Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Margir Suðurnesjamenn að gera góða hluti
Rósa Guðmundsdóttir.
Miðvikudagur 8. janúar 2014 kl. 09:35

Margir Suðurnesjamenn að gera góða hluti

Rósa Guðmundsdóttir, rafeindavirki, kerfisstýra og kennari, gerir upp árið 2013.

Rósa Guðmundsdóttir, rafeindavirki, kerfisstýra og kennari, gerir upp árið 2013.

Hvað stóð upp úr í fréttum ársins 2013 á Suðurnesjum?
Fyrir mig voru það menntamálin á Suðurnesjum. Annars vegar komu niðurstöður samræmdra prófa mjög vel út fyrir svæðið en hins vegar voru niðurstöður PISA könnunar ekki alveg nógu góðar og ástæða til að kíkja á hvað veldur. En menntunarstig á Suðurnesjum hefur hækkað jafnt og þétt síðustu árin sem er náttúrulega frábært fyrir svæðið í heild.

Hvaða Suðurnesjamaður var mest áberandi að þínu mati þetta árið?
Það eru svo margir Suðurnesjamenn sem mér finnst hafa verið áberandi þetta árið en þó finnst mér þingkonurnar okkar hafa verið hvað mest í landspressunni, þ.e. Ragnheiður Elín, Silja og Oddný af þeim Suðurnesjamönnum sem koma reglulega fram í fjölmiðlum.

Hvað var það jákvæðasta sem gerðist á árinu?
Uppgangur í ferðaþjónustunni og sú staðreynd að miskunnasami samverjinn skuli enn vera starfandi í þurfandi samfélagi. Mörg samtök og einstaklingar sem hafa látið gott af sér leiða undanfarið ár.

En það neikvæðasta?
Skuldastaða Suðurnesjamanna og allar þær íbúðir sem standa tómar og eru í eigu Íbúðalánasjóðs. Sorglegt að keyra sumar götur í Reykjanesbæ þar sem margar íbúðir standa tómar.

Hvað stóð upp úr persónulega hjá þér á þessu ári?
Stórafmæli, fjölskylduferð í sólina, bústaðardvöl í Borgarfirðinum og brúðkaup hjá frænku á erlendri grundu.

Ætlar þú að strengja áramótaheit?
Nei, hef ekki hugsað mér að gera það. Á samt nokkur „gömul“ heit sem enn hefur ekki tekist að uppfylla svo ég held bara áfram að vinna í þeim.

Hvað jákvæðu breytingar viltu sjá á Suðurnesjum á nýju ári?
Að hjól atvinnulífsins fari aftur að rúlla og í kjölfarið sigli efnahagur fólksins upp á við sem jafnvel ýti húsnæðismarkaðnum í gang. Annars væri það óskandi að ríkisreknar stofnanir á svæðinu (eins og HSS og FS) fengju fjárframlög til jafns við sambærilegar stofnanir annars staðar á landinu. Finnst það ólíðandi að Suðurnesjamenn séu aftur og aftur settir í annað sæti miðað við aðra landsmenn þegar bornar eru saman úthlutanir á fjárlögum milli stofnana.

Hvaða Suðurnesjamanni hefurðu mesta trú á og hvers vegna?
Það eru ótal margir Suðurnesjamenn að gera góða hluti, ekki bara hér á svæðinu heldur út um heim allan. Ég hef trú á öllum þeim Suðurnesjamönnum sem standa framarlega í frumkvöðlastarfi á sviði upplýsinga- og tölvutækninnar. Marga aðilar sem eru að gera góða hluti en standa fjarri kastljósi fjölmiðla.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024