Marga krakka langar að styrkja sjálfsmyndina
Halda sjálfstyrkingarnámskeið fyrir börn.
„Marga krakka langar að styrkja sjálfsmyndina og auka sjálfstraustið, læra að þekkja styrkleika og kosti sína. Þau læra einnig að höndla höfnun og gagnrýni og standa með sjálfum sér. Þetta er í senn fjölbreytt, fræðandi og skemmtilegt og hentar að sjálfsögðu bæði stúlkum og drengjum 10-16 ára. Þá er markmið með námskeiðinu er að efla félagsfærni, samskiptahæfni og tilfinningaþroska. Farið verður í hópeflisleiki og sjálfstyrkingarleiki, hellaskoðun og nærumhverfið skoðað. Einnig er létt hressing er innifalin og grillveisla verður svo í lokin,“ segir Gyða Laufey Kristinsdóttir, ein þeirra fjölmörgu sem standa að námskeiðinu Kátir krakkar. Um er að ræða sjálfsstyrkingarnámskeið fyrir börn og unglinga af Suðurnesjum sem vilja öðlast frelsi til að vera þeir sjálfir.
Reynslumiklir leiðbeinendur
Námskeiðið stendur í viku, fjórir tímar ár dag og aldurs- og kynjaskipt að hluta. „Það er byggt upp með skemmtilegum fyrirlestrum og leikjum. Farið er í Frumleikhúsið, Danskompaníið og hellarnir á Reykjanesi eru skoðaðir. Leiðbeinendur hafa mikla og faglega reynslu af því að vinna með börnum og unglingum. Það eru Bryndís Knútsdóttir, hárgreiðslumeistari og kennari, Elva Björk Traustardóttir, með B.Sc. gráðu í næringarfræði, Gyða Laufey Kristinsdóttir snyrtifræðingur og förðunarmeistari, Ragnheiður Guðfinna Guðnadóttir félagssálfræðingur, Sjöfn Jónsdóttir, íþróttaþjálfari og listhönnuður, Guðný Kristjánsdóttir, leiðbeinandi Gargandi snilld, Helga Ásta Ólafsdóttir danskennari í Danskompaníinu og Sólrún Steinarsdóttir leiðbeinandi.
Jákvæð viðbrögð og meðbyr
Námskeiðið fer fram í Fjölskyldusetrinu Skólavegi 1 og einnig í 88 húsinu að Hafnargötu 88 í Reykjanesbæ. Það hefst 22. júní. Sigtryggur Steinarsson sér um skráningu á heimasíðunni www.katirkrakkar.is, þar sem finna má nánari upplýsingar um námskeiðið. Einnig er til fésbókarsíðan Kátir krakkar. Bæklingur um námskeiðið kom út á fimmtudag út og verður dreift á heimili á Suðurnesjum. „Við höfum fengið jákvæð viðbrögð og mikinn meðbyr frá fyrirækjum í tengslum við þetta. Nettó ætlar að gefa mat fyrir börnin, Oddgeir Karlsson gaf myndatöku, HS Orka ætlar að styrkja aðeins og Reykjanesbær styrkir með því að veita okkur húsnæði undir þetta,“ segir Gyða að lokum.