléttast einnig inn í námsefnið á námskeiðunum. Lögð er áhersla á að íslenskt mál nýtist til daglegrar notkunar.
Íslenskunámskeiðin eru ekki árstíðabundin heldur er farið af stað með nýtt námskeið þegar næg þátttaka hefur náðst í hóp. Fólk af erlendum uppruna og fyrirtæki hafa samband við MSS og lætur vita af áhuga sínum.
Allskonar íslenskunámskeið í boði hjá MSS
Sveindís bendir á að alltaf séu íslenskunámskeið í gangi hjá MSS en námskeiðin eru kennd miðað við eftirspurn. Fólk þarf að hafa samband við MSS og láta vita af áhuga sínum. Þegar nógu margir eru skráðir þá fer af stað námskeið.
„Við hjá MSS höfum sinnt íslenskunámi fyrir útlendinga í mörg ár. Sem stendur eru um 180 íslenskunemendur í MSS á 1.–3. stigi. Það er auðvelt að skrá sig inn á heimasíðu okkar, mss.is. Ef fólk er með einhverjar sérþarfir, óskar eftir einkakennslu eða kennslu inni í fyrirtækjum þá hvetjum við það til að hafa samband við okkur hjá MSS og láta vita af áhuga sínum. Þegar nógu margir eru skráðir þá fer af stað námskeið og þetta á við um tungumálanámskeið hjá okkur almennt. Við erum til dæmis núna með spænskunámskeið í gangi, sem varð til einmitt vegna fyrirspurna og áhuga fólks fyrir slíku námi. Fyrirtæki hafa sent til okkar erlent starfsfólk sitt eða kallað eftir íslenskukennslu beint inn á vinnustaðina frá okkur en þá er kennd íslenska þegar lítið er að gera í viðkomandi fyrirtæki. Við höfum farið með þessi námskeið til dæmis inn á veitingastaði og í fiskverkunarhús. Fólk er oft þreytt á kvöldin en er meira opið fyrir íslenskunámi fyrri part dags.“
Fyrirtæki eru að bjóða starfsfólki fría íslenskukennslu
„Það er frábær hugmynd hjá fyrirtækjum að gera þetta svona, nýta vinnutímann til íslenskunáms, til dæmis á tímabilum þegar lítið er að gera í fyrirtækjum eða strax að lokinni vinnu. Nýta auða tímann til að fræða starfsfólk sitt. Þá fræðum við hjá MSS einnig um menninguna í landinu, hvers má vænta og fleira sem hjálpar fólki að fóta sig betur hér. Það græða allir á að starfsmennirnir tali íslensku, ekki bara í þjónustustörfum heldur einnig í öðrum störfum. Það er hinsvegar svo að það skiptir verulegu máli hvaðan fólk er að koma. Það er ekki jafn auðvelt fyrir fólk með til dæmis arabísku eða kínversku að móðurmáli að læra íslensku eins og fólk sem er vant okkar stafrófi og við þurfum svo sannarlega að bregðast sérstaklega við því. Nú er komin upp sú staða á Íslandi að erlendum ferðamönnum hefur fækkað og íslenskir ferðamenn eru meira áberandi. Þeir vilja örugglega langflestir tala móðurmálið sitt innanlands. Það skapar því oft ákveðinn pirring hjá sumum þegar þeir þurfa að panta á ensku á veitingahúsi eða kaffihúsi til að fá þjónustu. Það er eiginlega lágmarkskrafa veitingahúsa að hvetja starfsfólk sitt á íslenskunámskeið og greiða leið þeirra til þess að læra málið. Miklu fleiri fyrirtæki þurfa að leggja metnað sinn í þetta. Íslensk yfirvöld mættu einnig taka á þessum málaflokki, bjóða upp á frítt íslenskunám fyrir fólk sem langar að setjast að hér á landi. Það er nauðsynlegt að fólk læri málið til að skilja samfélagið. Nýtt fólk getur auðgað samfélagið okkar, komið inn með nýjar hugmyndir, þannig að sú fjárfesting, að kenna íslensku frítt, margborgar sig. Þetta gera aðrar Norðurlandaþjóðir, hjálpa fólki að fóta sig og allir græða. Það hjálpar nýjum íbúum að bjarga sér sjálfir. Þau skilja betur hvernig kerfið okkar virkar en það þurfum við öll að vita þegar við setjumst að í nýju landi. Hvert land hefur eigið kerfi, sína siði og sínar reglur. Fólkið sem kemur til okkar til að vinna er yfirleitt mjög öruggt og tryggt fólk, það er reynsla mín. Það kemur frá landi þar sem atvinnuleysi er mikið og kann því virkilega vel að meta að fá atvinnu. Þau eru þakklát. Mörg ætla sér að vera tímabundið en svo líkar þeim mjög vel hér á landi og ílengjast. Það gera það langflestir,“ segir Sveindís.
Vilja fínpússa kunnáttu sína í íslensku
Þegar fólk hefur náð grunnfærni í íslensku, eftir fjögur til fimm námskeið og er farið að geta bjargað sér þá koma margir og biðja um framhaldsnámskeið segir Sveindís.
„Ég er mjög stolt af þeim Jurgitu og Brönku. Það er alls ekki létt að læra íslensku, meðal annars vegna málfræðinnar. Móðurmál þeirra eru mjög ólík okkar. Þær standa sig mjög vel. Svo er gaman að segja frá því að þegar fólk er búið með fimm fyrstu íslenskunámskeiðin hjá MSS og er farið að æfa sig úti í samfélaginu þá koma margir og biðja um framhaldsnámskeið. Fólki langar til að tala rétt, beygja rétt, sökkva sér í íslenska málfræði og læra orðatiltæki. Það er gaman að því. Nokkur af þeim sem voru í upphafi nemendur hjá okkur, eru í dag að kenna hjá okkur íslensku, eða hafa aðstoðað okkur á einn eða annan hátt við þýðingar. Þá bjóðum við einnig upp á túlkanámskeið en mikil þörf er fyrir túlkaþjónustu hér á svæðinu, þar sem um það bil 25% íbúa eru af erlendum uppruna. Það er mjög gefandi í starfi að fylgja íslenskunemendum okkar yfir á túlkanámskeið, sem gefur þeim möguleika á atvinnu,“ segir Sveindís að lokum um leið og við þökkum konunum fyrir skemmtilegt spjall.