Margir smeykir við sígilda tónlist
-Harpa Jóhannsdóttir básúnuleikari og tónlistarkennari er formaður Tónlistarfélags Reykjanesbæjar
Harpa Jóhannsdóttir, básúnuleikari og tónlistarkennari, hefur staðið í stafni í Tónlistarfélagi Reykjanesbæjar undanfarin ár en ný stjórn var kosin á aðalfundi félagsins á dögunum sem hyggur á metnaðarfullt tónleikahald fyrir bæjarbúa á næstu misserum.
Tónlistarfélag Reykjanesbæjar var stofnað fyrir 59 árum, þann 24. október 1957, en á sama fundi var ákveðið að setja á laggirnar Tónlistarskólann í Keflavík, nú Reykjanesbæjar, en í þeim skóla hafa margir af fremstu tónlistarmönnum þjóðarinnar, fyrr og síðar, stigið sín fyrstu skref. Tónlistarfélagið hefur því ávallt verið samofið starfi tónlistarskólans en markmið þess er að bjóða upp á fjölbreytta sígilda tónlist fyrir heimamenn.
Nýja stjórn skipa ásamt Hörpu Sandra Rún Jónsdóttir og Birta Rós Sigurjónsdóttir en allar eru þær kennarar í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. „Þannig að samstarfið okkar á milli verður leikur einn,“ segir Harpa sem eitt sinn var nemandi í tónlistarskólanum en hún áttaði sig á því um daginn að 20 ár eru liðin síðan hún blés fyrst í lúður.
„Ég tók við sem formaður tónlistarfélagsins haustið 2014 og er ég nokkuð stolt af því sem við höfum gert. Á þessum tveimur árum höfum við staðið fyrir samtals átta tónleikum með tónlistarhópum af ýmsu tagi, meðal annars strengjakvartett, málmblásturskvintett og nú síðast slagverksdúett. Við leggjum sem sagt áherslu á að bjóða íbúum upp á sígilda tónlist í sinni breiðustu merkingu. Tónleikarnir hafa verið misvel sóttir enda margir smeykir við þessi orð „sígild tónlist“. Það þarf þó ekkert að óttast og þeir sem eru plataðir á þessa viðburði án þess að vita við hverju megi búast ganga út í flestum tilvikum með bros á vör og spenntir að koma á næstu tónleika. Við höfum reyndar séð það að best sóttu tónleikarnir eru þeir sem heimafólk eða fólk sem tengist svæðinu koma fram á, þannig að það er og verður okkar aðal áhersla.“
Hljómahöllin hefur stuðlað að auknum þroska í tónleikahaldi í bæjarfélaginu
Hljómahöllin hefur að sögn Hörpu breytt miklu hvað varðar tónleikahald félagsins en allir tónleikar þess hafa farið þar fram frá því að hún tók við formennsku. „Að eiga og hafa aðgang að svona húsi er gríðarlega mikilvægt, bæði fyrir hljóðfæraleikara og íbúa á svæðinu. Þeir hljóðfæraleikarar sem hafa komið fram á okkar vegum eru alltaf í skýjunum yfir hljómburði salanna og hljóðfærakosti. Það hefur mikið að segja að allir séu ánægðir því orðið er fljótt að berast og reglulega fáum við fyrirspurnir frá öðrum hljóðfærahópum sem eru spenntir að spila í Hljómahöll. Eftir að Hljómahöll opnaði hefur tónleikahald í Reykjanesbæ tekið út mikinn þroska, meira er í boði og tónlistin fjölbreyttari.“
En eru íbúar duglegir að sækja tónlistarviðburði?
„Íbúar svæðisins eru frekar duglegir að mæta á tónleika, sérstaklega ef fram koma þekktar hljómsveitir eða hljóðfærahópar sem tengjast svæðinu. En ég vil endilega hvetja íbúa til að taka áhættu og skella sér á tónleika þó þeir viti nákvæmlega ekkert við hverju megi búast. Við leggjum mikla áherslu á að miðaverð sé lágt og félagar Tónlistarfélagsins fá 20 prósent afslátt af miða á alla okkar tónleika.“
Næstu tónleikar verða haldnir í samstarfi við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar í nóvember. Þá kemur fram gítarsnillingurinn Arnaldur Arnarson og heldur einleikstónleika en hann hefur verið búsettur í Barcelona í þrjá áratugi og rekur þar tónlistarskóla og gítarbúð. „Þetta eru mjög spennandi tónleikar fyrir alla gítarnemendur og gítaráhugafólk,” fullyrðir Harpa af sannfæringu.
Harpa með Söndru Rún Jónsdóttur, þær eru tvær af þremur í stjórn félagsins.
Heimstúr með Björk og lúðrasveitarlíf
Bakgrunnur Hörpu í tónlist er orðinn ansi langur að eigin sögn en hún var nemandi í Tónlistarskóla Keflavíkur sem síðar varð Tónlistarskóli Reykjanesbæjar og stundaði þar nám á hina ýmsu lúðra.
„Ég kom við í Tónlistarskólanum í Reykjavík í eitt ár áður en ég svo fór í Listaháskóla Íslands þar sem ég síðar útskrifaðist með B.A. gráðu í skapandi tónlistarmiðlun með áherslu á hljómsveitarstjórnun. Inn á milli skólagöngunnar og eftir hana hef ég svo verið dugleg að „gigga“ með ýmsum hljómsveitum, bæði úr heimi poppsins og klassíkarinnar. Það sem hefur augljóslega staðið upp úr var 18 mánaða heimstúr með tónlistarfrumkvöðlinum Björk Guðmundsdóttur en það er líka fáránlega skemmtilegt að spila og ferðast með hljómsveitinni Valdimar. Þessa dagana er ég að æfa með Láru Rúnars og hljómsveit hennar fyrir Iceland Airwaves sem fer fram fyrstu helgina í nóvember. Þetta er í fyrsta skipti sem ég spila með henni og ég er frekar spennt fyrir þessum tónleikum.“
Tónleikarnir 100% ásláttur slógu í gegn á dögunum og komu þeir skemmtilega á óvart.
En þrátt fyrir spennandi poppverkefni er Harpa fyrst og fremst tónlistarkennari og lúðrasveitarstjórnandi í hjarta. „Án lúðrasveitar er lífið tómlegt og því má búast við mér þar innanborðs að eilífu. Ég hef starfað og kennt við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar í átta ár og líkar mjög vel við það starf, sérstaklega eftir að við fluttum í ný og glæsileg húsakynni okkar í Hljómahöll. Það verður spennandi að bjóða þar upp á fjölbreytta tónleika og vonandi sé ég sem flesta þar í vetur.“
Harpa með Dögg Halldórsdóttur, nemanda við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Þar hefur Harpa starfað í átta ár.